Villta Westrið
Það er ekki óhugsandi að aðkoma nýrra stjórnenda KMÍ inní gamla Kvikmyndasjóðs Íslands kúltúrinn hafi verið einsog að koma inná klósett í flugvél þar sem einhver hefur verið að reykja. En ef mark á að taka af yfirlýsingum SÍK um "...rugl" á fyrrum kvikmyndasjóð, þá var það ekki svo spaugilegt. Stjórn SÍK, þar sem fulltrúar "gamla tímans" sitja, hafa flestir tengst kvikmyndasjóð nokkrum böndum og ekki alltaf auðvelt að greina á milli. SÍK er eina virka félag fagsins, ef við gefum okkur að FK (Félag Kvikmyndagerðarmanna) sé klúbbur, einsog formaður þess hefur sagt. Því er staða SÍK nokkuð sér á parti, og margir félagsmenn þar öflugir kvikmyndagerðarmenn. Það er þó engu líkara en að stjórnarmeðlimir hafi hver og einn fengið kókoshnetu í hausinn sl. haust, því róttæk viðhorfsbreyting stjórnarinnar sýndi 180 gráðu beygju á innan við fimm mánuðum. Sjaldan hefur fagpólitík einnar stjórnar í neinu fagi svo ég get nefnt verið beinlínis stefnt gegn eigin hagsmunum, og birst svo augljóslega.
Í svari stjórnarinnar við fyrirspurn um áliti samtakanna um hlutverk 60/40 skiptireglunnar í september sl. og höfnun KMÍ á reglunni, segir m.a. að "... ætti öllum að vera ljóst að þó að sett hafi verið regla um hægt sé að skjóta umsóknum um full fjármagnaðar myndir beint til Forstöðumans, þá hefur kvikmyndasjóður yfir takmörkuð fjármagni að ráða og mun örugglega ekki hafa fjárráð til að fjármagna allar myndir sem fjármagnast."
Ef þetta tal er norður, þá var aðeins fimm mánaða gömul skýrsla stjórnar SÍK tal í suður, þar segir, "Það hjálpar líka ekki baráttunni fyrir auknu fjármagni í Kvikmyndasjóð að við skulum ekki koma út hraðar því fjármagni sem í sjóðnum er". Einnig minnug þessara orða, "...Einnig þótti mönnum mikilvægt að koma á einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun. Þannig að þeir sem geta útvegað 60% fjármagns geti gengið það því sem nokkuð vísu að Kvikmyndasjóður myndi koma með þau 40% sem upp á vantaði."
Var þessi "sjálfvirkni" þá aðeins fyrir stjórn SÍK? Hmmmm. Ég er illa svikinn ef þessi stjórn nær endurkjöri. Svo segir í svari SÍK, "Ennþá á eftir að móta endanlega stefnu um hverskonar myndir komi til með að hafa forgang varðandi þessa styrki og mun Kvikmyndamiðstöð og kvikmyndagerðarmenn beita sér fyrir ráðstefnu í desember þar sem þessi mál verða rædd."
Enn hef ég ekki heyrt af ráðstefnu, en hef heyrt yfir hafið að samráðsfundur í lok nóvember sl. hafi verið settur inná völlinn í stað ráðstefnunnar. Hvaða stefnumörkun og áherslur komu útúr því hefur enn ekki séð dagsins ljós. Það vekur líka athygli hversu sjálfsagt það þykir að hefja starfsemi og úthlutun KMÍ án þess að fyrir þessu hafi verið hugsað. Í svari forstöðumanns KMÍ við fyrirspurn um skiptiregluna sem barst um svipað leiti í september sl., og sem fékkst þó ekki fyrr en eftir tilbeina ráðuneytis, segir m.a., og þar er annar tónn en hjá SÍK, "ekki er von á ítarlegri reglum en finna má í reglugerð um Kvikmyndasjóð enda var hún send öllum samtökum hagsmunaaðila í kvikmyndagerð til umsagnar áður en menntamálaráðuneytið gaf hana út fyrr á árinu."
Ef SÍK er að tala í vestur, er þá KMÍ að tala í austur? Kannski eru deilur í gangi á milli SÍK og KMÍ, kannski er stjórn SÍK hópur "óánægðra viðskiptavina sem grípa munu hvert tækifæri sem gefst til árása á miðstöðina", ég veit það ekki, "I'm confused". Nema hvað, allt tal um skiptireglu hefur fram á þennan dag verið blekking, ekki aðeins gagnvart faginu í heild, heldur er þetta á skjön við stjórnarsáttmála a.m.k. tveggja síðustu ríkisstjórna um breytingar á opinberum stofnunum. Í "prinsippi" má bera þetta saman við umræðu um línuívilnun, nema hvað við hana hefur verið staðið. Húrra fyrir vestfirskum sjómönnum.
Undralandi
Það er rétt að gera greinarmun á stefnu og reglugerð, en spurning er, er hægt að taka mark á og treysta stefnu ef hún er ekki bundin í reglugerð. Þegar stefna KMÍ er óljós, þá hafa fagmenn ekki annan valkost en að ímynda sér hlutina byggða á fyrri úthlutunum, og það getur verið kostnaðarsamt. Í anda orða formanns SÍK sem vitnað er í, í fyrri grein, "...alltaf mjög mikilvægt að hjá Kvikmyndamiðstöð sé allt gegnsætt, allt á hreinu og að allir hlutir séu afgreiddir faglega..." þá kemur KMÍ verulega á óvart.
Hin fræga umsögn annars kvikmyndaráðgjafa sem átti að fjalla um eina tiltekna umsókn en minntist ekki orði á hana, birtist hér: "Sem kvikmyndaráðgjafi lít ég svo á að það sé forgangsverkefni mitt að koma efnilegum nýjum íslenskum kvikmyndaverkefnum áleiðis með því að stuðla að því að þau hljóti stuðning til handritsgerðar, -þróunar eða framleiðslu. Vegna þess hve fjárhagur Kvikmyndamiðstöðvar er takmarkaður er þörf á mjög strangri forgangsröðun. Ég treysti mér ekki til að mæla með því að umsóknir um eftirvinnslustyrki hljóti forgang. Eftirvinnslustyrkir eru í mínum huga afar varasamir yfir höfuð, því hætt er við að þeir verki sem nokkurs konar "tapstyrkir" og veiti kvikmyndagerðarmönnum sem endilega vilja taka verulega fjárhagslega áhættu falska von um björgun eftirá. Slíkt er í raun óbein hvatning til afar áhættusamra fjárfestinga og ég vil ekki taka þátt í slíku. Ég mæli ekki með því að orðið verði við þessari umsókn. September 2003 Sveinbjörn I. Baldvinsson"
Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um þetta, en aðalatriðið er kannski að undir venjulegum kringumstæðum er stefnu að þessu tagi komið til skila áður en starfsemi hefst og auglýst eftir umsóknum. Af gefnu tilefni óskaði fyrirtæki okkar svo eftir staðfestingu á því að þessi umsögn hafi verið skrifuð áður en ákvörðun var tekin, einsog reglur gera ráð fyrir, en það hefur ekki fengið staðfests, nema hvað hún hafði "ekki borist formlega".
Meðal framleiðandi, það er framleiðandi sem framleiðir eina kvikmynd á ári, fær líklega 10 til 15 umsagnir á ári um verkefni sín í vinnslu, frá ýmsum aðilum, einka- og opinberum aðilum, og umsagnir eru misjafnlega ítarlegar. Jafnvel veit lesandi eða umsagnaraðili ekki alltaf hver er á bakvið verkefnið. Þær svara oftar en ekki rútínuspurningum. Svo sem um tegund (genre), persónusköpun, strúktúr, hugsanlegan áhorfendahóp, o.s.frv. Umsögn S. Baldvinssonar er engu lík, hún fer uppá vegg. Hún er ekki aðeins vitnisburður um vinnubrögð Kvikmyndasjóð Íslands, heldur er óhætt að spyrja hversu oft svona hafi viðgengist og hvort þetta séu vinnubrögð sem tíðkast í úthlutun á opinberu fé almennt? Geta professional aðilar setið undir því að við hinn enda borðsins sitji spekúlantar og "finnist" að þessi grein reglugerðar sé nú eiginlega vitleysa? Eru rökin fyrir úthlutun til sjálfstæðra leikhópa, listamannalauna, rithöfundalauna og heiðurslauna líka byggð á því sem mönnum dettur í hug það og það sinnið?
Fátt er fullkomið í þessum heimi, allra síst mannfólkið, en það er óskiljanlegt hvernig ráðgjafi og forstöðumaður KMÍ gátu sent svona frá sér og haldið að það væri "ókei".
Var það tilviljun að þetta gerðist aðeins vikum eftir að fyrirtæki mitt spurði um skiptiregluna og var annarar skoðunar en stjórnendur KMÍ? "Ráðgjafinn" vissi náttúrulega ekki hver fjárhagsstaða verkefnisins er, en samkvæmt theoríunni sem liggur skoðun ráðgjafans til grundvallar ætti hann ekki að taka þátt í neinni úthlutun því það er létt verk að rökstyðja að styrkir yfirleitt séu tapstyrkir. Eru styrkir til Íslensku Kvikmyndasamsteypunnar tapstyrkir og var styrkur til Umba á sl. ári vegna "Stellu í Framboði" tapstyrkur? Ég held það reyndar. Kannski þetta hafi allt verið einhverjum tölvuvírus að kenna, en málfrelsi KMÍ getur leiðrétt það. Samt, ég treysti mér til að tilnefna marga til að gera nákvæmlega sömu mistök fyrir miklu minni pening.
Hmmmmmm
Ekki veit ég til þess að áður hafi verið haldin ráðstefna til að ákveða hvers konar tegundir mynda eigi að framleiða. Og ekki veit ég til þess heldur að tegundir íslenskra kvikmynda yfirleitt hafi verið ákveðnar á ráðstefnu. Ekki voru valkostirnir margir 2002, þegar, "að úthlutunarnefnd hafi látið sér detta í hug að mögulegt væri að fjármagna ellefu illa styrktar íslenskar bíómyndir á sama árinu er óskiljanlegt."
Í þessu öllu saman virðist vera óljós meistari. Því sem næst verður komist heitir hann "það". Í yfirlýsingum SÍK og KMÍ kemur "það" fyrir öðru hverju, "það" á eftir að ákveða þetta og "það" á eftir að móta hitt, og "það" var gert svona. Það verður gaman að hitta "það". En það kæmi ekki á óvart að þau rök skjóti upp kollinum að myndir sem eru gerðar fyrir peninga frá "iðnaðarsvæðum kvikmynda" verði ekki einsog góðar eða þjóni ekki hagsmunum íslenskrar menningar eins vel og myndir sem eru gerðar fyrir sjóðapeninga, og sem starfa eftir menningarlegum reglum. Jafnvel að það borgi sig ekki að koma að kvikmyndum sem gerðar eru á öðru tungumáli en íslensku, því það er hvort sem er hægt að kaup þær annars staðar frá. Umræða um stefnur og strauma í gerð kvikmynda er spennandi, en þangað er erfitt að komast því íslensk kvikmyndagerð er enn að kljást við grundavallar atriði í stjórnun og rekstri. Nær væri að gefa framleiðsluna frjálsa, það er að taka að hluta upp "einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun". Fyrir því hafa ekki komið nein gagnrök.
Hugmyndir um handritagerð í dag (ekki sögur) t.d. eru mjög áhugaverðar, en liggur áherslan á að styrkja þessa klínísku handritagerð, það er línuna frá evrópsku handritanámskeiðunum, leita í evrópsku hefðina, taka upp Hollywood-línuna o.s.frv. Eða eru menn sáttir svo framarlega sem handrit virka.
Spurningin hér að framan, er hægt að taka mark á og treysta stefnu ef hún er ekki bundin í reglugerð, er áríðandi því reynslan sem ég hef rakið sýnir að það er ekki að ganga. Svo ég gerist nú aðeins persónulegri, þá hefur takmarkað traust mitt til getu "gamla gengisins" til að stjórna og marka stefnu ekki aðeins mótast af endurteknu klúðri sem flestir hafa verið vitni að, heldur einnig af því að sjá á meira "prívat" plani farsakenndan klaufaskap. Þá vísa ég í aðeins eitt dæmi af mörgum, sem er eitt fax frá kunnum íslenskum kvikmyndaframleiðanda sem barst erlendum framleiðenda í gegnum stóra lögmannasamsteypu í London fyrir margt löngu (þar sem mögulegir samstarfssamningar lágu á borðum), en í faxi þessu sagði að annar kvikmyndamaður hafi m.a. brotist inná skrifstofu hans á Íslandi og stolið samningum, en á sama tíma hafði hann hins vegar verið á Piccadilly Circus að borða ís. Þetta átti hugsanlega að vera "dirty trick" einsog sést í bíómyndum. Viðkomandi sendandi gerði enga tilraun til að fela nafn sitt né fyrirtækisins, en með þessari "taktík" útilokaði sjálfan sig frá fjölda viðskiptatækifæra og meðframleiðslu. Skrítið.
NSA
Það er rétt að benda á þátt Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins í íslenskri kvikmyndagerð, sem er þó aðeins með upphaf og miðju, endirinn er ekki kominn. Þegar fyrstu aurarnir sem fóru frá NSA inní fagið (til Alvís kvikmyndagerð 1998), þóttu það góðar fréttir, því þar væri kominn hugsanlegur fjárfestir sem gæti hvatt til nýsköpunar í faginu. Sá ávinningur sem fagið hafði náð í lok sl. áratugar, ekki síst með meiriháttar framförum í tækni og afar vel þjálfuðum hópi kvikmyndagerðamanna, þá mátti gera ráð fyrir að nýr "fjárfestir" sæi framtíð í faginu.
En NSA tók strax upp þau vinnubrögð að setja sér hvorki reglur né markmið áður en byrjað var að veita fé og fjalla um umsóknir. Það sem var þó skýrt var að framleiðslufé var ekki falt, aðeins fé til þróunar og markaðsetningar, og allt í fína. Það var því fyrirsjáanlegt að það vissi ekki á gott. Fjöldi kvikmyndagerðamanna átti eftir að upplifa þá "paranoiu" sem greip stjórnendur NSA þegar einföldustu fyrirspurnir bárust um stefnu NSA, og enn og aftur virtist einsog að þær væru sprottnar af persónulegum og pólitískum samsærum. Fljótlega fékk NSA viðurnefnið "dauða höndin" því þau verkefni sem NSA taldi sniðug komust lítt áfram. Og ekki þarf að hafa mörg orð um þekkingu embættismanna NSA á faginu og hvað gæti talist til nýsköpunar. NSA tók þó þá skynsamlegu ákvörðun nokkru síðar að kalla á sinn fund ýmsa kvikmyndagerðarmenn og forvitnast um viðhorf þeirra, nánar tiltekið haustið 1999, og kom síðan upp með þá stefnu að sjóðurinn skyldi ekki koma að verkefnum nema að þau aðeins hafi fengið brautargengi hjá Kvikmyndasjóð Íslands. Það var flestum ljóst að það var óskynsamleg stefna að gengið yrði með þessum hætti framhjá svo mörgu, svo sem allri sjónvarpsframleiðslu, erlendum fjárfestum sem vildu koma til Íslands og, hver veit, "brilliant" hugmynd sem ekki voru til aurar í hjá kvikmyndasjóð. Þetta væri svipað og ef íslenskur uppfinningarmaður sem uppgötvaði nýtt dekkjamunstur gæti ekki sótt um þróunarlán hjá NSA nema að fá fyrst "leyfi" hjá FÍB, eða mömmu sinni. Þetta var svo ítrekað af þáverandi framkvæmdarstjóra NSA í "Land og Synir" nokkru síðar. En "Land og Synir" hafði enga skoðun á þessu, já og amen einsog venjulega, hugsanlega af því að ef einhver í ritstjórninni hefði svo mikið sem spurt NSA hvað klukkan væri færu þeir umsvifalaust út af "sakramentinu".
Nokkrum árum síðar, eftir að hafa heyrt af reynslu og sjónarmiðum íslenskra fagmanna, þvers og kruss, og beðið NSA árangurslaust um eitthvað sem hönd á festi í stefnu sjóðsins sendi fyrirtæki mitt fyrirspurn til Samkeppnisráðs. Ekkert mál, eitt stutt bréf, um hvort það væri æskilegt að NSA sem á annað borð var að leggja faginu lið skildi ekki gæta jafnræðis. Samkeppnisráð sá ástæðu til að málið ætti erindi til Fjármálaeftirlits, og taldi þetta ekki normalt. Þá gerast tíðindin, NSA, líkt og SÍK og KMÍ, fer að því virðist á taugum, eða fer í hring með stefnu sína í svari sínu til Fjármálaeftirlitsins. Í fyrsta lagi, að sjóðurinn hafi hlustað á sjónarmið kvikmyndagerðarmanna áður en úthlutun hófst, sem var ekki rétt, og í öðru lagi að sú stefna að sinna aðeins umsóknum sem höfðu fengið stimpil hjá Kvikmyndasjóð hafi í raun ekkert verið þeirra stefna, heldur eitthvað rugl í kvikmyndagerðarmönnum. Það er í sjálfu sér alls ekki erfitt að trúa því, en fyrrum framkvæmdastjóri NSA hafði lagt nokkuð mikið púður í að "rökstyðja" þessa stefnu sína árin á undan, en skipti snögglega um skoðun þegar koma að Fjármálaeftirlitinu og Samkeppnisráði.
Enn í dag, fimm árum eftir að NSA setti fyrstu aurana í kvikmyndagerð, bólar ekkert á hvert takmark NSA er með aðkomu sinni að íslenskri kvikmyndagerð.
Menningin
Hugtökin "menning" og "íslenskur veruleiki" í íslenskum kvikmyndum hafa að mínu mati ekki aðeins þróast í að vera óskilgreind pólitísk hugtök sem beitt er í samkeppni, heldur líka í "söluvöru" á markaði opinberra sjóða þar sem gildandi reglum er ætlað að endurspegla samtímann og vernda menningarleg séreinkenni. Þannig hafa orðið til einhverskonar "fuglahræðuáhrif", það er að passa uppá eina fuglategund (menningu) með því að hræða aðra í burtu. Þessi áhrif geta einsog hver önnur rauðvínsflaska leitt til góðra og slæmra hluta.
Evrópubandalagið, í menningarlegu tilliti, reynir að tryggja með reglum og stefnu sinni að rödd smærri svæða heyrist, og þrátt fyrir sameiningu þá muni Evrópa verða samansett af mörgum litlum Evrópum. Í þessu umhverfi getur það hinsvegar orðið betri "bissniss" fyrir kvikmyndagerð, og á það við um Norðurlöndin flest, að fjalla um ýmiss minnihlutamál, svo sem vanda innflytjenda. Gott og blessað, en hættan á búrókratískum kvikmyndum um efnið eykst, og dæmi er hægt að taka af vandamáladrama sem í eina tíða mátti ætla vera sprottna af þörf, en nú vegna þess að efnið passaði inní reglugerð.
Aðdraganda að tilkomu "fuglahræðuáhrifanna" má rekja til upphafs síðustu aldar, og sem á sínum tíma leiddi til mikillar grósku. Í einstakri bók Stefáns Zweig, "Veröld sem var", segir hann m.a. frá áhyggjulausu lífi listamanna í Austurríki og víðar, og hversu litlu þeir skeyttu um pólitíska þróun mála. Tímabilið frá lok 19. aldar undir áhrifum manna einsog, Freud, Marx, Nietzsche, Strindbergs o.fl., rann saman við tímabil Stravinskys, Dinu Lipattis, Breton, Einstein, Dreyer, Bunuel, Proust, Bresson, og fleiri og fleiri. Fyrstu áratugir síðustu aldar var mikið blómaskeið og áhrifanna gætir framá þennan dag. Að hugsa sér þessa ótrúlegu sköpun sem átti sér stað á stuttu tímabili á svo mörgum sviðum, og sem er í raun einsdæmi. En það að sofna á verðinum gagnvart stjórnmálaþróun í Evrópu í upphafi aldarinnar sem gat af sér tvær heimsstyrjaldir og spænska borgarastyrjöld, hafði þau áhrif að listamenn tóku að sér stærra hlutverk sem samfélagsgagnrýnendur, þeir voru krafðir um samfélagslega ábyrgð, þeir myndi ekki sofna á verðinum aftur. Kynslóð eftir kynslóð átti eftir að kynnast styrjöldum og þjáningum þeirra. Þau tvö lönd sem sátu eftir í hvað mestum sárum, Þýskaland og Bretland, endurskoðuðu t.d. reglur sínar um opinbert fé til menninga og lista í kjölfarið og þar var tryggt með skýrum hætti að rödd minnihlutahópa og allra þjóðarbrota heyrðist. Önnur lönd gerðu þetta líka, flest síðar. Listamenn sjálfir tóku meiri og virkari þátt í pólitískri umræðu, en þegar halla fór á öldina minnkaði það og, í mikilvægum skilningi þessa orðs, þeir eru kannski enn í þessu "hlutverki".
Enn eru við líði, sérstaklega á Norðurlöndum, búrókratískt kerfi sem framfleytir "gagnrýnum" listamönnum. Þetta óskilgreinda "hlutverk" listamannsins í dag, í nýju samfélagi, er líka oft heimfært uppá kvikmyndagerðarmenn. Alls ekki slæmt. En það er hugsanlega þessi 68 kynslóð sem telur sig eina lifa í þessari stemningu, og telur það skyldu sína að passa uppá samfélagslega umræðu í menningum og listum, og engin veit betur. Kjarni málsins hér er, að við þessar aðstæður eru gömul hugtök um "menningu" og "íslenskan veruleika" enn óspart notuð sem einhvers konar rök, hvort sem það er í lögum, reglugerðum, eða bara hverju sem mönnum dettur í hug. Það er ekki dregið í efa hér að áhugi þeirra sem marka stefnu og þeirra sem hlúa vilja að sérkennum hverrar menningar er einlægur og ósérhlífinn. En með tíð og tíma hefur "bissnissinn" í kringum opinbera sjóði, þ.m.t. á Norðurlöndum, orðið svipaður og í kringum fjárfesta á frjálsum markaði, en með öðrum formerkjum. Kvikmyndin "Hafið" er dæmi um mynd með samfélagslega skírskotun, en erfitt að sjá hverju hún bætir við umræðuna um sjávarþorp, áhrif tölvuleikja eða kvótakerfið, sem hefur farið fram í góð 20 ára. Hvers vegna varð heimildarmynd ekki fyrir valinu? En leiknar kvikmyndir með samfélagslega skírskotun í dag hafa líklega öðru hlutverki að gegna en fyrir ekki meir en 20 árum eða svo, vegna þess að aðgangur okkar að upplýsingum, málefnum og umræðu er miklu meiri. Leiknar kvikmyndir mættu því reyna að bæta við hughrifum, hughrifum sem finnast ekki á netinu. Þess vegna var kannski "Festen" mikil "cult" mynd, en "Hafið" bissniss, og allt í fína með hvoru tveggja.
Það er óhætt að fullyrða að áhrif markaðarins er ekki spurning um mikil eða lítil áhrif hægrisinnaðra peningamanna (áróður sem er líklega orðinn bitlaus), þau eru ekki síst spurning um að losna við búrókratisma, líkt og gerðist í austur Evrópu á árunum eftir 1990, losna m.a. við hann úr viðskiptum með menningu og listir. Hið opinbera hverfur ekki, það fer í annan jólasveinabúning. Fyrir austan hét þetta einkavæðing, hugtak sem hugsanlega einfaldar hlutina um of. En hvers vegna ættu viðskipti með opinbera sjóði að vera betri en viðskipti frjáls markaðs. Brestur á borgarastyrjöld ef íslensk kvikmyndagerð losnar undan forræðinu?
Eru "menningarleg rök" nokkuð annað en angi þjóðernishyggju sem small við umbreytingar síðustu aldar, en setur nú fingurinn á loft og segir, "þetta má ekki". Í reglugerð KMÍ segir nefnilega,"Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars". Þetta er flott setning, en hvað þýðir hún? Er þetta varnagli? Hvers vegna skyldu íslendingar hafa meiri áhuga á að framleiða eitthvað annað en íslenskt efni? Það er ekki erfiðara að vinna úr sínu eigin umhverfi heldur en annarra, og auk þess skemmtilegra, finnst mér. Hvers vegna að hafa áhyggjur af þessu og hvað er verið að flækja málið? Eða hvernig væri, "Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa byltingarkennda skírskotun nema sérstök byltingarkennd rök leiði til annars", eða, "Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa stratóferíska skírskotun nema sérstök stratóferísk rök leiði til annars", eða, "Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa sjálfhverfa, dadaíska og strúktúralíska skírskotun nema sérstök sjálfhverf, dadaísk og strúktúralísk rök leiði til annars".
Búrókratið
"Önnur mál" sem hafa skotið upp kollinum í umræðu um opinbera stjórnun er hvernig sumir stjórnendur í opinberum sjóðum hafa stoppað stutt við, og sjá stöðu sína sem áfanga að öðrum stöðum, t.a.m. innan Evrópubandalagsins, stöðum sem lítið hafa með menningar- og listapólitík að gera. Stundum bjóða aðrar stofnanir og fyrirtæki betur. Þannig fer reynsla og þekking frá stofnuninni, og einnig, að viðkomandi stjórnendur leitist við að marka stefnu, eða hvetja til stuðnings verkefna sem eru mjög sjáanleg þannig að störf þeirra séu meira sjáanleg. Grasrótin getur því orðið útundan því hún er ekki eins sjáanleg, og opinberar stofnanir og stjórnendur hennar hneigjast til að setja aura í stjörnuverkefni sem þurfa ekkert á þeim að halda. Opinberar stofnanir ættu strangt til tekið að gera grasrótarstarfsemi að forgangsverkefni sínu og fleyta þeim áfram inná markaðinn. Þess vegna er líka erfitt fyrir ýmsar stofnanir að sýna framá góðan og merkilegan árangur í stuðningi við grasrót sem kann að skila samfélaginu bæði efnahagslegum og listrænum ávinningi, en sem ekki skilar sér fyrr en eftir 2 - 3 kjörtímabil.
Í þessu samhengi er freistandi að taka dæmi af stuðningi Íslandsbanka við barnastarf Þjóðleikhússins, sem á sínum tíma var gagnrýnt af Möguleikhúsinu. Hvernig átti Þjóðleikhúsið að hafna eða sækjast ekki eftir styrk bankans ef það er hlutverk stjórnar leikhússins að gera veg hússins sem mestan, og hvers vegna ætti bankinn ekki að leggja nafn sitt við virðulega menningarstofnun og fiska nýja kúnna? Og hvers vegna ætti Möguleikhúsið ekki að mótmæla? Hugsanlega hafði bankinn þá stefnu að styrkja grasrótarstarf á öðrum vettvangi menninga og lista, í þetta sinn, en þarna myndast "gat" sem opinbert fé til menningarmála mætti ætla að "eigi" að fylla uppí. Ef stefna ríkisins er skýr, og virkjar t.d. skattaafláttarkerfið rausnarlega, geta bæði fyrirtæki og smærri aðilar, líkt og Möguleikhúsið, markað sér einbeittari stefnu í styrkjum og fjáröflun. Þá er orðið "styrkir" ekki sannfærandi í mörgum tilfellum því margir "styrkir" í dag eru fjárfesting í ímynd.
Aðkoma ríkis að kvikmyndagerð, og menningar- og listastofnunum almennt, er ekki einfalt mál þótt gerð kvikmynda sé ekki flóknara en margt annað. Það sem gerir málaflokkinn ekki einfaldan er að mínu viti eitt atriði, það er "fílósófían" á bakvið opinbera styrki, það er, réttlætingin á veitingu opinbers fé til málflokksins og hvaða áhrif það hefur. Skortur á umfjöllun þessa máls hjá stjórnendum Kvikmyndasjóðs í gegnum tíðina hefur leitt til þess að stofnunin virkar stíf, eða kannski feimin. Einsog hana vanti eitthvað "rokkabillí". Hugsanlega þar sem ósannfærandi fagpólitíkin, sem flestir skynja afar sterkt, hefur ekki skilað eins miklu og ætlast var til og ekki komið faginu útúr gettói hreppastjórnmála. Og kvikmyndasjóður, sem eini "fjárfestirinn" fyrir framleiðslu, er ætíð í sviðsljósinu. Það er engan annan að hafa.
Ef við gefum okkur að hnattvæðingin sé liður í stefnumótun KMÍ, þá erum við með tvær spurningar á lofti, að fara í vörn eða sókn. "Fuglahræðustefnan" er vörn. En við viljum sókn, þó ekki væri nema því hún er fín vörn. Þessari sókn er best farið í höndum einstaklinga og fyrirtækja, hið opinbera tryggi aðeins festu og stöðugleika. Án þess að fara útí frekari stefnumótunartal, þá er ég hins vegar þeirrar skoðunar að hnattvæðingin einsog hún hefur oftast verið sett fram sé of mikið á eina lund. Hún eru gamlar fréttir því við í raun aðeins að tala um aðra birtingamynd gamals kapitalisma, fyrst og fremst vegna tilkomu internetsins og tölvuvæðingar. Að vísu er sameining Evrópu og öflugri alþjóðastofnanir vísir að hnattvæðingu, en breska Austur-Indíafélagið var í engu minni hnattvæddum viðskiptum á 19. öld en Alcoa er í dag, og stórfyrirtæki þurfa alltaf að lúta þeim lögum sem gilda í landi hverju. Hnattvæðing sem veitir innblástur er t.d. kristindómurinn, og svo er það Marxisminn, jafnvel Dadaismi, og það að gera hnattvæðingu að atriði í stefnumörkun um útgjöld ríkisins þá dettur mér reyndar fyrst í hug háskólar og trúfélög. En hugsanlega lítur samtíminn á sig hverju sinni sem það merkilegasta sem hefur verið skapað, og nú vegna þess að áður var engin Internet Explorer. Hvað erum við að bralla annars í dag annað en að fást við hugsjónalittlan post-post-modernisma, sem í samanburði við grósku aldamótanna 1900 lítur út einsog öskubakki.
Nóg um það, en ef við sem sagt gefum okkur að hnattvæðingin sé liður í stefnumótun KMÍ, það er hversu íslensk við ættum að vera, þá er vel hugsanlegt að það sé það sem stjórn SÍK átti við með að segja, "Ennþá á eftir að móta endanlega stefnu um hverskonar myndir komi til með að hafa forgang...". Verða það myndir með "sjálfhverfa, dadaíska og strúktúralíska skírskotun, nema að stratóferísk rök leiði til annars"? Þetta verður spennandi.
París, síðla hausts 2003.