Einar Thor

Friday, October 27, 2006

Stofnun Listaráðs

Ef hugmyndir um fækkun ráðuneyta koma til framkvæmda er tilefni til að færa suma starfsemi ráðuneyta frá ráðuneytum. Þar sem lista og menningargeirinn virðist vera að fá meiri viðurkenningu sem atvinnugrein sem skapar bæði atvinnu og skilar arði og hefur líka félagslegt mikilvægi verður það að teljast freistandi og spennandi verkefni að færa alla starfsemi sem tengist þessum málaflokki úr menntamálaráðuneyti til Listaráðs, eða lista og menningarmiðstöðvar. Hvort sem um fækkun ráðuneyta verður að ræða eða ekki er stofnun Listaráðs sem opinberar stofnunar er tekur yfir slíka starfsemi skynsöm aðgerð útfrá sjónarmiðum hagræðingar, stjórnunar og fagmennsku. Vaxandi og almenn viðurkenning og hugsanlega virðing líka á að málaflokkurinn sé fullgild atvinnugrein ætti líka að skjóta stoðum undir að þverpólitísk samstaða náist um málið, en auk Samfylkingarinnar eiga hugmyndir um fækkun ráðuneyta hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokks, en “samviska flokksins”, það er Heimdallur hefur samssinnt þeim hugmyndum að hagræða í stjórnsýslunni. Um þetta ætti að nást samstaða innan bæði stjórnmálaflokkanna og ólíkra hópa menningargeirans. Þetta er einnig framkvæmdarlega einföld aðgerð hvað varðar lagabreytingar og stjórnsýslu því hér yrði einn málaflokkur færður til með svipaðri fyrirhöfn og að flytja Byggðarstofnun norður í land og að aðgreina Hagstofu frá Þjóðskrá.

Hlutverk
Við verðum að gefa okkur það pólitíska “facto” að almenningur hafi hagsmuni af tilveru og vexti þessa málaflokks. Hlutverk ríkissins er að tryggja stöðugleika með því að tryggja að allar greinar innan málaflokksins geti framleitt og skipulagt til langtíma, og jafnvægi með því að aðstaða allra framleiðenda sé sú sama eða svipuð og að almenningur hafi jafnan aðgang að menningu og listum óháða stétt eða búsetu. Fyrirmyndina má að hluta hugsanlega sækja til Goethe Institut eða sambærilegra stofnana í öðrum Evrópulöndum, en líklega verður íslensk stofnun að hugsa málið frá grunni vegna sérkenna landsins, bæði vegna sögu sinnar og smæðar tungunnar. Sambærilegar stofnanir urðu flestar til í Evrópu eftir miðja síðustu öld og þá undir áhrifum frá langvarandi stríðum og átökum sem höfðu jákvæð áhrif á þróun þessara mála. Jafnræði í reglum og ásetningur til að ná til minnihlutahópa og auðvelda aðgang að menningarafurðum urðu vinnureglur. Í flestum löndum varð svo lista og menningarstarf tengd félagsþjónustu, í mismiklum mæli þó en Svíþjóð er gott dæmi þar sem list er notuð sem hluti af félagsþjónstu sem lýtur að að hjálpa þeim sem standa höllu fæti eða innflytjendum til að aðlagast samfélaginu, vera virkir þátttakendur og láta rödd sína heyrast. Sömuleiðis hafa almennar reglur um opinbert fé reynt að tryggja að afburðarfólk í faginu geti starfað óháð markaðslögmálum eingöngu og að gæði séu tryggð. Í sjálfu sér er ekkert nýtt í þessum efnum, nema að þó grundvallar hugsunin sé sú sama breytast áherlsur með tíðarandanum og aðstæðum í samfélaginu.

Starfsumhverfi
Listaráð myndi taka yfir starfsemi allra sjóða ráðuneytana í málaflokknum og einnig fjárveitinga ríkissins til stofnana einsog Þjóðleikhússins. Listamannalaun, rithöfundalaun og aðrir styrkir líkt og styrkir til frjálsu leikhópanna, listahátíða á landsbyggðinni og einstakra sýninga, t.d. mynd- og danslistasýningar, allt heyrði undir starfsemi og deilda Listaráðs. Ráðið sem starfaði sem sjálfstæð opinber stofnun heyrði undir stjórnsýslulög, á föstum fjárlögum án aðkomu stjórnmálamanna, ráðinu yrði því stjórnað af fólki sem uppfyllti kröfur um menntun og reynslu á þessu sviði. Starfsfólk ráðsins myndu tryggja að reynsla styrkþega t.d. skili sér hugsanlega til þeirra sem á eftir koma, sé leiðbeinandi um fjármagn erlendis og aðstoði við tengslamyndum um allan heim. Þar yrði einnig til umræðuvettvangur um listir og menningur, um áherslur og stefnu og hvernig megi efla málflokkinn í listrænu og efnahagslegu tilliti, hvernig efla megi samskipti við erlenda aðila og standa að heildstæðri kynningu á íslenskri list og menningu. Þetta myndi töluvert auðvelda erlendum samtökum, stofnunum og einstaklingum aðgang að Íslandi á þessu sviði.
(Einnig birt í Morgunblaðinu, Nov. 2006)