WIFT, fagfélag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, hefur ályktað nýlega um stöðu kvenna í bransanum, tvisvar reyndar, en engin viðbrögð frá hagsmunafélögum, enn og aftur engin umræða, hvorki um það, Edduna né annað markvert. Einhvertíman skrifaði (held Anna Rögnvaldsdóttir) mikinn pistil um Edduna en engin voru viðbrögðin frá þeim sem standa í þessu.
Þrjár heimasíður (SIK, FK og logs), en engin umræða, ekkert spjall, reyndar mest slúður enn sem fyrr. Mér datt í hug um árið (seint á 20. öld) að setja ætti 20% skatt, hugsanlega skemmtanaskatt, á allt slúður og láta andvirðið renna inní bransann. Tvær flugur í einu höggi.
Skyldi kvikmyndagerð halda áfram að þróast þögul í eftirlíkingagerð þar sem gott er gott af því það er einsog gert er í útlöndum eða skyldi innlendur bransi einhvertímann fá einhverja rödd. Því glæsilegir sem umbúðirnar verða því meiri þynnist þrettándinn. Þetta “political correctness” minnar kynslóðar fer að jaðra við landráð. Gullfiskarbransi.
Hlustaði á upptöku á ruv.is, síðdegisútvarp, Kolbrún Bergþórsdóttir (heitir hún það ekki annars) lýsti því hvað Edduhátíðin hafði verið vandræðalega hallærisleg og stakk uppá því að hætt væri að lýsa beint frá þessu og aðeins sýndir valdir kaflar í sjónvarpinu framvegis. Það væri ekki vitlaust. Það er, líkt og var í gamla kvikmyndasjóðskerfinu, vinsældarkeppni allt árið um kring en kosið aðeins einu sinni á ári. En svo taldi hún Kastljós besta þáttinn en sagðist svo aldrei horfa á Stöð 2, hvernig gat hún þá á lagt mat á það? Hún hljómaði sannfærandi fram að þessum punkti. Ísland í dag er ólíkur þáttur síðast þegar ég sá, fjölbreyttari og lifandi. Samt mætti hún verða einn aðal kvikmyndagagnrýnandi Íslands, ef eitthvað á að skána, þyrfti bara að horfa á fleiri tíví steisjöns.
En stuðnings og styrkjakerfi fagsins í Evrópu þarf að endurskoða með tilliti til þessa “political correctness”, sem er auðvitað borin von. Eitt er það sem er táknrænt fyrir endunnýjunnarþörfina er að samframleiðsla þarf að vera þriggja landa til að geta gengið í sjóði Evrópu, sem í raun bindur hendur okkar að hluta, nær væri að leyfa tveggjalanda samframleiðslu fyrir myndir ódýrari en, segjum, 1 mil. Evra. Hitt er barns síns tíma.
Annars á maður ekki að vera að velta sér uppúr þessu nema að fá borgað fyrir það. Smá pirr. Vona bara að steinbítsvertíðin gang vel í vetur.