Einar Thor

Tuesday, September 27, 2005

Gamall verksmiðjugalli á hugmyndafræði

Það sem kemur í ljós í máli Baugs, lögreglunnar og privat tölvupósta, er fyrst og fremst pólitísk hugsunarvilla í stefnu sem kölluð var Nýfrjálshyggja. Frjálshyggjan var kenning um kapital, en síðar kom Nýfrjálshyggja þegar ungir hægri menn í Evrópu og víðar blésu nýju lífi í hugmyndir um frjáls viðskipti á áttunda áratugnum. Þá var hópur manna í Sjálfstæðisflokknum sem talaði fyrir frjálshyggjuna að fara inná þing og inní borgarstjórn, og er enn í forystu í íslenskum stjórnmálum. Og situr nú í súpunni. Veikleiki þessara hugmynda um frjálshyggju fólst m.a. í oftrú á hreinum viðskiptum, að þau væru yfirleitt nægjanlega heiðarleg og að ríkið geri ekki of mikið til að vernda borgara sína. Það er ekki óalgengt að hægrimenn og lögmenn þeirra í heiminum í dag líti á samfélagið sem hóp neytenda, en ekki hóp neytenda og borgara.

Hverjar svo sem staðreyndirnar eru í þessu kærumáli Baugs, eða klögumáli, þá koma góðir stjórnmálamenn sér ekki í svona afleita varnarstöðu. En undir þeim situr stjórnsýsla sem er ekki að virka og hefur ekki verið sinnt, henni tekst ekki að liðsinna manni sem kýs að kæra stórt fyrirtæki fyrr en nöfn útí bæ eru búinn að kippa í spotta, og hugsanlega var ritstjóri Morgunblaðsins aðeins að gera það sem stjórnsýslan á að gera, það sem lögmannsstétt á að gera. Nema að lögmannsstéttin sé svo aum að detta það ekki í hug að henni sé kannski ekki treystandi. Kannski eru ekki til margir íslenskir lögmenn sem geta hafið sig uppfyrir sérhagsmuni.

En fyrst og fremst er hér kominn fram verksmiðjugalli á hugmyndafræði hægrimanna, og í samfélagi peninga situr eftir vanþróað eftirlitskerfi, kerfi sem átti að redda sér sjálft samkvæmt kenningum þeirra. Nema að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sérstaklega viljað hafa það þannig svo hægt væri að vera með puttana í öllu sem hönd á festi.

Monday, September 26, 2005

Fréttir af Sjálfstæðisflokknum

Ekki gerði maður ráð fyrir að tómleiki myndi setjast í mann eftir að staðfesting á kukli sjálfstæðimanna hefur komið fram nýlega. Einsog einhver hafi farið að heiman, hafi farið úti í gærkvöldi, gert eitthvað af sér, lögreglan er fyrir utan og allt í opna skjöldu þótt maður hafi hálfpartinn búist við þessu.

Mikil vonbrigði, því maður batt ákveðnar vonir við að Sjálfstæðisflokknum myndi takast að færa samfélagið til nútímahorfs hvað varðar frjálsa samkeppni, því innan flokksins voru góðir stjórnmálamenn. En þeir eru, voru, í miklum minnihluta, hafi gefist upp eða spillst sjálfir, megi sín lítið gegn kukli forystu flokksins og yfirgangskúltúr. Það er meira en óhætt að draga þá ályktun að klíka sjálfstæðismanna hafi verið með puttana í öllu sem þeim hefur langað til að hafa puttana í. Og það ekki vegna pólitískra skoðana, heldur til þess að hafa sitt fólk á öllum mögulegum stöðum. Eða hvað er það sem veldur í raun óvild flokksins gagnvart einstökum fyrirtækjum og einstaklingum, og hvers vegna má almenn hæfni og hæfileikar ekki njóta sín í friði fyrir þessum flokk. Veit það einhver, heldur kannski einhver að hér sem aðeins um Baug að ræða? Og orð og afsakanir Geirs H. Harde um að þetta komi flokknum ekki við eru líka vonbrigði og synir að flokkurinn sem hefur stjórnað lengi vel ætlar ekki að taka ábyrg á neinu í samfélaginu, nema því sem vel gengur. Og Geir líklega besti pólitíkus flokksins.

Þá virðist það blasa við með stjórnunastíl forystu Sjálfstæðisflokksins að hann hefur líka mótað ákveðinn stjórnunarkúltúr innan stjórnkerfisins, í sveitarstjórnum, innan opinbera stofnana og ámeðal fótgönguliða síns eigin flokks. Þannig hafa undirsátur forystunnar talið sig geta komist upp með flest í skjóli valdins. Þannig hefur önnur hver opinber stofnun tekið upp þennan ósæmilega stjórnunarstíl fara eftir pólitískum duttlungum. Látum lögregluna vera, en hvernig skyldi stjórnun RUV hafa í raun verið sl. áratugi? Hvers vegna veitti Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins Hannesi Hólmsteini Gissurasyni milljóna króna styrk, ekki lán, til kvikmyndagerðar, og milljón króna styrk til Hrafns Gunnlaugssonar fyrir eitt stykki handrit að Opinberunarmynd sinn? Hvers vegna greiddi RUV Hrafni Gunnlaugssyni tíu milljónir fyrir leikið sjónvarpefni ámeðan þeir gera samning við aðra um að þeir skuli ekki fá krónu fyrir þáttaröð, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í sl. viku í máli Tetra Film. Ekki hafa hagsmunafélög kvikmyndagerðarmann bein í nefinu til að hafa skoðun á þessu. En það er ekki af litlu að taka, og kannski fæst það aldrei upplýst hveru mikið af skúffustyrkjum hafa gengið úr ráðuneytum Sjálfstæðisflokksins til fótgönguliða sinna ... "þetta kemur flokknum ekki við".

Nú dragast þingmenn Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum og kumpánar forystunnar óhjákvæmilega inní þessa hringiðu spillingartalsins þessa dagana. Og hvernig skildi fara fyrir stjórnmáladraumum aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar, Illuga Gunnarssyni, er nokkuð hægt að treysta þessum skuggasveini? Það er gaman að geta valið á milli flokka og vænst þess að sá sem maður velur sé hæfastur til að leiða hagsmunamál til lykta en ef ský spillingar hangir yfir, þá eru þeir ekki inní dæminu.

Sunday, September 25, 2005

Spillingin íslenska, kannski ekki fréttir

Eftir heimsóknir á íslenskar fréttasíður sl. daga virðast almennur grunur um háttsetta spillingu í íslenskri stjórnsýslu vera kominn uppá yfirborðið. Ég skoðaði líka Kastljósþátt á ruv.is frá Föstudeginum. Þar sat m.a. Hilmar Oddsson leikstjóri sem, eftir að hafa sagst hafa verið erlendis þegar héraðsdómur vísaðir frá ákæru á Baug, talaði kannski fyrir munn margar íslendinga þegar hann sagði eitthvað á þá leið að “ég hef ekki myndað mér skoðun á þessu”. Það kæmi mér ekki á óvart ef 99% Íslendinga hefðu myndað sér skoðun á þessu en aðeins brot af þeim viðurkenndu það. Kæmi það nokkrum á óvart.

Ekki svo sem að það hafi háð mér, búandi á Englandi, að fylgjast með þróun þessara mála á Íslandi, ekki svo sem að fréttir til og frá Íslandi berast bara með haustsskipum. En það eru engar nýjar fréttir að lista- og menntamannaklassinn á Íslandi, sem Hilmar Oddsson fulltrúaði í Kastljósþætti, og sem lítur á sig sem skapandi fólk, þorir ekki að hafa skoðun á nokkrum sköpuðum hlut sem skiptir máli. Einhverstaðar á leiðinni hafa þessir menn og konur dottið ofan í salatið og óttast ekkert meir en að vera ekki “inn”, að taka áhættu um að fá ekki vinnu hjá sjónvarpinu, fá ríkissstyrkina, allt það gillerí.

Þegar ég var tíður gestur á Íslandi, t.d. 2001 og 2002, þá sögðu mér margir frá misheppnuðum tilraunum sínum til að fá “kerfið” til að vernda rétt sinn, fá kerfið sem á að vernda borgarana fyrir lögbrjótum, til að gera það, eða til að fá upplýsingar um starfsemi opinbera stofnana og þrýsta á að þær standi sína pligt. Þrátt fyrir þokkaleg lög um upplýsingarskyldu þetta og upplýsingarskyldu hitt, þá virðist þetta ekki árennileg stjórnsýsla. Mér var sagt frá málum með þeim orðum að það þyrfti að gera heimildarmynd um þetta, og ég fékk gögn, afrit af opinberum skýrslum og úttekum, skrifaðar frásagnir og jafnvel ljósmyndir af einstaklingum og atburðum. Sem sagt, staðfestingar, bréf undirrituð að yfirmönnum í íslenskri stjórnsýslu, og sönnunargögn um vanrækslur og vanhæfni í opinberu starfi, yfirhylmingar og uppálognar sakir.

Ég ætla ekki að rekja hér raunasögur annara sem ég hef séð gögn um, t.d. sögu ungs manns sem fyrirfór sér á Litla Hrauni eftir ótrúlegt kæruleysi og úrræðaleysi embættismanna, eða sögu af kynferðislegri misnotkun á ungri stúlku, mál sem lögmenn í einu ráðuneyti nánast stungu undir teppið. En um flest mál sem eitthvað skipta máli í íslenskum samtíma er ekki hægt að gera heimildarmynd um á Íslandi af tveim ástæðum, annars vegar erfiðleika við að fá fjármangn, og hins vegar að höfundar slíkrar mynda geta stofnað starfsframa sínum og lífsafkomu í hættu. Um þetta eru til dæmi, mynd um Geirfinnsmálið, mynd Ómars Ragnarssonar um Kárahnjúka, margt fleira. Margar myndir hafa aldrei komist lengra en uppá teikniborðið.

Ég heyrði af vörum ungra manna í innsta hring Sjálfstæðisflokksins, að misserinn áður en ríkið seldi bankana fengu þeir nokkrir skrampi góð lán í viðskiptaævintýri sín, “Davíð bara hringdi”. Ámeðan voru sjoppueigendur útí bæ sem aldrei höfðu komið uppí Valhöll að streða við að borga af yfirdráttarheimildum á súpervöxtum og halda lífsstarfi sínu utan við rauðu strikið.

Það er mín reynsla af þeim sem telja sig geta athafnað sig í skjóli valds Sjálfstæðisflokksins að ganga fram af yfirgangi í trausti þess að valdaklíkan muni vernda þá. Kannski vita og þekkja þetta allir. Hæfileikalitlar undirsátur sem þurfa stundum að ganga að trausti og annara dauðu til að eiga sjéns. Þannig er Íslandi orðið eftir meira en áratuga stjórn þessa flokks.