Einar Thor

Saturday, December 04, 2004

Sögur og sjónarmið á kistan.is

Kistan.is birti nokkra pistla eftir mig fyrir um ári síðan.

Ég birti þessa pistla hér (sem er nánast einsog að fá bústin lömb heim af fjalli.) En með tilliti til þess sem nú er á dagskrá í faginu er sjálfsagt að rifja upp t.d. það sem fram kom í grein II.
Endurskoðun nýrrar reglugerðar
Hvers vegna ný reglugerð þarf að fara aftur uppá teikniborð, þá er nóg að benda á reynsluna. Reynslan ein og sér leggur til að þessir hlutir þurfa að vera nákvæmari, það er reynslan að stefna kvikmyndasjóðs hefur aldrei verið á hreinu í sögu sjóðsins - nema eftirá, í örfáum tilfellum. Kannski þykir stjórnvöldum heldur ekki rétt að vera binda hendur kvikmyndagerðarmanna um of, en það er rangt mat, það sýnir sagan.

Sögur og sjónarmið - Íslensk kvikmyndagerð, I.

Stiklað á stóru
Eitt af hinum síðustu vígjum 20. aldar Íslands í heimi úreldra viðskiptahátta er kvikmyndagerð. Og það sem mætti halda að væri gamalt vígi 19. aldar Íslands á upplýsingaöld, er heldur ekki fallið, það er óttinn við málefnalega umræðu. En það er hægt að segja að eftir hrun íslenskrar kvikmyndagerðar árið 2002 þar sem botninum var náð í opinberri stjórnun fagsins, þá sé leiðin uppávið hjá nýrri Kvikmyndamiðstöð Íslands lárétt. Leiðin frá áhugamannabransa í kvikmyndaiðnað, frá ríkissrekinni forræðishyggju í samkeppni, frá einhæfni til fjölbreytni er þyrnum stráð. Það eru blikur á lofti um að nauðsynlegar breytingar eigi sér stað, og að mönnum bresti kjarkurinn til að afmarka raunveruleg viðfangsefni og skilgreina ástandið. Í forystugrein Morgunblaðsins í júlí 2002 þegar sem mest gékk á það árið, segir að ný Kvikmyndamiðstöð þurfi að vera "...í stakk búin til að leiða málefnalega og upplýsta umræðu á þessu sviði. Að öðrum kosti er hætta á að framtíð þessarar ungu listgreinar ráðist af tilviljunum eða hagsmunum einstakra aðila fremur en skýrum markmiðum."
Eftir fyrstu skref KMÍ bendir allt til að það seinna verði ofaná og framhald verði á "gamla kerfinu", þótt hvers konar stjórnun hafi verið þar við líði sl. ár sé að sumu leiti enn á huldu. Skoðanir forstöðumanns eru líka á huldu, hvað þá stefna, en "ekki er von á ítarlegri reglum en finna má í reglugerð um Kvikmyndasjóð", segir í bréfi KMÍ nú í haust. En orð fagfólks sjálfs sl. misseri, og sumra þeirra sem hafa kosið að sækjast eftir stjórnun í þessu fagi, segja hinsvegar sögu fulla af óvæntum atburðum.

SÍK og söguskoðunin
Í upphafi skýrslu stjórnar Samtaka Íslenskra Kvikmyndaframleiðenda (SÍK) sl. vor, 2003, segir m.a. um árið 2002.: "Síðasta ár hefur verið kvikmyndaframleiðendum erfitt. Árið hófst með klaufalegri úthlutun úr Kvikmyndasjóði þar sem úthlutað var alltof mörgum og lágum vilyrðum" ... og svo ..."Að úthlutunarnefnd hafi látið sér detta í hug að mögulegt væri að fjármagna ellefu illa styrktar íslenskar bíómyndir á sama árinu er óskiljanlegt."
Hér er átt við þekkingarleysi innan kvikmyndasjóðsins gamla á erlendum aðstæðum, en ekki er minnst á að hugsanlega hafi þau verkefni sem voru valin einfaldlega ekki nógu góð. En þetta var líklega hápunkturinn áður en endirinn hófst. Og þetta er ekki óskiljanlegt. Íslensk kvikmyndagerð hefur frá upphafi verið stjórnað af áhugafólki sem hefur talið sig vera hafið yfir gagnrýni, eða ekki staðist þær kröfur að taka henni, hversu velvilja sem hún er. Þekking fagfólks komst ekki inn til þessa fólks sem hafði hvorki reynslu, þekkingu né sveigjanlegt viðhorf til fagsins.
Formaður SÍK bendir einnig á athyglisvert atriði í "Land og Synir" sl. vor, og skrifar einnig sem nefndarmaður í nefnd um nýja reglugerð, að, "úthlutunarnefndir hafa hins vegar ekki álitið sig bundnar af samþykktum stjórnar", og er þar átt við fyrrverandi stjórn Kvikmyndasjóðs. Gömlu úthlutunarnefndirnar töldu kannski að þar væri allt pólitískt samsæri. Engu að síður voru úrræði stjórnar kvikmyndasjóðsins til að stoppa þetta ekki fyrir hendi.
Mörg fleiri orð hafa verið látin falla um framistöðu þessara ágætu stjórnenda, og sá dómur er sjálfsagt sögulega skilorðsbundin. Á sl. ári, 2002 og langt framá þetta ár, var mikil deifð og atvinnuleysi á meðal starfsfólks fagsins, aðeins ódýr og jafnvel heimaunnin digital verkefni héldu uppi lágmarks magni framleiðslunnar, í sjóðnum sátu hundruðir milljóna "fastar", en stjórn SÍK bendir réttilega á í sömu skýrslu að það sé, "...miklu alvarlegra mál og veldur kvikmyndaframleiðendum meira tjóni en einhverjir risnureikningar sem eru bara smáaurar í sambandi við þetta", og er átt við svokallað "Þorfinnsmál". Og enn í dag, þrátt fyrir ný lög og nýtt hitt og þetta, liggja vel á annað hundrað milljónir í sjóðnum óhreyfðar með tugi kvikmyndagerðarmanna á Íslandi atvinnulausa eða atvinnulitla.
Það samkomulag sem gert var við ríkið 1998 um að koma allt að 5 kvikmyndum í framleiðslu á ári hefur ekki gengið eftir, og flestir þekkja að flestar Edduhátíðir hafa boðið uppá afar litla samkeppni á milli kvikmynda. Þeir sem hafa sóst eftir og valist til forystu á þessum málið hafa hreinlega ekki staðið sig. Það þarf ekki theoríur til að sýna fram á það.
Í umræddri skýrslu SÍK segir einnig .... "eftirmálar þessar úthlutunar þekkja svo allir, hugmyndir framkvæmdastjórans um að hann væri ofsóttur fyrir jafn smávægilega hluti og það að hafa ekki haft bókhald sjóðins í lagi árum saman, er hlutur sem við öll höfum fylgst með í fjölmiðlum. Vonandi er, að nú með nýjum lögum og nýjum forstöðumanni verði hægt að komast út úr þessu rugli, horfa til framtíðar, fá hjólin til að snúast og taka upp faglegri vinnubrögð. "
Það hefur ekki tekist. Ný KMÍ hefur t.d. á fyrstu mánuðum sínum tekist að brjóta ákvæði reglugerðar um kvikmyndaráðgjafa (þetta liggur fyrir). En það má orða það sem svo að kúltúr forræðishyggjunnar, sem er móðir hins gamla kjarna í íslenskri kvikmyndagerð, sé svo rótgróin og sjálfsagður í hugum manna, að hin nýju lög sem sett voru til að reyna að koma böndum á óstjórnina og á "þessu rugli", láta undan.
Að einhver hafi hafi litið svo á að sjóðurinn hafi verið faglegur sl. áratugi, að þar hafi verið samkeppni og um sé að ræða gæðamatsstofnun, þá verður að leyfast að kalla það pólitískan "naívisma". En staðreyndirnar segja okkur ekki aðeins að opinber stjórnun íslenskrar kvikmyndagerðar sé einn mest skandall íslenskrar stjórnsýslu okkar tíma, heldur hafa líka rótgróin kvikmyndafyrirtæki með innlendu sérhagsmunapoti sínu klúðrað tækifærum erlendis sl. ár til að margfalda veltuna á íslenskri grund. Það er ekki síst athyglisvert.

Kjarni hins praktíska máls
Til að setja dæmið upp á sem einfaldasta hátt má segja, að erlent fjármagn kemur ekki til landsins nema eitthvað komi á móti. Þetta er nokkurs konar þumalputtaregla. Innlend fyrirtæki sem fá vilyrði frá Kvikmyndasjóð Íslands en geta ekki sótt fé erlendis, frysta fjármagnið "automatiskt" á meðan og það rennur ekki inní fagið. Innlend fyrirtæki sem fá ekki vilyrði frá kvikmyndasjóð Íslands, en geta fengið fé erlendis, fara burt eða hætta. Og þegar innlend fyrirtæki fá hærri vilyrði og til langs tíma, en geta ekki fengið fjármagn á móti, lenda þau í vanda og skuldir safnast upp. Þá hefst hinn fagpólitíski þrýstingur, þar sem tími, orka og aurar fara í pólitískt sérhagsmunapot um almannafé til að forða gjaldþroti, í stað þess að auk samkeppnishæfni fyrirtækisins erlendis, bæta rekstur þess og skoða hugmyndir um nýsköpun. Hið opinbera, eða starfsmenn þess, hafa tekið þátt í þessu og dregið verulega úr eðlilegum þroska fagsins. Þetta er ástæðan fyrir því að kvikmyndavorið er endalaust og ekki kemur sumar. Að einhverjir "búi til" kvikmyndasumar hefur lítið með list og menningu að gera. Að gæði hafi verið höfð að leiðarljósi hefur ekki verið aðalatriðið.
Í skýrslu stjórnar SÍK segir líka, "...hverjar 100 milljónir sem liggja í Kvikmyndasjóði ári lengur en þær þurfa kosta kvikmyndaframleiðendur að minnsta kosti 15 milljónir ... og síðar ... Það hjálpar líka ekki baráttunni fyrir auknu fjármagni í Kvikmyndasjóð að við skulum ekki koma út hraðar því fjármagni sem í sjóðnum er."
Mikið rétt, en þegar á reynir eru sumir aurar ekki eins góðir og aðrir, og þar hefjast spunaæfingar SÍK og stefnuleysi KMÍ, sem ég kem að síðar. En hinn hluti kjarnans er að sjálfsögðu gerð mynda, skapandi vinna og þróun, þar er tímanum sjálfsagt best varið.

Aðdragandi
Ef við förum hratt yfir sögu til að skilja samhengi hlutanna betur, stiklum á stóru sem fyrr og drögum fram þrjú "symbólísk" atriði, og bendum á hvers vegna það er brýnt að gera frekari og róttækari breytingar sem fyrst, þá skulum við fara rúm 10 ár til baka. (Mitt framlaga til t.d. hugmyndabankans um stjórnun má m.a. finna á heimasíðu SÍK, og rek ég þær ekki hér).
Í fyrsta lagi, þingmenn guggnuðu á að samþykkja tillögu sem lá fyrir alþingi í ráðherratíð Svavars Gestssonar í menntamálaráðuneytinu, jafnvel töluvert breytta. Þessi tillaga hafði margar hugmyndir að geyma sem í dag myndu kallast eðlilegar og sjálfsagðar, og er t.d. vísað í danska fyrirkomulagið einsog gert var í undanfara þeirra laga sem samþykkt voru nú 2003. Þetta þótti hin mesta vitleysa þegar til kastanna kom fyrir rúmum áratug. En þá var einmitt tími til að breyta gömlum og úreltum lögum, og í kjölfarið kom magur áratugur. Pólitísk mistök.
Í öðru lagi, deilur um svokallaðan Menningarsjóð Útvarpsstöðva, þar sem t.d. var veitt fé til verkefna sem aldrei urðu til, var til þess að hann var lagður niður um miðjan sl áratug. Engin niðurstaða fékkst um hvað hefði farið úrskeiðis. Engin lærdómur var dregin af því. Ekki treysti ég mér til að rekja það í smáatriðum hvað var að, en fyrir þá fagmenn sem voru t.d. erlendis, þ.á.m. undirritaðan, þá virtust skoðanaskipti um starfshætti sjóðsins annars vegar ganga útá rökstutta gagnrýni örfárra fagmanna, og hins vegar svör stjórnenda sjóðsins um að gagnrýni væri sprottin af öfund. Þessi lágkúra í umræðunni benti til þess að sjóðurinn hafi verið einn af þessum "sukksjóðum" ráðamanna hvers tíma.
Í þriðja lagi, óstjórn Kvikmyndasjóðs Íslands síðustu sex til átta ár, sem endaði með hruninu 2002. Engin lærdómur var dregin af klúðrinu af Menningarsjóð, engin lærdómur dregin af tilraunum og umræðu erlendis og augljósri þróun í nágrannalöndum, engar ályktanir dregnar af landflótta fagfólks, og lítil skoðanaskipti fagfólks sem óttaðist að missa af styrkjum ef það tjáði sig, gaf lítið aðhald. Því fór sem fór.
Lykil ástæðan fyrir endurteknri óstjórn og erfiðri umbreytingu áhugamannabransa í kvikmyndaiðnað, er ríkisseinokun. En lykil ástæðan fyrir áframhaldandi ríkisseinokun í þeirri mynd sem við þekkjum er varla stefna stjórnvalda, sem hafa í raun treyst fagfélögum til góðra verka, heldur tregða einstakra embættismanna og getuleysi rótgróinna kvikmyndafyrirtækja sem hafa ekki getað aðlagað sig að grundvallar prinsippum samkeppninnar, og sem er óhjákvæmileg þróun.
Margir, á öllum aldri úr öllum áttum, voru auk þess lengi óttaslegnir við að nefna það á nafn á sl. áratug að gera kvikmyndir á öðru tungumáli en íslensku, t.d. ensku, hvað þá nefna "iðnvæðingu", og sumir jafnvel héldu því fram að það væri hreint og beint að vera á móti Íslandi og íslensku að gera það. Þetta kemur t.d. fram í ýmsum yfirlýsingum frá stjórn Bandalags Íslenskra Listmanna o.fl., þeirri fyrstu frá júní 1996 sem mig rekur minni í. Þetta var ekki ósvipað og að vera á móti símanum, eða sjálfrennireið.
Ekki síður er það merkilegt staðreynd, að á helmingstímabili sl. áratugar, það er ca. frá 1993 til 1998, kemur engin nýr íslenskur leikstjóri fram að telja. Flestir sem ætluðu sér að gera kvikmynd á þessum tíma sáu framá það að moka fyrst flórinn, vera settir í flokk eða einhverskonar dilka, dregnir inní óskiljanlegar deilur og óskemmtilegt þras, fyrirtækin sem fyrir voru kunnu vart að reka sjálfan sig og viðskiptavild fagsins útávið einhverstaðar á milli núl og núl.
Engin þeirra sem ég þekki frá þessu tímabili og ætluðu sér að gera kvikmyndir gerðu þær, margir eru farnir úr faginu og úr flestum allur vindur. Þegar aukið fjármagn hins opinbera til fagsins fór svo að aukast smátt og smátt frá 1998, fór þessi hópur hins vegar smátt og smátt að hverfa, og er flestum týndur og tröllum gefinn. Í raun hefur ein kynslóð meira og minna þurft að súpa seyðið af dæmalausri óstjórn gamallra sjóðasukkara.
Í næstu grein; Endurskoðun reglugerðar, "Land og Synir", hagsmunir og hugarfar.

Sögur og sjónarmið - Íslensk kvikmyndagerð, II.

Endurskoðun nýrrar reglugerðar
Hvers vegna ný reglugerð þarf að fara aftur uppá teikniborð, þá er nóg að benda á reynsluna. Reynslan ein og sér leggur til að þessir hlutir þurfa að vera nákvæmari, það er reynslan að stefna kvikmyndasjóðs hefur aldrei verið á hreinu í sögu sjóðsins - nema eftirá, í örfáum tilfellum. Kannski þykir stjórnvöldum heldur ekki rétt að vera binda hendur kvikmyndagerðarmanna um of, en það er rangt mat, það sýnir sagan.
Það var vanhugsun í "uppbyggingu" kvikmyndaiðnaðarins sl. vetur að fá ekki sérfræðiráðgjöf um stefnumörkun um kvikmyndagerð. Einsog að fara ekki til tannlæknis, heldur útí skúr og ná í töng og hamar. En þessi þjónusta er föl, hún kemur einhverskonar hugmyndafræði í agað form, en reglugerðin er við þessar kringumstæður í raun spurning um hugmyndafræði og útfærslu hennar. Það var hluti þróunaraðstoðar Breta þegar BBC sendi lið til ýmissa Asíulanda til skrafs og ráðgerða um reksturs sjónvarps, Singapore fékk nýlega hóp sérfræðinga sem störfuðu fyrir Evrópubandalagið til að koma með tillögur um viðskipti sinnar menningarmála, og Birmingham á Englandi hefur breytt um ímynd á sl. áratug vegna kerfisbundinnar uppbyggingar og stefnumarkandi vinnu. Borgin er ekki lengur í hugum fólks borg sem framleiðir títiprjóna, hún er borg einnar fremstu symfóníuhljómsveitar Evrópu. Sérfræðiráðgjöf er meira en lítið sjálfsögð.
Nóg um það. Löndin í kringum okkur eiga flest um 100 ára sögu í faginu og eru að veita ráðgjöf hægri vinstri í "Þriðja Heiminum", og að aðlaga stefnur íslenskum aðstæðum ætti að vera létt verk og löðurmannlegt. Í haust mátti t.d. sjá í fréttum álit erlendra ráðgjafa um rekstur Íslensku Óperunnar, og góðar tungur segja að úttekt hafi jafnvel verið gerð á RUV, en illar tungur að skýrslunni hafi verið stungið undir rauða teppið. Sel það ekki dýrara.
Engin önnur skýring er sjáanleg en að það hafi verið fagpólitísk ákvörðun að fá ekki sérfræðiráðgjöf, því niðurstaðan hefði getað verið sérhagsmunum of mikið í óhag. Sérstaklega eftir það sem undan var gengið þá verður það að teljast dómgreindarbrestur að leita ekki sérfræðiráðgjafa. Það bendir líka til að þau viðhorf séu ráðandi að taka þekkingu og kunnáttu sem sjálfsögðum gratís hlut.
Nýja reglugerðin var því ekki gerð með hæfilega fjarlægða sýn á líðandi stund og ber þess vitni að hún er svar við uppsöfnuðum samtíma- og fortíðarvanda og taugatitringi sem var ofarlega í hugum fólks á þessum tíma ("Þorfinnsmálið"). En hvað ætti endurskoðun reglugerðar að ganga útá. Til að nefna fáein atriði getum við nefnt aukna aðkomu banka og peningastofnanna að faginu, meira en nokkur orð um skiptiregluna, eða hlutverk kvikmyndaráðgjafa, og skilgreindar áfrýjunarreglur, ekki sem eftirlitskerfi heldur fyrst og fremst sem samskiptaform. Með áfrýjunarreglum verður til gagnabanki upplýsinga sem miðla reynslu. Auk þess, í útópískum heimi, ef ríkið hefur hugsað sér að gera hið óhjákvæmilega og endurskoða reglur um allar opinberar styrkveitingar til lista- og menningarmála, og helst setja á stofn Listaráð, þá má aðgreina listræna kvikmyndagerð frá annarri kvikmyndagerð. Hugsanlega væri ný reglugerðarvinna best sett í gang með það fyrir augum að laða að hæfileika fólk inní fagið sem fer annað, t.d. í tölvugeirann, túrismann, svo ekki sé minnst á fjölmiðla. Hversu margir ætli hafi sveigt frá faginu vegna þessa vesens sem hefur verið á stjórnun kvikmyndsjóðs í gegnum áratugina? Og fátt gæti laðað að eins mikið af nýju fólki og fé en skiptiregla sem er skýr og afdráttarlaus. Við skulum nefna fleiri atriði en áhrif markaðar skiptireglunnar: hvatningu til framleiðenda og umbun fyrir árangur, stöðug atvinnu fagfólks, fjölbreyttari framleiðsla, færri embættismannafærslur, lýðræðisleg ákvörðunartöku um framleiðslu og minni miðstýring, samstarf við nýja fjárfesta og draga lærdóm af samstarfi við þá. Auk þess, við erum enn sem komið er aðeins að tala um blöndu, blandað kerfi, sjálfvirkni í bland við "gamla" huglæga menningarlega matið, svona einsog malt og appelsín.
Skýrasta dæmið um hnökra í framkvæmd þessarar nýju reglugerðar er hvernig skiptireglan hefur verið "send í loftið", en hugmyndin að baki hennar nú virðist aðeins vera til að gefa forstöðumanni leyfi til að taka ákvörðun um styrkveitingar ef ekkert annað er í gangi. Á sl. ári, þegar deyfðin var sem mest, var úthlutunarnefndin kölluð saman til að endurúthluta, en þá hefði þessi regla komið sér þokkalega. Var reglugerðarfólk að búa sig undir aðra eins deyfð og þá var? Skiptireglan, eða mótvirðisreglan (ef þú kemur með X þá komum við með Y á móti), hvort sem hún er 40 á móti 60, 30/70, 50/50, er ein mest umtalaða regla í kvikmyndagerð Evrópu, og hefur verið það til langs tíma. Í henni er að finna aðalatriði stjórnun kvikmyndagerðar, í raun öll grundvallar atriði umræðunnar. En íslensk umræða um hana virðist vera í einhverjum tabú fasa þessa stundina. Ekki er eitt orð um hana á nýrri heimasíðu KMÍ, en hins vegar undir liðnum "róttækar breytingar", má finna þessa setningu "Í stað þess að sérstök nefnd fjalli um og tilkynni niðurstöðu styrkveitinga einu sinni á ári verður hægt að leita hvenær sem er til Kvikmyndamiðstöðvarinnar...".
Þetta hefði ekki þótt róttækt fyrir 10 árum. Virk skiptiregla er það hins vegar, bæði í gerð leikinna mynda og heimildarmynda, hún getur breytt íslenskri kvikmyndgerð til betri vegar á róttækan og varanlegan hátt.

Umræðan
Kannski segir það allt að umræða um umræðuna skuli vera umræða. Hún er kannski lítil því fyrst og fremst þarf hún að vera hugmyndafræðileg, einsog stendur, en það á sér fordæmi í einhverri mynd á nánast öllum öðrum sviðum þjóðlífsins. Umræðan á Íslandi um vændi er til að mynda ágæt fyrirmynd - grínlaust. Þar eru uppi margar efnahagslegar, siðferðislegar og félagslegar hugmyndir um réttindi og skyldur einstaklings, samfélags og ríkis. Umræðan um íslenskar bókmenntir er líka komin á mun skemmtilegra ról en um bíó. Við getum líka bent á að í umræðunni um flutning húsnæðislána í bankakerfið erum við að tala um svipuð "prinsipp" og í aðkomu ríkisins að viðskiptum kvikmynda, og þótt íslenskir bankar geti verið dýrir, geta margir sem hafa starfað erlendis staðfest að þjónusta íslenskra banka er mjög góð. Hugsanlega er það óráðstal að vonast eftir að kvikmyndagerð fái notið umræðu á þessu stigi.
Nóg um það. Sú óstjórn sem stjórn SÍK, (sem kölluð hefur verið 360 gráðu stjórnin), rekur í skýrslu sinni vorið 2003 var flestum fagmönnum í faginu ljós í fjölda mörg ár, og reyndar var sitt lítið af hverju skrifað um það, svona á stangli. Hrunið árið 2002 átti sér aðdraganda sem stjórn SÍK forðast að minnast á því fleiri en einn stjórnarmeðlimur bera ábyrgð á hvernig komið var, og er. Ástæðurnar fyrir því hvers vegna ekki var brugðist við fyrr má segja að séu tvær, annars vegar skortur á faglegri umræðu og skoðanaskiptum þar sem reynsla fagmanna skilaði sér ekki inní kerfið. Hins vegar rekstrarkúltúr eldri kvikmyndafyrirtækja, sem gengur út á að fá aukið almannafé í stað hagræðingar, og sem ég nefndi fyrri grein.
Eitt augljósasta sjúkdómseinkenni umræðunnar var þegar tveir nafnlausir tölvupóstar voru sendir til fjölmiðla, fagfólks og KMÍ, sl. vor 2003. Fyrri pósturinn var útskýring á ófaglegum vinnubrögðum, kaup RUV á einni tiltekinni mynd og átti málið eftir að koma til kasta fjölmiðla. En óttinn við að tjá sig virtist svo kúltúrísk og eðlileg að mönnum þótti eðlilegt að þessi leið hafi verið valin, dulnefnisleiðin, sem framlengir aðeins ástandinu sem ríkir. Þótt megi leiða að því sannfærandi rök, jafnvel vísindaleg, hvaðan þessi nafnlausi póstur kom, þá verður að segjast einsog er að þetta er óskemmtilegt að sjá, þetta gerir ekki aðeins lítið úr þeim sem opinberlega tjá sig ("skítt með það"), heldur er hér er á ferðinni skýr útgáfa af hinu sovéska ástandi og tilhugsunin um þetta ástand er í raun skelfileg því að heilt fag virðist samduna hugarfari gúlagsins.
Fyrir aðeins 15 árum var ungt fólk í St. Pétursborg (Leningrad), ennþá að læsa að sér til setja smyglaða spólu með "Rock 'n Roll" í tækið. Þetta unga fólk hefur seinna lýst því hvernig hinn tvöfaldi hugsunarháttur, að t.d. þykjast ekki hlusta á "Rock 'n Roll", en gera það samt, var orðin svo eðlilegur og "naturalistic", að það tók margt ungt fólk áratug að vinda ofan sér og fara að hugsa einsog frjálsir menn. Hvaða munur er á íslenskum kvikmyndagerarmönnum í dag eða í gær og á sovéskri æsku?

"Land og Synir"
Blaðið "Land og Synir", sem gefur sig út fyrir að vera málgagn, ætti að fjalla um öll þau brýnu og mjög svo spennandi hagsmunamál sem hafa verið á döfinni. En gerir það ekki. Eitt tilfelli þó þar sem "Land og Synir" var næstum því í takt við tímann var þegar það innti hóp kvikmyndagerðarmanna um skoðanir (hugsanlega nokkrum árum of seint) á stjórnun kvikmyndagerðar, og á því sem gerðist árið 2002, enda sögulegt ár. Þar féll sá áfellisdómur yfir stjórnun kvikmyndasjóðs sem ég kalla sögulega skilorðsbundin. Á því ári, og oft áður, var til að mynda brýnt tilefni blaðsins til að vekja athygli á vanda fagsins, svo sem mikilli skuldasöfnun rótgróinna fyrirtækja og sem standa faginu fyrir verulegum þrifum. Þetta er mikill þröskuldur í átt til iðnvæðingar og eru erfiðleikar gamals tíma sem sá nýi þarf að leysa. Blaðið minnist heldur ekki á stéttleysi kvikmyndagerðarmannsins, að starfið hafi ekki "löggilt" starfsheiti, og atvinnuleysi á meðan hundruð milljóna króna sátu fastar í Kvikmyndasjóð. Ímyndum okkur málgagn karftöflubænda sem talar bara um rófur.
Hugsanlega er hægt að finna skýringu á þessari útgáfu á heimasíðu ritstjórans, asgrimur.is, þar sem hann hvetur til gagnrýninnar umræðu. Einhverjar tilraunir til hennar gerði ritstjórinn sjálfur, en hætti því hljóðlega eftir sumarið fræga 2002, þar sem hann t.d. gerði "ýmsum í bransanum" upp spekulasjónir um óeðlileg pólitísk afskipti af Kvikmyndasjóð, eða þetta sem SÍK kallaði síðar "rugl". Um sl. áramót skrifar ritstjórinn svo í "Land og Synir": "Þá var uppákoman varðandi brottvikningu Þorfinns Ómarssonar í sumar öll hin furðulegasta svo ekki sé meira sagt."
Hvað var svona furðulegt, með t.d. góðan meirihluta kvikmyndagerðarfólks atvinnulausa og hundruð milljóna "fasta" í sjóðnum? Hvar var ritstjórinn á þessum tíma. Neptúnus? Mallorca? Veit ekki. Það sem er ekki síst mikilvægt að benda á er að eitt er að búa til pólitískt fórnarlamb úr engu einsog fyrrum framkvæmdarstjóri kaus að gera, með hjálp ritstjórans, og reyndar margra fleiri, og annað er að skoða pólitíska ábyrgð ráðuneyta. Ábyrgð ráðuneyta liggur ekki í að stjórna undirstofnunum, heldur m.a. að setja skilvirkar reglugerðir.
Það snúnara er þegar "Land og Synir" bað mig ásamt mörgum fleirum úr faginu að svara spurningum blaðsins sl. vor um árið 2002, og ég gat um hér að ofan, að blaðið tók út einu gagnrýnina í svari mínu, eða réttara sagt tillögu, (að ritstjórn "Lands og Sona" væri hugsanlega of hagsmunatengd), og bar fyrir sig plássleysi. Gagnrýni þessa mátti auðveldlega setja í flokkinn "pínulítið" miðað við þá skothríð sem kom frá þessum hópi kvikmyndagerðamanna á stjórnun í fagsinu, og hefði ritstjórinn getað svarað henni auðveldlega (kannski var þetta tómt bull í mér?). En þetta voru frekar ósannfærandi vinnubrögð í ljósi þess að ritstjórinn sjálfur segir í DV pistli sl. ár vegna heimildarmyndarinnar "Í skóm drekans" sem lenti í dómsmáli, að þar hafi glitt í ófagra mynd þeirra afla sem vilja hefta tjáningarfrelsi.
Þótt erfitt sé að skilja hvað vaki fyrir ritstjóranum þá var heimsókn eins kvikmyndagerðarmanns uppí Forsætisráðuneyti 2002 fádæmi og sló flestu út í rökleysu, en hann fór til að kvarta undan pólitískri afskiptasemi af Kvikmyndasjóð. En stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands var einmitt pólitísk "afskiptasemi", árlegt framlag er pólitísk "afskiptasemi", ný lög eru pólitísk "afskiptasemi", ný reglugerð er pólitísk "afskiptasemi", og hvað væri íslensk kvikmyndagerð án pólitískrar "afskiptasemi"? Skrítinn kýrhausinn.
Hagsmunir og hugarfar
Ég hef sagt það á handritanámskeiðum að eitt af mikilvægu atriðunum, og oft það skemmtilegasta, sem nemendur verða að hafa í huga áður en farið er af stað eru tengsla hans/hennar við umfjöllunarefnið. Persónuleg eða ópersónuleg.
Ég læt lesendum eftir að átta sig á hverjir eru heildar-og sérhagsmunir, lang- og skammtímahagsmunir, hagsmunir menningar, listar, banka og bústofna, og rek það ekki frekar hér, en rétt að segja frá því að hagsmunir míns fyrirtækis liggja erlendis, og þótt einhverjar áherslur séu á að markaðurinn eigi að hafa sitt að segja þarf ekki að vera samhengi á milli þess og tegund verkefna í vinnslu. En fyrirtækið hefur m.a. farið fram á við KMÍ að það skýri út brot þess á nýrri reglugerð. Þetta snýst þó samt ekki um mitt fyrirtæki, verkefni eða þaðan af síður mína persónu. Hér er um að ræða nokkur grundvallaratriði um samskipti allra kvikmyndagerðarinnar við KMÍ, og hefur faglegt gildi. Það er ekkert leyndarmál, að afgreiðsla KMÍ á svokallaðri 60/40 umsókn míns fyrirtækis og erlendra samstarfsaðila, snýst um fagpólitísk atriði sem varða heildarstefnu KMÍ til frambúðar. Það er hvort skiptiregla skuli gilda eða ekki.
Hér er ekki um sérhagsmuni að ræða heldur fordæmisgildandi meðferð á verkefni sem leitaði mótvirðisfjármagns í anda baráttumáls íslenskra kvikmyndagerðar. Það er mikilvægt að þetta sé á hreinu, og skal enn vitnað í aðeins 6 mánaða gamla skýrslu stjórnar SÍK, "60/40...Einnig þótti mönnum mikilvægt að koma á einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun. Þannig að þeir sem geta útvegað 60% fjármagns geti gengið það því sem nokkuð vísu að Kvikmyndasjóður myndi koma með þau 40% sem upp á vantaði. Hugmyndin á bakvið þetta var að láta markaðinn og gefa þannig áhorfendum aukið vægi í vali verkefna, á þann hátt að þær myndir sem væru í raun og veru að ná til áhorfenda kæmu til með að ganga fyrir. Enginn reynsla er kominn á þetta ennþá en vonandi á ákvæði þetta eftir að hleypa nýju lífi í Íslenska kvikmyndagerð."
Ég vil líka vekja athygli á því, þar sem danska fyrirkomulagið var til fyrirmyndar í umfjöllun um skiptiregluna, að aðstæður á Íslandi, það er t.d. smæð markaðar, eru aðrar. Ekki er t.d. hægt að ætlast til að allt mótframlag komi af heimamarkaði nema í mjög litlar myndir og ekki er hægt að ætlast til að kvikmyndahúsin (tvær blokkir í bissniss) verði mælikvarði á gott efni. Í öllum okkar nágrannaríkjum eru fleiri en einn sjóður, eða fjárfestir í kvikmyndum, sem ekki er raunin á Íslandi.
Við skulum svo líka velta upp spurningunni, hver eru viðhorf okkar til óháðrar faglegrar umræðu annars vegar, og umræðu um hagsmuni hins vegar? Þarna er munur á og ég hef órökstuddan grun um að munur á þessu marki líka ákveðið kynslóðabil. Ég var þó lengi þeirrar skoðunar að það væru ekki kynslóðarbil í þess fagi almennt, heldur straumar og stefnur. Ef þetta fer saman þá fer það saman. En viðhorf, eða skulum við segja, hugsunarháttur rótgróinnar fyrirtækja og kvikmyndagerðarmanna til faglegrar umræðu virðist frekar snúist um óljósa hagsmuni.
Vitnum aftur í formann SÍK sem skrifaði í "Land og Synir", "Kvikmyndamiðstöð er glerhús sem mun alltaf safna að sér stórum hópi óánægðra viðskiptavina sem grípa munu hvert tækifæri sem gefst til árása á miðstöðina. Þess vegna er það alltaf mjög mikilvægt að hjá Kvikmyndamiðstöð sé allt gegnsætt, allt á hreinu og að allir hlutir séu afgreiddir faglega."
Þarna er talað af reynslu, enda má formaður SÍK eiga það að leggja meir til umræðunnar en samferðamenn hans. En veitum athygli, og það er það sem átt er við með hugsunarhátt, þessari fullyrðingu að kvikmyndamiðstöð sé glerhús sem mun "alltaf safna að sér stórum hóp óánægðra viðskiptavina sem grípa munu hvert tækifæri sem gefst til árása á miðstöðina". Þarna eru nokkrar fullyrðingar sem lýsa viðhorfum þessarar gömlu kynslóðar afar vel. Í raun er þetta ágæt lýsing á hennar eigin kúltúr sem og gerir hópi kvikmyndagerðarmanna upp viðhorf sem hann þarf ekkert endilega að hafa. Ef að setja fram önnur sjónarmið er sama og grípa hvert tækifæri til árása á miðstöðina, þá er skýrsla stjórnar SÍK dæmi um "tækifæri ... til árása". Svona túlkun á ólíkum sjónarmiðum var einmitt fyrrum framkvæmdastjóra og úthlutunarnefndum að falli, þar sem heildar- og langtímahagsmunir virtust ekki geta verið á bak við nein sjónarmið. Það eru sjálfsagt yngri menn sem tileinka sér líka þessi gömlu viðhorf, en mörg dæmi mætti týna til um ummæli eldri framleiðenda til sjávar og sveita í gegnum tíðina sem lýsa þessum hugsunarhætti. Kannski ristir þetta dýpra og ber vitni um okkar samfélag almennt. En þrælslund hefur verið hermt uppá okkar fyrrum nýlenduþjóð, hún einkennist af því að ef einn "þrællinn" setur fram skoðun, þá halda allir að það sé uppreisn í aðsigi.
Þó það sé kannski eitthvað til í því.
Í þriðju og síðustu grein: Stjórn SÍK, fræg umsögn kvikmyndaráðgjafa og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins.

Sögur og sjónarmið - Íslensk kvikmyndagerð, III.

Villta Westrið
Það er ekki óhugsandi að aðkoma nýrra stjórnenda KMÍ inní gamla Kvikmyndasjóðs Íslands kúltúrinn hafi verið einsog að koma inná klósett í flugvél þar sem einhver hefur verið að reykja. En ef mark á að taka af yfirlýsingum SÍK um "...rugl" á fyrrum kvikmyndasjóð, þá var það ekki svo spaugilegt. Stjórn SÍK, þar sem fulltrúar "gamla tímans" sitja, hafa flestir tengst kvikmyndasjóð nokkrum böndum og ekki alltaf auðvelt að greina á milli. SÍK er eina virka félag fagsins, ef við gefum okkur að FK (Félag Kvikmyndagerðarmanna) sé klúbbur, einsog formaður þess hefur sagt. Því er staða SÍK nokkuð sér á parti, og margir félagsmenn þar öflugir kvikmyndagerðarmenn. Það er þó engu líkara en að stjórnarmeðlimir hafi hver og einn fengið kókoshnetu í hausinn sl. haust, því róttæk viðhorfsbreyting stjórnarinnar sýndi 180 gráðu beygju á innan við fimm mánuðum. Sjaldan hefur fagpólitík einnar stjórnar í neinu fagi svo ég get nefnt verið beinlínis stefnt gegn eigin hagsmunum, og birst svo augljóslega.
Í svari stjórnarinnar við fyrirspurn um áliti samtakanna um hlutverk 60/40 skiptireglunnar í september sl. og höfnun KMÍ á reglunni, segir m.a. að "... ætti öllum að vera ljóst að þó að sett hafi verið regla um hægt sé að skjóta umsóknum um full fjármagnaðar myndir beint til Forstöðumans, þá hefur kvikmyndasjóður yfir takmörkuð fjármagni að ráða og mun örugglega ekki hafa fjárráð til að fjármagna allar myndir sem fjármagnast."
Ef þetta tal er norður, þá var aðeins fimm mánaða gömul skýrsla stjórnar SÍK tal í suður, þar segir, "Það hjálpar líka ekki baráttunni fyrir auknu fjármagni í Kvikmyndasjóð að við skulum ekki koma út hraðar því fjármagni sem í sjóðnum er". Einnig minnug þessara orða, "...Einnig þótti mönnum mikilvægt að koma á einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun. Þannig að þeir sem geta útvegað 60% fjármagns geti gengið það því sem nokkuð vísu að Kvikmyndasjóður myndi koma með þau 40% sem upp á vantaði."
Var þessi "sjálfvirkni" þá aðeins fyrir stjórn SÍK? Hmmmm. Ég er illa svikinn ef þessi stjórn nær endurkjöri. Svo segir í svari SÍK, "Ennþá á eftir að móta endanlega stefnu um hverskonar myndir komi til með að hafa forgang varðandi þessa styrki og mun Kvikmyndamiðstöð og kvikmyndagerðarmenn beita sér fyrir ráðstefnu í desember þar sem þessi mál verða rædd."
Enn hef ég ekki heyrt af ráðstefnu, en hef heyrt yfir hafið að samráðsfundur í lok nóvember sl. hafi verið settur inná völlinn í stað ráðstefnunnar. Hvaða stefnumörkun og áherslur komu útúr því hefur enn ekki séð dagsins ljós. Það vekur líka athygli hversu sjálfsagt það þykir að hefja starfsemi og úthlutun KMÍ án þess að fyrir þessu hafi verið hugsað. Í svari forstöðumanns KMÍ við fyrirspurn um skiptiregluna sem barst um svipað leiti í september sl., og sem fékkst þó ekki fyrr en eftir tilbeina ráðuneytis, segir m.a., og þar er annar tónn en hjá SÍK, "ekki er von á ítarlegri reglum en finna má í reglugerð um Kvikmyndasjóð enda var hún send öllum samtökum hagsmunaaðila í kvikmyndagerð til umsagnar áður en menntamálaráðuneytið gaf hana út fyrr á árinu."
Ef SÍK er að tala í vestur, er þá KMÍ að tala í austur? Kannski eru deilur í gangi á milli SÍK og KMÍ, kannski er stjórn SÍK hópur "óánægðra viðskiptavina sem grípa munu hvert tækifæri sem gefst til árása á miðstöðina", ég veit það ekki, "I'm confused". Nema hvað, allt tal um skiptireglu hefur fram á þennan dag verið blekking, ekki aðeins gagnvart faginu í heild, heldur er þetta á skjön við stjórnarsáttmála a.m.k. tveggja síðustu ríkisstjórna um breytingar á opinberum stofnunum. Í "prinsippi" má bera þetta saman við umræðu um línuívilnun, nema hvað við hana hefur verið staðið. Húrra fyrir vestfirskum sjómönnum.

Undralandi
Það er rétt að gera greinarmun á stefnu og reglugerð, en spurning er, er hægt að taka mark á og treysta stefnu ef hún er ekki bundin í reglugerð. Þegar stefna KMÍ er óljós, þá hafa fagmenn ekki annan valkost en að ímynda sér hlutina byggða á fyrri úthlutunum, og það getur verið kostnaðarsamt. Í anda orða formanns SÍK sem vitnað er í, í fyrri grein, "...alltaf mjög mikilvægt að hjá Kvikmyndamiðstöð sé allt gegnsætt, allt á hreinu og að allir hlutir séu afgreiddir faglega..." þá kemur KMÍ verulega á óvart.
Hin fræga umsögn annars kvikmyndaráðgjafa sem átti að fjalla um eina tiltekna umsókn en minntist ekki orði á hana, birtist hér: "Sem kvikmyndaráðgjafi lít ég svo á að það sé forgangsverkefni mitt að koma efnilegum nýjum íslenskum kvikmyndaverkefnum áleiðis með því að stuðla að því að þau hljóti stuðning til handritsgerðar, -þróunar eða framleiðslu. Vegna þess hve fjárhagur Kvikmyndamiðstöðvar er takmarkaður er þörf á mjög strangri forgangsröðun. Ég treysti mér ekki til að mæla með því að umsóknir um eftirvinnslustyrki hljóti forgang. Eftirvinnslustyrkir eru í mínum huga afar varasamir yfir höfuð, því hætt er við að þeir verki sem nokkurs konar "tapstyrkir" og veiti kvikmyndagerðarmönnum sem endilega vilja taka verulega fjárhagslega áhættu falska von um björgun eftirá. Slíkt er í raun óbein hvatning til afar áhættusamra fjárfestinga og ég vil ekki taka þátt í slíku. Ég mæli ekki með því að orðið verði við þessari umsókn. September 2003 Sveinbjörn I. Baldvinsson"
Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um þetta, en aðalatriðið er kannski að undir venjulegum kringumstæðum er stefnu að þessu tagi komið til skila áður en starfsemi hefst og auglýst eftir umsóknum. Af gefnu tilefni óskaði fyrirtæki okkar svo eftir staðfestingu á því að þessi umsögn hafi verið skrifuð áður en ákvörðun var tekin, einsog reglur gera ráð fyrir, en það hefur ekki fengið staðfests, nema hvað hún hafði "ekki borist formlega".
Meðal framleiðandi, það er framleiðandi sem framleiðir eina kvikmynd á ári, fær líklega 10 til 15 umsagnir á ári um verkefni sín í vinnslu, frá ýmsum aðilum, einka- og opinberum aðilum, og umsagnir eru misjafnlega ítarlegar. Jafnvel veit lesandi eða umsagnaraðili ekki alltaf hver er á bakvið verkefnið. Þær svara oftar en ekki rútínuspurningum. Svo sem um tegund (genre), persónusköpun, strúktúr, hugsanlegan áhorfendahóp, o.s.frv. Umsögn S. Baldvinssonar er engu lík, hún fer uppá vegg. Hún er ekki aðeins vitnisburður um vinnubrögð Kvikmyndasjóð Íslands, heldur er óhætt að spyrja hversu oft svona hafi viðgengist og hvort þetta séu vinnubrögð sem tíðkast í úthlutun á opinberu fé almennt? Geta professional aðilar setið undir því að við hinn enda borðsins sitji spekúlantar og "finnist" að þessi grein reglugerðar sé nú eiginlega vitleysa? Eru rökin fyrir úthlutun til sjálfstæðra leikhópa, listamannalauna, rithöfundalauna og heiðurslauna líka byggð á því sem mönnum dettur í hug það og það sinnið?
Fátt er fullkomið í þessum heimi, allra síst mannfólkið, en það er óskiljanlegt hvernig ráðgjafi og forstöðumaður KMÍ gátu sent svona frá sér og haldið að það væri "ókei".
Var það tilviljun að þetta gerðist aðeins vikum eftir að fyrirtæki mitt spurði um skiptiregluna og var annarar skoðunar en stjórnendur KMÍ? "Ráðgjafinn" vissi náttúrulega ekki hver fjárhagsstaða verkefnisins er, en samkvæmt theoríunni sem liggur skoðun ráðgjafans til grundvallar ætti hann ekki að taka þátt í neinni úthlutun því það er létt verk að rökstyðja að styrkir yfirleitt séu tapstyrkir. Eru styrkir til Íslensku Kvikmyndasamsteypunnar tapstyrkir og var styrkur til Umba á sl. ári vegna "Stellu í Framboði" tapstyrkur? Ég held það reyndar. Kannski þetta hafi allt verið einhverjum tölvuvírus að kenna, en málfrelsi KMÍ getur leiðrétt það. Samt, ég treysti mér til að tilnefna marga til að gera nákvæmlega sömu mistök fyrir miklu minni pening.

Hmmmmmm
Ekki veit ég til þess að áður hafi verið haldin ráðstefna til að ákveða hvers konar tegundir mynda eigi að framleiða. Og ekki veit ég til þess heldur að tegundir íslenskra kvikmynda yfirleitt hafi verið ákveðnar á ráðstefnu. Ekki voru valkostirnir margir 2002, þegar, "að úthlutunarnefnd hafi látið sér detta í hug að mögulegt væri að fjármagna ellefu illa styrktar íslenskar bíómyndir á sama árinu er óskiljanlegt."
Í þessu öllu saman virðist vera óljós meistari. Því sem næst verður komist heitir hann "það". Í yfirlýsingum SÍK og KMÍ kemur "það" fyrir öðru hverju, "það" á eftir að ákveða þetta og "það" á eftir að móta hitt, og "það" var gert svona. Það verður gaman að hitta "það". En það kæmi ekki á óvart að þau rök skjóti upp kollinum að myndir sem eru gerðar fyrir peninga frá "iðnaðarsvæðum kvikmynda" verði ekki einsog góðar eða þjóni ekki hagsmunum íslenskrar menningar eins vel og myndir sem eru gerðar fyrir sjóðapeninga, og sem starfa eftir menningarlegum reglum. Jafnvel að það borgi sig ekki að koma að kvikmyndum sem gerðar eru á öðru tungumáli en íslensku, því það er hvort sem er hægt að kaup þær annars staðar frá. Umræða um stefnur og strauma í gerð kvikmynda er spennandi, en þangað er erfitt að komast því íslensk kvikmyndagerð er enn að kljást við grundavallar atriði í stjórnun og rekstri. Nær væri að gefa framleiðsluna frjálsa, það er að taka að hluta upp "einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun". Fyrir því hafa ekki komið nein gagnrök.
Hugmyndir um handritagerð í dag (ekki sögur) t.d. eru mjög áhugaverðar, en liggur áherslan á að styrkja þessa klínísku handritagerð, það er línuna frá evrópsku handritanámskeiðunum, leita í evrópsku hefðina, taka upp Hollywood-línuna o.s.frv. Eða eru menn sáttir svo framarlega sem handrit virka.
Spurningin hér að framan, er hægt að taka mark á og treysta stefnu ef hún er ekki bundin í reglugerð, er áríðandi því reynslan sem ég hef rakið sýnir að það er ekki að ganga. Svo ég gerist nú aðeins persónulegri, þá hefur takmarkað traust mitt til getu "gamla gengisins" til að stjórna og marka stefnu ekki aðeins mótast af endurteknu klúðri sem flestir hafa verið vitni að, heldur einnig af því að sjá á meira "prívat" plani farsakenndan klaufaskap. Þá vísa ég í aðeins eitt dæmi af mörgum, sem er eitt fax frá kunnum íslenskum kvikmyndaframleiðanda sem barst erlendum framleiðenda í gegnum stóra lögmannasamsteypu í London fyrir margt löngu (þar sem mögulegir samstarfssamningar lágu á borðum), en í faxi þessu sagði að annar kvikmyndamaður hafi m.a. brotist inná skrifstofu hans á Íslandi og stolið samningum, en á sama tíma hafði hann hins vegar verið á Piccadilly Circus að borða ís. Þetta átti hugsanlega að vera "dirty trick" einsog sést í bíómyndum. Viðkomandi sendandi gerði enga tilraun til að fela nafn sitt né fyrirtækisins, en með þessari "taktík" útilokaði sjálfan sig frá fjölda viðskiptatækifæra og meðframleiðslu. Skrítið.

NSA
Það er rétt að benda á þátt Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins í íslenskri kvikmyndagerð, sem er þó aðeins með upphaf og miðju, endirinn er ekki kominn. Þegar fyrstu aurarnir sem fóru frá NSA inní fagið (til Alvís kvikmyndagerð 1998), þóttu það góðar fréttir, því þar væri kominn hugsanlegur fjárfestir sem gæti hvatt til nýsköpunar í faginu. Sá ávinningur sem fagið hafði náð í lok sl. áratugar, ekki síst með meiriháttar framförum í tækni og afar vel þjálfuðum hópi kvikmyndagerðamanna, þá mátti gera ráð fyrir að nýr "fjárfestir" sæi framtíð í faginu.
En NSA tók strax upp þau vinnubrögð að setja sér hvorki reglur né markmið áður en byrjað var að veita fé og fjalla um umsóknir. Það sem var þó skýrt var að framleiðslufé var ekki falt, aðeins fé til þróunar og markaðsetningar, og allt í fína. Það var því fyrirsjáanlegt að það vissi ekki á gott. Fjöldi kvikmyndagerðamanna átti eftir að upplifa þá "paranoiu" sem greip stjórnendur NSA þegar einföldustu fyrirspurnir bárust um stefnu NSA, og enn og aftur virtist einsog að þær væru sprottnar af persónulegum og pólitískum samsærum. Fljótlega fékk NSA viðurnefnið "dauða höndin" því þau verkefni sem NSA taldi sniðug komust lítt áfram. Og ekki þarf að hafa mörg orð um þekkingu embættismanna NSA á faginu og hvað gæti talist til nýsköpunar. NSA tók þó þá skynsamlegu ákvörðun nokkru síðar að kalla á sinn fund ýmsa kvikmyndagerðarmenn og forvitnast um viðhorf þeirra, nánar tiltekið haustið 1999, og kom síðan upp með þá stefnu að sjóðurinn skyldi ekki koma að verkefnum nema að þau aðeins hafi fengið brautargengi hjá Kvikmyndasjóð Íslands. Það var flestum ljóst að það var óskynsamleg stefna að gengið yrði með þessum hætti framhjá svo mörgu, svo sem allri sjónvarpsframleiðslu, erlendum fjárfestum sem vildu koma til Íslands og, hver veit, "brilliant" hugmynd sem ekki voru til aurar í hjá kvikmyndasjóð. Þetta væri svipað og ef íslenskur uppfinningarmaður sem uppgötvaði nýtt dekkjamunstur gæti ekki sótt um þróunarlán hjá NSA nema að fá fyrst "leyfi" hjá FÍB, eða mömmu sinni. Þetta var svo ítrekað af þáverandi framkvæmdarstjóra NSA í "Land og Synir" nokkru síðar. En "Land og Synir" hafði enga skoðun á þessu, já og amen einsog venjulega, hugsanlega af því að ef einhver í ritstjórninni hefði svo mikið sem spurt NSA hvað klukkan væri færu þeir umsvifalaust út af "sakramentinu".
Nokkrum árum síðar, eftir að hafa heyrt af reynslu og sjónarmiðum íslenskra fagmanna, þvers og kruss, og beðið NSA árangurslaust um eitthvað sem hönd á festi í stefnu sjóðsins sendi fyrirtæki mitt fyrirspurn til Samkeppnisráðs. Ekkert mál, eitt stutt bréf, um hvort það væri æskilegt að NSA sem á annað borð var að leggja faginu lið skildi ekki gæta jafnræðis. Samkeppnisráð sá ástæðu til að málið ætti erindi til Fjármálaeftirlits, og taldi þetta ekki normalt. Þá gerast tíðindin, NSA, líkt og SÍK og KMÍ, fer að því virðist á taugum, eða fer í hring með stefnu sína í svari sínu til Fjármálaeftirlitsins. Í fyrsta lagi, að sjóðurinn hafi hlustað á sjónarmið kvikmyndagerðarmanna áður en úthlutun hófst, sem var ekki rétt, og í öðru lagi að sú stefna að sinna aðeins umsóknum sem höfðu fengið stimpil hjá Kvikmyndasjóð hafi í raun ekkert verið þeirra stefna, heldur eitthvað rugl í kvikmyndagerðarmönnum. Það er í sjálfu sér alls ekki erfitt að trúa því, en fyrrum framkvæmdastjóri NSA hafði lagt nokkuð mikið púður í að "rökstyðja" þessa stefnu sína árin á undan, en skipti snögglega um skoðun þegar koma að Fjármálaeftirlitinu og Samkeppnisráði.
Enn í dag, fimm árum eftir að NSA setti fyrstu aurana í kvikmyndagerð, bólar ekkert á hvert takmark NSA er með aðkomu sinni að íslenskri kvikmyndagerð.
Menningin
Hugtökin "menning" og "íslenskur veruleiki" í íslenskum kvikmyndum hafa að mínu mati ekki aðeins þróast í að vera óskilgreind pólitísk hugtök sem beitt er í samkeppni, heldur líka í "söluvöru" á markaði opinberra sjóða þar sem gildandi reglum er ætlað að endurspegla samtímann og vernda menningarleg séreinkenni. Þannig hafa orðið til einhverskonar "fuglahræðuáhrif", það er að passa uppá eina fuglategund (menningu) með því að hræða aðra í burtu. Þessi áhrif geta einsog hver önnur rauðvínsflaska leitt til góðra og slæmra hluta.
Evrópubandalagið, í menningarlegu tilliti, reynir að tryggja með reglum og stefnu sinni að rödd smærri svæða heyrist, og þrátt fyrir sameiningu þá muni Evrópa verða samansett af mörgum litlum Evrópum. Í þessu umhverfi getur það hinsvegar orðið betri "bissniss" fyrir kvikmyndagerð, og á það við um Norðurlöndin flest, að fjalla um ýmiss minnihlutamál, svo sem vanda innflytjenda. Gott og blessað, en hættan á búrókratískum kvikmyndum um efnið eykst, og dæmi er hægt að taka af vandamáladrama sem í eina tíða mátti ætla vera sprottna af þörf, en nú vegna þess að efnið passaði inní reglugerð.
Aðdraganda að tilkomu "fuglahræðuáhrifanna" má rekja til upphafs síðustu aldar, og sem á sínum tíma leiddi til mikillar grósku. Í einstakri bók Stefáns Zweig, "Veröld sem var", segir hann m.a. frá áhyggjulausu lífi listamanna í Austurríki og víðar, og hversu litlu þeir skeyttu um pólitíska þróun mála. Tímabilið frá lok 19. aldar undir áhrifum manna einsog, Freud, Marx, Nietzsche, Strindbergs o.fl., rann saman við tímabil Stravinskys, Dinu Lipattis, Breton, Einstein, Dreyer, Bunuel, Proust, Bresson, og fleiri og fleiri. Fyrstu áratugir síðustu aldar var mikið blómaskeið og áhrifanna gætir framá þennan dag. Að hugsa sér þessa ótrúlegu sköpun sem átti sér stað á stuttu tímabili á svo mörgum sviðum, og sem er í raun einsdæmi. En það að sofna á verðinum gagnvart stjórnmálaþróun í Evrópu í upphafi aldarinnar sem gat af sér tvær heimsstyrjaldir og spænska borgarastyrjöld, hafði þau áhrif að listamenn tóku að sér stærra hlutverk sem samfélagsgagnrýnendur, þeir voru krafðir um samfélagslega ábyrgð, þeir myndi ekki sofna á verðinum aftur. Kynslóð eftir kynslóð átti eftir að kynnast styrjöldum og þjáningum þeirra. Þau tvö lönd sem sátu eftir í hvað mestum sárum, Þýskaland og Bretland, endurskoðuðu t.d. reglur sínar um opinbert fé til menninga og lista í kjölfarið og þar var tryggt með skýrum hætti að rödd minnihlutahópa og allra þjóðarbrota heyrðist. Önnur lönd gerðu þetta líka, flest síðar. Listamenn sjálfir tóku meiri og virkari þátt í pólitískri umræðu, en þegar halla fór á öldina minnkaði það og, í mikilvægum skilningi þessa orðs, þeir eru kannski enn í þessu "hlutverki".
Enn eru við líði, sérstaklega á Norðurlöndum, búrókratískt kerfi sem framfleytir "gagnrýnum" listamönnum. Þetta óskilgreinda "hlutverk" listamannsins í dag, í nýju samfélagi, er líka oft heimfært uppá kvikmyndagerðarmenn. Alls ekki slæmt. En það er hugsanlega þessi 68 kynslóð sem telur sig eina lifa í þessari stemningu, og telur það skyldu sína að passa uppá samfélagslega umræðu í menningum og listum, og engin veit betur. Kjarni málsins hér er, að við þessar aðstæður eru gömul hugtök um "menningu" og "íslenskan veruleika" enn óspart notuð sem einhvers konar rök, hvort sem það er í lögum, reglugerðum, eða bara hverju sem mönnum dettur í hug. Það er ekki dregið í efa hér að áhugi þeirra sem marka stefnu og þeirra sem hlúa vilja að sérkennum hverrar menningar er einlægur og ósérhlífinn. En með tíð og tíma hefur "bissnissinn" í kringum opinbera sjóði, þ.m.t. á Norðurlöndum, orðið svipaður og í kringum fjárfesta á frjálsum markaði, en með öðrum formerkjum. Kvikmyndin "Hafið" er dæmi um mynd með samfélagslega skírskotun, en erfitt að sjá hverju hún bætir við umræðuna um sjávarþorp, áhrif tölvuleikja eða kvótakerfið, sem hefur farið fram í góð 20 ára. Hvers vegna varð heimildarmynd ekki fyrir valinu? En leiknar kvikmyndir með samfélagslega skírskotun í dag hafa líklega öðru hlutverki að gegna en fyrir ekki meir en 20 árum eða svo, vegna þess að aðgangur okkar að upplýsingum, málefnum og umræðu er miklu meiri. Leiknar kvikmyndir mættu því reyna að bæta við hughrifum, hughrifum sem finnast ekki á netinu. Þess vegna var kannski "Festen" mikil "cult" mynd, en "Hafið" bissniss, og allt í fína með hvoru tveggja.
Það er óhætt að fullyrða að áhrif markaðarins er ekki spurning um mikil eða lítil áhrif hægrisinnaðra peningamanna (áróður sem er líklega orðinn bitlaus), þau eru ekki síst spurning um að losna við búrókratisma, líkt og gerðist í austur Evrópu á árunum eftir 1990, losna m.a. við hann úr viðskiptum með menningu og listir. Hið opinbera hverfur ekki, það fer í annan jólasveinabúning. Fyrir austan hét þetta einkavæðing, hugtak sem hugsanlega einfaldar hlutina um of. En hvers vegna ættu viðskipti með opinbera sjóði að vera betri en viðskipti frjáls markaðs. Brestur á borgarastyrjöld ef íslensk kvikmyndagerð losnar undan forræðinu?
Eru "menningarleg rök" nokkuð annað en angi þjóðernishyggju sem small við umbreytingar síðustu aldar, en setur nú fingurinn á loft og segir, "þetta má ekki". Í reglugerð KMÍ segir nefnilega,"Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa íslenska menningarlega skírskotun nema sérstök menningarleg rök leiði til annars". Þetta er flott setning, en hvað þýðir hún? Er þetta varnagli? Hvers vegna skyldu íslendingar hafa meiri áhuga á að framleiða eitthvað annað en íslenskt efni? Það er ekki erfiðara að vinna úr sínu eigin umhverfi heldur en annarra, og auk þess skemmtilegra, finnst mér. Hvers vegna að hafa áhyggjur af þessu og hvað er verið að flækja málið? Eða hvernig væri, "Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa byltingarkennda skírskotun nema sérstök byltingarkennd rök leiði til annars", eða, "Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa stratóferíska skírskotun nema sérstök stratóferísk rök leiði til annars", eða, "Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu hafa sjálfhverfa, dadaíska og strúktúralíska skírskotun nema sérstök sjálfhverf, dadaísk og strúktúralísk rök leiði til annars".

Búrókratið
"Önnur mál" sem hafa skotið upp kollinum í umræðu um opinbera stjórnun er hvernig sumir stjórnendur í opinberum sjóðum hafa stoppað stutt við, og sjá stöðu sína sem áfanga að öðrum stöðum, t.a.m. innan Evrópubandalagsins, stöðum sem lítið hafa með menningar- og listapólitík að gera. Stundum bjóða aðrar stofnanir og fyrirtæki betur. Þannig fer reynsla og þekking frá stofnuninni, og einnig, að viðkomandi stjórnendur leitist við að marka stefnu, eða hvetja til stuðnings verkefna sem eru mjög sjáanleg þannig að störf þeirra séu meira sjáanleg. Grasrótin getur því orðið útundan því hún er ekki eins sjáanleg, og opinberar stofnanir og stjórnendur hennar hneigjast til að setja aura í stjörnuverkefni sem þurfa ekkert á þeim að halda. Opinberar stofnanir ættu strangt til tekið að gera grasrótarstarfsemi að forgangsverkefni sínu og fleyta þeim áfram inná markaðinn. Þess vegna er líka erfitt fyrir ýmsar stofnanir að sýna framá góðan og merkilegan árangur í stuðningi við grasrót sem kann að skila samfélaginu bæði efnahagslegum og listrænum ávinningi, en sem ekki skilar sér fyrr en eftir 2 - 3 kjörtímabil.
Í þessu samhengi er freistandi að taka dæmi af stuðningi Íslandsbanka við barnastarf Þjóðleikhússins, sem á sínum tíma var gagnrýnt af Möguleikhúsinu. Hvernig átti Þjóðleikhúsið að hafna eða sækjast ekki eftir styrk bankans ef það er hlutverk stjórnar leikhússins að gera veg hússins sem mestan, og hvers vegna ætti bankinn ekki að leggja nafn sitt við virðulega menningarstofnun og fiska nýja kúnna? Og hvers vegna ætti Möguleikhúsið ekki að mótmæla? Hugsanlega hafði bankinn þá stefnu að styrkja grasrótarstarf á öðrum vettvangi menninga og lista, í þetta sinn, en þarna myndast "gat" sem opinbert fé til menningarmála mætti ætla að "eigi" að fylla uppí. Ef stefna ríkisins er skýr, og virkjar t.d. skattaafláttarkerfið rausnarlega, geta bæði fyrirtæki og smærri aðilar, líkt og Möguleikhúsið, markað sér einbeittari stefnu í styrkjum og fjáröflun. Þá er orðið "styrkir" ekki sannfærandi í mörgum tilfellum því margir "styrkir" í dag eru fjárfesting í ímynd.
Aðkoma ríkis að kvikmyndagerð, og menningar- og listastofnunum almennt, er ekki einfalt mál þótt gerð kvikmynda sé ekki flóknara en margt annað. Það sem gerir málaflokkinn ekki einfaldan er að mínu viti eitt atriði, það er "fílósófían" á bakvið opinbera styrki, það er, réttlætingin á veitingu opinbers fé til málflokksins og hvaða áhrif það hefur. Skortur á umfjöllun þessa máls hjá stjórnendum Kvikmyndasjóðs í gegnum tíðina hefur leitt til þess að stofnunin virkar stíf, eða kannski feimin. Einsog hana vanti eitthvað "rokkabillí". Hugsanlega þar sem ósannfærandi fagpólitíkin, sem flestir skynja afar sterkt, hefur ekki skilað eins miklu og ætlast var til og ekki komið faginu útúr gettói hreppastjórnmála. Og kvikmyndasjóður, sem eini "fjárfestirinn" fyrir framleiðslu, er ætíð í sviðsljósinu. Það er engan annan að hafa.
Ef við gefum okkur að hnattvæðingin sé liður í stefnumótun KMÍ, þá erum við með tvær spurningar á lofti, að fara í vörn eða sókn. "Fuglahræðustefnan" er vörn. En við viljum sókn, þó ekki væri nema því hún er fín vörn. Þessari sókn er best farið í höndum einstaklinga og fyrirtækja, hið opinbera tryggi aðeins festu og stöðugleika. Án þess að fara útí frekari stefnumótunartal, þá er ég hins vegar þeirrar skoðunar að hnattvæðingin einsog hún hefur oftast verið sett fram sé of mikið á eina lund. Hún eru gamlar fréttir því við í raun aðeins að tala um aðra birtingamynd gamals kapitalisma, fyrst og fremst vegna tilkomu internetsins og tölvuvæðingar. Að vísu er sameining Evrópu og öflugri alþjóðastofnanir vísir að hnattvæðingu, en breska Austur-Indíafélagið var í engu minni hnattvæddum viðskiptum á 19. öld en Alcoa er í dag, og stórfyrirtæki þurfa alltaf að lúta þeim lögum sem gilda í landi hverju. Hnattvæðing sem veitir innblástur er t.d. kristindómurinn, og svo er það Marxisminn, jafnvel Dadaismi, og það að gera hnattvæðingu að atriði í stefnumörkun um útgjöld ríkisins þá dettur mér reyndar fyrst í hug háskólar og trúfélög. En hugsanlega lítur samtíminn á sig hverju sinni sem það merkilegasta sem hefur verið skapað, og nú vegna þess að áður var engin Internet Explorer. Hvað erum við að bralla annars í dag annað en að fást við hugsjónalittlan post-post-modernisma, sem í samanburði við grósku aldamótanna 1900 lítur út einsog öskubakki.
Nóg um það, en ef við sem sagt gefum okkur að hnattvæðingin sé liður í stefnumótun KMÍ, það er hversu íslensk við ættum að vera, þá er vel hugsanlegt að það sé það sem stjórn SÍK átti við með að segja, "Ennþá á eftir að móta endanlega stefnu um hverskonar myndir komi til með að hafa forgang...". Verða það myndir með "sjálfhverfa, dadaíska og strúktúralíska skírskotun, nema að stratóferísk rök leiði til annars"? Þetta verður spennandi.
París, síðla hausts 2003.

Samráð og kvikmyndaráð

Laugardagsmorgun og smá heimsókn á íslenskar kvikmyndasíður, sem eru ekki of margar ... en það er lítið að frétta. Síður þessar eru hinsvegar ágæt stúdía og af þeim má draga lærdóm um íslenska kvikmyndagerð almennt þótt þær séu frekar þurrar og leiðinlegar.

Nú var fundur sl. miðvikudag 1. des. á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands KMÍ, undir yfirskriftinni “samráð”. Ekki er eitt orð á vegum KMÍ að finna neinstaðar um hvað fór fram þar, hvað næst og hver niðurstaða var. Ekkert er að finna á heimasíðu KMÍ. Það var það ekki heldur á sl. ári þegar miðstöðin var sögð ætla að ræða um “mótvirðisreglu” í úthlutunum til kvikmynda. Ráðstefnan sem SÍK ætlaði að halda með KMÍ í fyrra var aldrei haldin að sjálfsögðu, það var svo sem vitað, en það sem er furðulegt er að þegar gott PR er fyrir KMÍ að gefa fagfólki upplýsingar þó það sé allt plat og útúrsnúningur, þá virðist KMÍ ekki vilja nýta þá tækni sem var fundin upp á sl. öld og koma upplýsingum á framfæri, bara svona til að halda mönnum góðum. Það eru náttúrulega margir orðnir undrandi á þessu rugli, fleiri en ég ...

Breska rithöfundasambandið, Writers Guild of Great Britain, er ágætt dæmi um samtök sem eru allavega ekki stærri að umfangi en KMÍ, en sambandið sendir út gott fréttabréf á netinu tvisvar í mánuði, svo ekki sé talað um enska kvikmyndasjóðinn, eða svona meðal félag á Íslandi, Félag Hjúkrunarfræðinga, Rafiðnaðarsambandið...

Frá KMÍ kemur ekki eitt orð. Óskaplega hlýtur þetta að vera merkilegt stofnun. En hvers vegna þurfa menn að fara þessar krókaleiðir til að komast að því hvað næst? Ætlar KMÍ, eða Kvikmyndaráð, að láta sig hafa það að samþykkja nýja reglugerð eða verða “ýmsar athuganir” ....” á næstunni”.

Ég skal ekki segja.

Tilgangur logs.is er vægast sagt óljós og er í besta falli orðinn ímynd íhaldsemis, forneskju og misnotkunar, en ef ritstjórinn getur ekki unnt einhverjum velgengi af persónulegum ástæðum þá verða fundar leiðir til að útiloka viðkomandi frá síðunni eða eitthvað í þeim dúr. Þannig hefur það alltaf verið með þann strák ...

Mjög frumlegt.

Og eftir að ljóst var að Kvikmyndamiðstöð Íslands fór ekki eftir þeim reglum sem henni eru settar og Félag Kvikmyndamanna gerði ekkert, og öll sú saga, þá vöknuðu spurningar um hvar Kvikmyndaráð væri, sem er skv. lögum ráðgefandi aðili. En viti menn, ráðið hefur ekki haldið fund í heilt ár.

Á heimasíðu Félags Kvikmyndagerðarmanna stendur þetta:

Félag kvikmyndagerðarmanna er heildarsamtök kvikmyndagerðarmanna og stendur vörð um hagsmuni þeirra og höfundarrétt. Félag kvikmyndagerðarmanna er skipulagt á grundvelli hinna ýmsu starfsgreina innan kvikmyndagerðar svo sem kvikmyndatöku, klippingar, hljóðvinnslu, kvikmyndastjórnar osfv. Þó félagið sé fagfélag en ekki stéttarfélag vinnur það að hagsmunamálum félagsmanna eins og gerð samninga, en stór hluti kvikmyndagerðarmanna á Íslandi er sjálfstætt starfandi. Félag kvikmyndagerðarmanna er opið öllu fagfólki í kvikmyndagerð. Félag kvikmyndagerðarmanna hefur gefið út tímaritið Land og syni frá árinu 1995. Blaðið er málgagn kvikmyndagerðarmanna og vettvangur umræðu og upplýsinga um hvað eina sem snýr að faginu. Land og synir er nú gefið út af Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni sem jafnframt heldur úti vefnum logs.is. Blaðið kemur út tvisvar á ári og er sent félögum FK og meðlimum Kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar en einnig til fjölmiðla, þingmanna og annarra sem fjalla um málefni kvikmyndagerðar á Íslandi.


Ef brotið er á einhverjum innan eins tiltekins fags og það greinilega, þá gera fagfélög athugasemd við það, allavega athuga málið, spyrjast fyrir o.s.frv. Félag Kvikmyndagerðarmanna hinsvegar, þrátt fyrir að KMÍ marg-ítrekað brýtur lög og reglugerð, gerir nákvæmlega ekki neitt.

Skv. upplýsingum sem ég fékk úr innsta hring menningargeirans þá aðhefst t.d. Bandalag Ísl. Listamanna ekkert vegna hagsmuna sinna skjólstæðinga fyrr en að viðkomandi fagfélag sem á aðild að BÍL hefur óskað eftir því. Sem sagt hefðbundið “order of command” ...

... en Félag Kvikmyndageðrarmanna ... my oho my ... þetta er náttúrulega ekki normal, er það?

Kannski verður deginum bjargað af Channel 4 sem er t.d. með “Midnight Cowboy” á dagskrá í kvöld ... eða ef Newcastle United gefa Chelsea góða keppni í boltanum ... enn er von.

Friday, December 03, 2004

Íslenskir fjölmiðlar, her og fluga í höfuðið

Ég var að horfa og hlusta á “Ísland í dag” á Stöð 2, og “Víðsjá” á Rás 1 í gær á netinu, (þetta er farið að gerast meir og meir á Fimmtudagskvöldum að ég tek púlsinn á íslenskum fréttum sem ég held sé dulin arfleið af því að ekkert sjónvarp var á Fimmtudagskvöldum í den og þá var farið í bíó) en í báðum þessum þáttum var talað um íslenska friðargæsluliða, á Stöð 2 vegna myndar sem var verið að frumsýna og á Rás 1 var viðtal við einn íslenskan starfsmann (blaðamann “in real life”) sem var í Afganistan um tíma. Veit ekki hve lengi.

En það er ekki stríð lengur í landinu, einhverjar uppákomur, svo það er hugsanlega ekki hættulegri að vera þarna en að keyra meðal íslenskan fjallveg um vetur. Þeir sem eru í hernum eru líka öruggari en aðrir nema ef þeir eru í þannig sveit og í þannig stöðu á þannig tíma sem eykur áhættuna. Svo ekki var verið að ræða það né var það “í loftinu”.

Og í raun skiptir ekki máli hvað verið var að tala um nákvæmlega, nema hvað að þessir þáttastjórnendur sem eru allir yfir vel meðallagi góðir blaðamenn og viðmælendur lika, þekkja kannski ekki (mikið) stríð af eigin raun. En hugsanlega var á mörkunum, sérstaklega í “Ísland í dag”, þessi tónn íslendingsins sem hleypur útá götu til að horfa á flugvélarnar þegar loftárás er að hefjast, í staðinn fyrir að fara í loftvarnarbyrgi.

Vonandi á þessi umræða á Íslandi um stríð ekki eftir að reynast neinum aðfluttum Íslendingum erfið, eða þeim sem hafa kynnst stríði.

Svo hélt ég ferðinni áfram um íslenskra fréttir og vefsíður og hef allt of miklar skoðanir á því, en það sem var einna broslegt var “Í vikulokin” þegar Gísli Marteinn var að gagnrýna borgarpólitíkusa í R-listanum og var búinn að segja þrisvar “en þetta er ekkert persónulegt”, þegar ég hætti að hlusta.

Hvar fá menn þá flugu í höfuðið að ólíkar pólitískar skoðanir segi eitthvað um mat manna á persónu? ”Who cares “. Þurfa ekki “wannabes” einsog hann að fara í sveit, ganga á norður pólinn eða gera eitthvað sem hristir uppí þeim.

Spennandi fjölmiðlaefni að hlusta á menn afsaka sig fyrir eitthvað sem ekki skiptir máli.

Thursday, December 02, 2004

Brown and the London papers today

The papers are putting Blunkett and “His former lover nanny’s visa story” on their front pages again, The Guardian, Independent, Daily Mail, and more. But Financial Times has got Gordon Brown and his new budget.

Brown gets his criticism but it is the sort of criticism that can lead to a decent political argument, not mud throwing because Brown is respected and his opponents even agree that he is a good politician. But what is happening now is that he is becoming a good candidate too, he looks natural kissing babies in front of cameras and his “Father of the nation” hair cut has got a boyish flair. He seems to be growing an element of coolness which new voters may respond to. Maybe he is being re-designed.

Labour´s spin might push him forward today and all this week to swift the attention away from Blunkett. That’s ok. That´s politics, and they want to help Blunkett. He is not Peter Mandelson. Brown will also be the next Labour leader and probably the man remembered for uniting the Labour party after Iraq. Tony can´t do that.

About "new writing"

MediaGuardian says that staff have been told that the Get Writing site which cost around £400,000 to get going with a nationwide campaign for creative writing , will close down just months after it was put back on track ... also it seems to be a growing trend among playwrights for short plays without intermissions, see this:

Réttlæting ríkissframlaga til lista og menningarmála

Það er áhugavert að skoða hvert er raunverulegt framlag ríkissins til lista og menningarmála.

Þessi framlög í ríkissfjármálum eru í Evrópu venjulega öll flokkuð með framlögum til mennta-, heilbrigðis- og félagsmála, her- og öryggismála o.þ.h. En hvernig réttlæta eða mæla eigi þessi framlög hefur verið reynt og um það deilt. Hollendingar hafa t.d. reynt þetta og gáfu út mikla skýrslu um verðmætasköpun menningar fyrir um 6 árum sem eðlilega varð mikið umræðuefni í landinu. En þetta mætti flokka í tvær típur af spurningum, það er spurningar um huglægt gildismat annars vegar og hagfræði hins vegar.

Framlög sem skila sér beint inní hagkerfið eru framlög sem eru atvinnuskapandi, hafa auglýsingargildi eða margfeldisáhrif og geta aukið tekjur ríkissjóðs t.d. með sköttum. Þannig geta tekjur eins ráðuneytis, það er fjármálaráðuneytis, aukist við aukna veltu stofnanna sem tilheyra menntamálaráðuneyti. Í hug íslenskra listamanna kemur virðisaukaskattur, en þetta allt er hægt að mæla og reikna út.

Blandan af þessu báðu, þessu huglæga og þessu hagfræðilega er að finna t.d. í menntakerfinu, listir eru hluti af því og líka af hinu félagslega velferðarkerfi og byrjuðu Skandinavar og Hollendingar snemma að nýta listir kerfisbundið við kennslu. Þannig geta framlög til menningarmála í raun verið til að rífa upp jaðarsamfélag þar sem er t.d. atvinnuleysi, kynþáttahatur og önnur félagsleg vandamál. Þá eru listasöfn virkur hluti menntakerfis og laða að ferðamenn. En af þeim framlögum ríkissins til lista og sem við köllum “landkynningu” þá er óhætt að segja að listamenn eru ráðnir í vinnu til að styrkja viðskipti ferðaskrifstofa, verslana, hótela o.s.frv, og óbeint þannig að auka skattatekjur ríkissins. Þetta er vart styrkur til listamanna, þeir eru að vinna vinnuna sína. Frekar er þetta styrkur til ferðaiðnaðarins og má segja að ríkið fái oft eitthvað fyrir sinn snúð því um leið eru listamenn að sýna karakter þjóðarinnar útávið og liðka fyrir samskiptum.

Ef við tökum framlög ríkja til lista og skoðum þau í öllu þessu samhengi þá getum við fært fyrir því rök að þau eru lítil og mætti auka, því þetta er kostnaður við félags, menntunar og utanríkissmál og hitt skilar sér aftur í sköttum og virðisauka. Allavega, það er ástæðulaust að setja þau neðarlega á forgangslista og þegar öllu er á botninn hvolft er það ekki mjög stór hluti af framlagi ríkissins til þessa málflokks sem erfitt er að réttlæta, eða það sem tilheyrir hreinu huglægu mati á list. Ef við göngum lengra og reynum að verðleggja áhrif hinar skapandi orku og andrúmslofts við kennslu og í atvinnulífi, þá er óhætt að segja að hún hafi jákvæð áhrif á nýsköpun og fæðingu hugmynda og sé nokkurs virði. En hreinir og beinir listastyrkir eru oft veittir af sanngirnis og virðingarsjónarmiðum, þar undir falla hugsanlega heiðurslaun listamanna sem veitt eru af alþingi og þau sjónarmið endurspegla gildismati þjóðar gagnvart listum. Viðhorf Íslendinga til lista er yfirleitt mjög jákvætt, sem er þó allt annað en ólíkar skoðanir um hvernig (úthlutunar)reglurnar eiga að vera.

En reglur þar sem huglægt gildismat einnar nefndar gildir, geta strangt tekið verið eins og þar sem markaðurinn ræður, nema að í stað markaðar kemur nefnd.

Wednesday, December 01, 2004

The Independent today

The Independent today has a positive photo on its front page. Two smiling African children playing with water. The paper is launching a Christmas appeal. I think poeple are buying the paper, looking at it … but the photo comes as a little surprise in the middle of all the rest of the bad news. Its also plainly a nice, good, professional photograph ... folks are fed up with conflicts ... and the news about the killing of a City boss in Chelsea is not making people smiling.
It is a cynical day in the West. http://www.independent.co.uk

Lítið pláss á netinu......

Það var víst ekki pláss fyrir þetta á logs.is fyrir nokkru síðan, og reyndar fleira efni, en þetta er birt hér með. Vitaskuld er takmarkað pláss á vefnum, ég skil. Meira efni sem ekki var pláss fyrir kemur síðar en sumt er orðið það gamalt að það er komið á diska í geymslu, lang langt langt í burtu (far far far away).


Samkeppnin
Einsog flestum er kunnugt um hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands tekið pólitíska afstöðu gegn mótvirðisreglunni. Samkeppnisstofnun hefur tekið kæru til greina vegna úthlutana úr Kvikmyndasjóð Íslands og verður það að teljast tíðindi enda í fyrsta sinn sem það gerist. Og það vill svo til að m.a. er um að ræða fyrstu úthlutanir nýrrar kvikmyndamiðstöðvar, sumarið 2003. Samkeppnisstofnun gaf Kvikmyndamiðstöð frest til 21. október nk., nú innan 10 daga, til að skila svari. Það gæti aldrei verið annað en plús fyrir umræðu um íslenska kvikmyndagerð. En erindið birtist hér fyrir neðan með von um að það megi verða umræðunni til góðs, að menn átti sig á hvað er verið að tala um, séu ekki að fara með vitleysu og áður en þeir skrifa skritna pistla. Ég hef líka verið spurður útí þetta mál og sjálfsagt að birta þetta, en rétt að fara fyrst nokkrum orðum um erindið.
Í tilfellum hafa örfá atriði, nöfn og stuttar setningar verið teknar út þar sem um viðskiptaleg eða lagaleg einkamál er að ræða og er ástæða til að taka það fram. Þá eru ákveðnar lagalegar forsendur sem þurfa að vera fyrir hendi svo málið sé meðtækilegt í þessi samhengi og það “spanni” þætti málsins, en þau fyrirtæki sem nefnd eru í kærunni og viðkomandi úthlutanir eru ekki tilteknar af handahófi. Með erindinu fylgdu m.a. gögn um mótvirðisfjármagn, en rétt er að benda á að það er óhugsandi í dag að fá 60% fjármagn erlendis frá sem byggt er eingöngu á skattaafslætti. Fyrirvari er um upphæð styrkveitinga til tilgreindra fyrirtækja en þær voru ekki allar staðfestar, svo að lágmarks upphæð er tilgreind í kærunni þó að endanlegur styrkur hafi verið hærri í sumum tilfellum. Þá er rétt að taka fram að kærunni var vitaskuld ekki beint gegn viðkomandi fyrirtækjum.
En áður en erindið var sent Samkeppnisstofnun fékk KMÍ tækifæri á löngu tímabili til að gera grein fyrir hvaða stefna væri sett varðandi mótvirðisreglu og umtalaða 8. gr. reglugerðarinnar. Svör eru engin til þessa dags.
Einar þór




Samkeppnisstofnun
Rauðarárstíg 10
105 Reykjavík

KÆRA

Passport Kvikmyndir (kt………) hér með kærir eftirtaldar úthlutanir Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á framleiðslustyrkjum til leikinna kvikmynda í fullri lengd á árinu 2003, og vilyrði fyrir framleiðslustyrkjum árið 2004.

F.I.L.M. kr. 22.000.000, (vegna Opinberun Hannesar)

Ísfilm. kr. 12.000.000 árið 2003 og kr. 18.000.000 vilyrði árið 2004, samtals 30.000.000. (vegna Í takt við tímann)

Saga Film. kr. 10.000.000 (vegna When Children Play)

Sögn ehf. kr. 10.000.000 árið 2003, (vegna Dís) kr. 50.000.000 vilyrði árið 2004, (vegna Saga, breytt í A Little Trip to Heaven), samtals 60.0000.000.

Zik Zak. kr. 10.000.000 vilyrði árið 2004. (vegna Untitled)

I. Málavextir

Þann 1. janúar 2003 tóku ný lög um Kvikmyndamiðstöð Íslands, KMÍ, (nr. 137) gildi og ný reglugerð um KMÍ nr. 229/2003 tók gildi 31. mars 2003.

Passport Kvikmyndir sóttu um framleiðslustyrk til leikinnar kvikmyndar í fullri lengd vorið 2003, og vísaði í 8. gr. reglugerðar, 3. mgr. Þar sem segir:

“Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar getur veitt framleiðslustyrk vegna leikinnar kvikmyndar í fullri lengd til sýningar í kvikmyndahúsi, án umsagnar kvikmyndaráðgjafa, þegar annað hvort leikstjóri eða framleiðandi hefur fullgert að minnsta kosti eina leikna kvikmynd í fullri lengd og fjármögnun er lokið að öllu öðru leyti en sem nemur framlagi Kvikmyndasjóðs. Skilyrði fyrir framleiðslustyrk er að fyrir liggi skriflegir samningar eða staðfestingar um að fjármögnun sé að fullu lokið frá öðrum en Kvikmyndasjóði. Framleiðslustyrkir sem veittir eru samkvæmt ákvæði þessu skulu ekki nema hærri fjárhæð en 40% af heildarframleiðslukostnaði, þó að hámarki 40 milljónir króna. Jafnframt er skilyrði að heildarframleiðslukostnaður hinnar leiknu kvikmyndar sé að lágmarki 50 milljónir króna. Framleiðslustyrkir skv. þessum tl. ganga alla jafna fyrir öðrum styrkveitingum Kvikmyndasjóðs.”

Verkefni Passport Kvikmynda var að öðru leiti fjármagnað (60%), nema því sem næmi framlagi Kvikmyndasjóðs Íslands. Fyrirtækið sótti einnig um í anda yfirlýsinga nefndar menntamálaráðuneytisins sem stóð að gerð reglugerðar, þar sem hvatt er til að tekin verði upp mótvirðisregla (40/60 regla), og í anda yfirlýsingar fagfélaga innan kvikmyndagerðar. Þar kom m.a. fram hjá einum nefndarmanna:

“60/40 Einnig þótti mönnum mikilvægt að koma á einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun. Þannig að þeir sem geta útvegað 60% fjármagns geti gengið það því sem nokkuð vísu að Kvikmyndasjóður myndi koma með þau 40% sem upp á vantaði. Hugmyndin á bakvið þetta var að láta markaðinn og gefa þannig áhorfendum aukið vægi í vali verkefna, á þann hátt að þær myndir sem væru í raun og veru að ná til áhorfenda kæmu til með að ganga fyrir. Enginn reynsla er kominn á þetta ennþá en vonandi á ákvæði þetta eftir að hleypa nýju lífi í Íslenska kvikmyndagerð.”

...telur Passport Kvikmyndir það virka afar letjandi á samkeppnisumhverfi að (fjármögnuð) verkefni .... skuli hafa verið vísað frá þegar það sýndi framá hæfustu umsóknina að þessu leiti. Skilaboð KMÍ til fagsins eru þau að þeim sé ekki umbunað sem ná árangri á hörðum markaði erlendra fjárfestinga í kvikmyndum, og að nýjir keppinautar séu ekki velkomnir. Passport Kvikmyndir, ... stóð straum af kostnaði vegna öflunnar þessa mótvirðisfjármagns....

KMÍ er ekki skylt skv. lögum eða reglugerð um KMÍ að veita mótvirðisfé takist fyrirtæki að afla framleiðslufjármagns erlendis frá, en kærandi telur m.a. stjórnsýslu KMÍ stangast á við lög um samkeppni. Þá gefa vilyrði til framleiðslustyrks fyrirtækjum mikið forskot erlendis þar sem sótt er um frekari fjármagn. Passport Kvikmyndum tókst að afla framleiðslu fjármagns á erlendum samkeppnismörkuðum án slíks vilyrðis, sem verður að skoðast sem svo að verkefni fyrirtækisins standist faglega skoðun.

Þá telur Passport Kvikmyndir að starfsemi KMÍ sé of “blönduð” og illa skilgreind, það er að annars vegar sé hlutverk KMÍ að efla kvikmyndamenningu svo dæmi sé tekið, eða einsog fram kemur í 3. gr. kvikmyndalaga, en hins vegar veitir KMÍ styrki til framleiðslu til fyrirtækja sem starfa á markaði og eru í samkeppni. Vísað er í 14. gr samkeppnislaga hér að neðan varðandi þessa athugasemd. Þess vegna sé hinu opinbera skylt að beita sér fyrir fjárhagslegum aðskilnaði og reglum þar um sé komið á framfæri við viðkomandi fyrirtæki. Kvikmyndalög eru einnig óljós og “bjóða heim” afar almennri túlkun.

Ofangreind verkefni og úthlutanir KMÍ sem kærð eru, eru bæði á íslensku, ensku og dönsku, en KMÍ hefur ekki gert grein fyrir stefnu sinni eða áherslum í þeim efnum. Ekki verður því séð að menningarleg rök séu á bakvið úthlutanir umræddra framleiðslustyrkja. Ekki eru nein rök, gefin né séð, á bakvið ákvarðanir KMÍ um úthlutanir þessara framleiðslustyrkja.

Það skal undirstrikað að KMÍ er eini “fjárfestirinn” í kvikmyndum á Íslandi svo nokkru nemi, og er því hið opinbera í “markaðsráðandi stöðu”.


II. Lagaumhverfi

Markmið samkeppnislaga nr. 8/1993 er að efla virka samkeppni í viðskiptum. Samkvæmt 1. gr. laganna skal markmiði þessu náð með því að:
a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
b. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.

Kærandi telur að stjórnsýsla KMÍ stangist á við markmið samkeppnislaga og að lög og reglugerð um KMÍ séu illa skilgreind.

Í 2. gr. kemur einnig fram:
"Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum."
Og í 4. gr. (orðskýringar) segir,
“Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi.
Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.
Markaður er sölusvæði vöru og staðgengdarvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgengdarþjónustu. Staðgengdarvara og staðgengdarþjónusta er vara eða þjónusta sem að fullu eða verulegu leyti getur komið í stað annarrar.”

Kærandi telur að ofangreind skilgreining eigi við um framleiðslufyrirtæki kvikmynda í fullri lengd, sem framleiða vöru sem seld er á markaði.

Þá segir m.a. í 5. gr. að hlutverk samkeppnisráðs sé:
c. að stuðla að auknu gagnsæi markaðarins,
d. að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði.

Kærandi telur að hlutverk samkeppnisráðs sé að meta hvort lög og reglugerð um KMÍ, og stjórnsýsla KMÍ, takmarki samkeppni á kvikmyndamarkaði, og/eða geti ollið framleiðslufyrirtækjum tjóni. Einnig hvort KMÍ beri ekki skylda til að skilgreina og upplýsa fyrirtæki um stefnu sína, vinnubrögð og stjórnsýslu.

14. gr. samkeppnislaga segir “Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.”

Kærandi telur að hið opinbera beri að skilja að úthlutunarkerfi KMÍ annars vegar, frá starfsemi KMÍ sem lýtur að eflingu menningar hins vegar. Sú starfsemi sem lýtur að menningarlegu hlutverki og skyldum kunni því að heyra undir sérlög, en úthlutun styrkja til framleiðslu þurfi að taka mið af samkeppnisumhverfi. Þá segir m.a. í 7. gr. kvikmyndalaga, að “Í reglugerð1) sem menntamálaráðherra setur … skal enn fremur kveðið á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar…”

Ekki er kveðið á um þessa meginskiptingu í reglugerð um KMÍ.


III. Niðurstaða

Kærandi telur að stjórnsýsla og reglugerð um KMÍ sé ekki í fullu samræmi við kvikmyndalög, stangist á við samkeppnislög, og að stjórnsýsla KMÍ hafi valdið Passport Kvikmyndum tjóni. Hinu opinbera beri að endurskoða bæði lög og reglugerð um KMÍ.


Virðingarfyllst



fh Passport Kvikmynda



Samkeppnisráð
Rauðarárstíg 6
105 Reykjavík


Viðauki


Við afgreiðslu kærunnar er einnig óskað eftir að eftirfarandi komi fram:

Álit Samkeppnistofnunar á hvort Kvikmyndamiðstöð Íslands sé heimilt að beita ákvæði 3. tl. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, varðandi allar styrkveitingar Kvikmyndasjóðs. Þar með talið skv. 3. tl 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 229/2003 um Kvikmyndasjóð Íslands.


Sir James and Mary forever

... comment from blogger Pro. Batty, below ... (who is taking part in dance of the world-wide human consciousness as “a collection of atoms, molecules, proteins and spinning in a mad frenzy”, and posts well written comments on invisible things on his blog-site) ... suggesting an affair between these two. Perhaps better if Bond is now Sir James in his seventies, no children but a nice collection of guns he likes to show to his friends while Mary Poppins cooks dinner. She would wear a skirt because he likes her that way and has told her, or ordered her (like his father used to order his mother), to wear it when they have visitors, similar skirt to the one she was wearing when they first met and when she tried to kill him with a screwdriver in the boot of a space missile over North Korea, but they fell in love. She is always compliant, never complains and instead he lets her drive the Austin and she goes on her own for a nice little drive once in awhile laughing to meet her lover who’s name is Sorry and works at the pipeline factory and is considering to divorce his young pregnant wife for Mary Poppins laughing in an Austin and driving at speed in the skirt she wears when she is in the killer mood ... stories like that make any real man soft inside.

Tuesday, November 30, 2004

Great plays are written, not re-written

I came across this in The Guardian. Its since end of October, but there, theatre director Dominic Dromgoole says that contrary to the prevailing culture of re-writing and dramaturg-led development, great plays are almost always written in days or weeks. In films one talks about development hell when it doesnt seem to be fun anymore. You can't teach playwriting.
http://www.guardian.co.uk/arts/features/story/0,11710,1336818,00.html

The News: Ukraine nr. 2 and 3 .... and blame it on love

The Home Secretary here in the UK, David Blunkett, is still number one news at lunchtime on most TV channels and on front pages for abusing his position to get a visa. The visa was for a nanny so his secret lover could be his secret lover. He is being criticised. But where is the nanny, she should be put into jail, say, ten years ... Blunkett needs to get on with his service to the country. I think thou one doesnt need to go far to get the reply "Blunkett? Blunkett who"?
Well, private life is a private life and a public life is a public life. The difference is that public life doesnt have an after-life, thou, there are near-death-experiances in public life I've been told. Blunkett is having one now. In Iceland they (some) would go "visa? .... so?", "Abusing his position? ....so, eveyone does it". But the Mayor of Reykjavik city, capital of Iceland, had to resign few weeks ago because of his vague responsability in a previous job. Maybe the moral is changing. In France they migth have found that misterious visa-nanny already and put her on page three in her pyjamas. ... I just offered my friend I'd vote for her as the Queen of Europe if she would buy me a return ticket to East Ukraine, including lunch with coffee, tea at the polling station and a ticket to the opening night of the new Mary Poppins show, sounds fair the fare.

Nýr forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar verði kosinn

Innan við 6 mánuðum eftir að ný reglugerð um stofnunina tók gildi tókst stjórnendum hennar að brjóta reglugerð og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, svíkja fyrirheit um áfrýjunarreglu, um meira gagnsæi í vinnubrögðum kvikmyndasjóðs, að 40/60 mótvirðisregla myndi virka, og ráða lögmenn til að þagga niður í sjálfsögðum fyrirspurnum. Á þeim 18 mánuðum eftir að ný reglugerð tók gildi neitar Kvikmyndamiðstöð að gefa lögboðnar upplýsingar, þetta liggur fyrir, en stjórn Félags Kvikmyndagerðarmanna t.d. situr aðgerðalaus hjá.

Menntamálaráðuneyti ákveður að endurskoða reglugerð, hugsanlega af því að stjórnendur KMÍ fara ekki eftir þeirri “gömlu”. Og þrátt fyrir að ýmisslegt hafi farið úrskeiðis dettur forstöðumanni eða framleiðslustjóra stofnunarinnar ekki í hug að taka ábyrgð. Þetta er örugglega einhverjum öðrum að kenna. En jafnvel "kerfið" sem fyrir utan KMI er viljugt til breytinga getur ekki mikið aðhafst með ráðgjafa og stjórnendur af þessu tagi.

Önnur spurning er hver stóð að þessum ráðningum á KMÍ, og hvort kvikmyndaframleiðendur þurfi hér með að hafa áhyggjur af hvort stjórnendur KMÍ sé heiðarlegir, fari eftir lögum og reglum eða standist grundvallar kröfur. Hvers vegna hefur Kvikmyndaráð, hin ráðgefandi aðili skv. kvikmyndalögum, ekki fundað í heilt ár? Hvar er Óskar? (... Magnússon).

Einsog stendur er eina svarið að næsta og besta skref fyrir þetta fag er að forstöðumaður Laufey Guðjónsdóttir segi af sér. Og taki ráðgjafana með sér. Því fyrr því betra, og að kosinn verði forstöðumaður. Í kosningum sem þessum fara líka fram skoðanaskipti og við fáum að kynnast því hvað er raunverulega í boði. Traustið er farið og þetta ágæta fólk verður að horfast í augu við að. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn geta ekki setið enn einn ganginn uppi með stjórn af þessu tagi. Þeir verða að horfast í augu við það líka, og koma sér að þessu ágæta verki: að fá hæft og ábyrgt fólk sem getur framfylgt þeirri stefnu sem fagfélögin hafa sett, getur tjáð sig og skipts á skoðunum einsog venjulegt fólk, getur rekið um leið opinbera stofnun og brýtur ekki lög.

Og það sem meira er að fagfólk á betra skilið.

Engin getur verið viss um að trúnaðarupplýsingar frá framleiðendum sem fara til KMÍ séu í öruggum höndum einsog staðan er í dag. Dómgreindarbrestur þessa fólks er með þeim hætti að ástæða er að hugsa sig tvisvar um. Rekstur KMÍ hefur ekki aðeins verið með sömu ólíkindum og í tíð Vilhjálms Egilssonar og Þorfinns Ómarssonar, heldur virðist vera ásetningur að viðhalda stöðnuninni sem reynt var að brjót upp á sl. ári.

Saga Kvikmyndasjóðs er ekki með þeim sem sóttust eftir að starfa og stjórna hjá KMÍ eftir það. Og ekki er það upptalið, athugun opinbera aðila á starfsemi miðstöðvarinnar er ekki lokið. En ég er ekki í starfi hjá ríkinu við að koma með ábendingar um hitt og þetta, eða eitt eða neitt, og hef annað að gera. Ég vil bæði geta treyst því, einsog allir aðrir, að þurfi ekki að eyða tíma og fé til að verja sjálfsagðan rétt á hverjum degi, og vona að þessi sameiginlegu stofnun verði að djarfri og hugrakri miðstöð skapandi lista og öflugra viðskipta.
Það er ekkert sjálfsagt að aðstandendur miðstöðvarinnar eigi að vera þar og það er ekkert sjálfsagt að núverandi kvikmyndaráðgjafar skuli vera þar heldur. Það er ekkert sjálfsagt að stofnunin sé endalaust í stríði við almenn vilja og það er ekkert sjálfsagt að sitja uppi með þröngsýni gamallra kynslóða. Það er til fólk sem getur sinnt þessum störfum betur - það er ekkert sjálfsagt þessum efnum.

Monday, November 29, 2004

Two artists

Mary J Blige, R&B star and rapper Eminem, are both from a music scene which we intellectuals sometimes call "at street level".

That is not true, of course, but it sounds good. But it also benefits the conversation because it suggests where the roots of the music lie.
This music is not so much my thing or my scene though I do listen to it when its around ... like a human being ... it doesnt matter if the music is good, but Blige though seems to have a broader appeal to older than, say, 18 yr olds.

Why they come across as major artists to perhaps anyone but not as products is because they have a moral background and a moral feel to their art and music. Sounds like a cliché, but interesting they are.

I hope Eminem is not going to do too much of that anti-war thing of his, the video prior to the elections in US, or his number at the MTV award. Its good, but I think propaganda doesn’t last when done by the same artist unless that was his artistic birth place, that is: politics.
People may see most of these music idols and breed them as entertainers, but if Eminem uses his fame and talent for good things then one can not ask for more, for that matter. But he would take the “Bono route” if he continues, get the message across without the music. His track, “Loose it”, is a masterpiece of a production: talent, flair, super management and a voice too.

What makes Mary J Blige the best R&B artist in this country is possible her deal with the Christian faith, a deal she may at first have done with herself, to stop bothering about wigs and lip sticks, and just get to the bottom of it and find her own voice through Jesus. Good girl.

The point is that mixing moral issues with art, making a political point with art, is tricky because art is at its best when it transforms a confusion around us into a one single and clear sense of a feeling, and as such gives us a space to breath among all the facts and the figures that build our world. Now, that’s something… but my admiration for Blige as somewhat a young soul-artist is very much her courage to admit to the faith she believes in and learned to appreciate when already a mature musician.

http://www.mjblige.com

http://www.eminem.com


But Chaplin …
When Charles Chaplin played with the planet-balloon on his office desk in the film “Dictator”, with a Hitler jacket on and so and so and so on … it was thought as a great stuff of propaganda comedy, but I think I am not alone when I say I always found that scene too long, and very boring. It had worked if he somewhat had hit that balloon only once on his way out of the office and that’s it, but all that “dancing” on the desk ... one of those scenes we are told to think of as great when they are actually boring. But make no mistake, Chaplin the great was just trying to get to grips with soundtracks on his films.

Auglýst eftir grunsamlegum tölvupóst


Um daginn fékk ég sendingu frá KMÍ um að kvikmyndaráðgjafar hafi gefið það frá sér að fjalla um Passport umsóknir. Ástæðan voru orð sem ég lét falla um kvikmyndaráðgjafa í tölvubréfi ... eða bréfum ... til KMÍ “og annara” einsog segir í skilaboðum KMÍ.

(Þegar ég var á sjó þurftum við að fara á dekk í öllum veðrum af því þetta var vinnan okkar.)

En ég spurði, “hvaða tölvubréf var það”? ... og ég hef ekki fengið svar við því eða fengið að sjá það. Þetta er óneitanlega örlítið “Ásalegt” (það er ritstjórinn á logs.is), að kvarta undan tölvupóst og þess vegna geti hann ekki birt athugasemdir frá mér. Kannski er þetta tíska, haust tískan. En það er meira hvað hann hefur verið sjokkerandi þessi póstur, virðist hafa djúp sálræn árhrif. Ef ég fæ að sjá hann birti ég hann samt hér, en ég hlýt að hafa leyfi til þess ef hann er til og er eftir mig.

Ef ástæða er til verður aldurstakmark.

Hitt er annað mál að eftir úrskurð menntamálaráðuneytisins frá því í vor þá eru forstöðumaður og kvikmyndaráðgjafar vanhæfir til að fjalla um umsóknir Passport Kvikmynda.

Vissulega óvenjuleg staða, kannski spurning um heimsmetabók Guinness. En hér með er auglýst eftir þessum tölvupóst og vonandi að það fari að bera árangur.

Germany plans a Big Brother that will never end, The German Truman Real Show

Old news but still the any real latest of the Big Brother / Reality TV business. Endemol Germany is turning the Big Brother format into a lifelong experience for next year’s contestants and has lined up a purpose-built town to house the never-ending show. They hope that the new 4000 square metre city being built outside Hamburg will be home to participants for decades and follow them from childhood through to starting their own families. Now if there are no or few limits in TV what are the limits in Films.

Sunday, November 28, 2004

James Bond and Mary

Bond has changed his lifestyle through the years and survives like spiderman, his sexual behaviour is now something of the gentlemen sort ... I think he slept with one lady in the last Bond movie, but about 10 pr. movie in the 1960's ... but there are still bits (action scenes) in every film where you see average 4.2 persons killed pr. minute. And why shouldnt Mary Poppins appeal today, she can fly. Its an eagerly anticipated musical, opening in London this month.

Liðsforingi FK

Ég var að rekast á grein formanns Félags Kvikmyndagerðarmanna, á logs.is, og er það ekki fyrsta grein liðsforingjans um nauðsyn þess að RUV auki fjármagn til leikins efnis.

En árangur hans sem formaður FK er engin í þessum efnum. Ætli honum hafi dottið í hug, að íslenskt leikið efni fyrir sjónvarp er með þeim hætti að þeir fáu sem einhver áhrifa geta haft á að framlag RUV til leikins efnis aukist og hafa setið í gegnum eitt íslenskt sjónvarpsleikrit, myndu ekki frekar beita sér fyrir að framlag RUV minnki frekar en hitt? Hvernig áhrif ætli Sunnudagsleikhús RUV fyrir ca. 6 árum hafi haft á tiltrú manna? Ekki jákvæð held ég.

Það er sama hvert litið er, handrit, visuals, frumleiki eða ferskleiki, og ekki síst erindi til áhorfenda, allt er þetta hvorki rætt né skilgreint og concept og context þessa efnis sem hefur verið gert er afar þreytt. Hver man eftir leikritinu sem gerðist á ljósmyndastofu þar sem var verið að taka myndir af frambjóðendum, kannski hét það “Frambjóðandinn” eða eitthvað álíka. Það átti að vera einhverskonar gagnrýni á stjórnmálamenn eða stjórnmál, eða leitin að sannleikanum (?). Ég skal ekki segja, en ég hef það á tilfinningunni að efnið og efnistök hefði kannski átt meira erindi við sjónvarpsáhorfendur um 1970.

Tilhugsunin um þessa framleiðslu fram að þessu veldur því einna helst að maður missir áhugann á þessu formi, verður hálf bumult og langar til að setja gamlan góðan vestra í tækið bara til að ná sér aftur upp úr þeirri andlegu lægð sem maður lendur í að hugsa til þessa sem framleitt hefur verið af RUV. Ég hef aldrei haft mig í það fara í gegnum þetta ferli á ríkissjónvarpinu eða að sækja um það og get ekki lagt mat á það, en útkoman er nú svona.

Einn þáttur sem hefur verið framleiddur og kemur upp í hugann sem dæmi, og maður getur ekki séð fyrir sér hvernig ákvörðunarferlið varð til um að búa þetta til, en það er “10 Laxnessmyndir”. Ætli þeim þáttum hafi tekist að sannfæra einhvern um að meira fé ætti að fara í leikið íslenskt efni? Ég held ekki.

Ég held ekki. En það verður þó að segja liðsforingjanum til hróss að hann fór ekki að tönglast á þessu með “spegilinn”, eða að við verðum að geta speglað okkur í samfélaginu.