Eftir mánuð hefst Norðulandaráðsþing í Kaupmannahöfn, þing sem eru einsog jólin, þau koma og fara, frá þeim er sagt í fréttum og þeim fylgir boðskapur. Hinsvegar veit almenningur aldrei hvort þetta eru orðin tóm. Hvað ætla norrænar stofnanir sér í heiminum í dag? Hvað er norræn menning, er samnorrænu fé veitt til að viðhalda staðnaðri ímynd um hana og halda uppi óseljanlegri elítu, hvernig er skilvirkni háttað, vill norrænn almenningur frekar að peningum þeirra sé eytt í að halda ráðstefnu um eyðnivanda í Afríku frekar en ráðstefnu um “sjálfbæra þróun í norrænu ljósi”? Hversu miklu af samnorrænu fé er varið til rannsókna á fjölmenningu?
Berlinske Tidende sagði fyrir skömmu frá niðurstöðu rannsókna danska sagnfræðingsins Uffe Ostergard á alþjóðasamstarfi. Í niðurstöðu Uffe kemur fram það sjónarmið að alþjóðasamstarfi þarf ekki endilega að vegna best ef samstarfið er mest á stjórnmálasviðinu, og að sérfræðingar og embættismenn ættu frekar að annast það. Reyndar gæti það aðeins skánað ef samstarfinu er stjórnað af því lægra settra fólki. Uffe vísar í norrænt samstarf og bendir t.d. á rannsóknir prófessorsins Peter Nedergaard við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn sem er einnig þeirrar skoðunar að samstarfið ætti að vera meira neðar í pýramídanum en þar sem stjórnmálamenn eru staðsettir. Uffe hefur sent frá sér rannsóknir og greinar sem bera nöfn einsog,
“Nordic Idendity between Norden and Europe”, og “The Geopolitics of Nordic Identity”, áhugavert og sögulegt efni um tilurð norræns samstarfs og leitina að sameiginlegri sjálfsmynd landanna. Peter Nedergaard hefur í sínum verkum m.a. sýnt framá að efnahagleg velsæld sé mest þar sem mótmælendatrú ríkir, en báðir þessi pennar hafa fjallað um þá fyrirmynd sem norrænt samstarf er og getur verið þegar þróa þarf Evrópubandalagið eða önnur alþjóðabandalög í framtíðinni. En þar er aðalatriðið sjálfsmyndin, það er hvert er “idendity” Norðulanda, hver sé hin heilstæða sjálfsmynd Evrópu. Þau sjónarmið sem þarna koma fram eru af svipuðum toga og fram koma í bók Simons Mundy
”Making it Home” frá 1997, sem er persónulegar vangaveltur um tilurð og fæðingu Evrópusambandsins. Simon, sem er m.a. ljóðskáld og ráðgjafi t.d. hjá UNESCO, segir að það hafi hugsanlega verið mistök að áhersla í samstarfi Evrópuþjóðanna hafi fyrstu árin og áratugina verið á hinu efnahagleg sviði en ekki á menningarlegu. Og þá er átt við samskipti alþýðu manna
Afsal grundvallar réttinda
Allt í fína með það, þessi sjónarmið rek ég ekki frekar, en þótt að ég sé ekki þaulkunnugur verkum þessara háskólamanna þá vil ég segja frá því að ekki hef ég rekist á neina umfjöllum um þá ótrúlegu staðreynd, að norrænar stofnanir þurfa ekki að starfa eftir stjórnsýslulögum á Norðurlöndum einsog allar aðrar opinbera stofnanir. Með öðrum orðum, norrænum stofnunum er ekki skylt að gera grein fyrir því sem þær gera og ráðamenn á Íslandi telja þær ekki þurfa að fara eftir þessum lögum. Þannig séu t.d. upplýsingalög og rannsóknarskylda stjórnsýslunnar merkingarlaus þegar horft er til norræns samstarfs. Að þeirra mati hafa fræðimenn, viðskiptamenn, menningarfrömuðir og almenningur allur á Norðurlöndum ekki rétt á að vita hvernig starf innan ramma norræns samstarfs er unnið. Það má vera að menn fái að vita það á góðum degi, en þeir hafa engan verndaðan rétt til þess.
Það sem við ættum að athuga er hversu lítið er fjallað opinberlega um norrænt samstarf á Íslandi, fyrir hvern það sé, hvert það stefni, og það sem oft er talað um varðandi Evrópubandalagið, hvort að Íslendingar afsali sér mikilvægum réttindum með samstarfi við aðrar norrænar þjóðir? Svarið við þessu er já. Norrænar stofnanir eru í dag ríki í ríkinu, landlaus grúppa á launum hjá fólkinu, grúppa sem lög ná ekki yfir og stjórnmálamenn hafa afsalað einum mikilvægasta rétti almennings, ekki endilega til annara norrænna þjóða, heldur til fámenna stétta, nefnda og stjórna á Norðulöndum. Ekkert sjálfstætt innra eftirlit er með þessu fólki. Þetta er staðreynd sem hver og einn getur sannreynt, og fyrir þá sem óttast mest “Brusselgrýlun”, þá hefur martröðin ræsts í norrænu samstarfi.
Spurningin er hvort það var nauðsynlegt til að ná samningum um þetta samstarf? Svarið er nei því aðhald er réttur skattgreiðenda hvort sem svo endanlegt ákvarðanavald liggur hjá alþjóða stofnun eða ekki. Önnur spurning er, hversu miklar stærðfræðilegar líkur eru á að innan norræns samstarfs þrífist pólitískur loddaraskapur, spilling og stöðnun þegar litið er til þeirra ásakana sem t.d. Evrópubandalagið, Sameinuðu Þjóðirnar og UNESCO hafa þurft að glíma við? Er hugsanlegt að við höfum aldrei heyrt um það vegna þess að norrænt samstarf lútir ekki almennri stjórnsýslu? Umræðan um þróun norræns samstarfs inní framtíðina fer fram á milli fámenns hóps stjórnmálamanna, sérfræðinga og embættismanna og það er ekki erfitt að draga þá ályktun að þessir hópar séu búnir að tala sig inní eigin norræna “samstarfs-heim”, úr tengslum við almenning, viðskipta- og menningarheim. Frá þeim koma yfirlýsingar á Norðurlandaráðsþingum sem engin setur spurningamerki við, engin veit hvort staðið er við, engin fylgist með árangri og skilvirkni.
Þriðja spurningin er, hvers vegna hafa stjórnvöld gengið svo frá hlutunum að samnorrænar stofnanir og stjórnir þurfa ekki að svara fyrir verkefni sín, vinnubrög sín eða eyðslu almennafés við almenning sjálfan? Hefur norrænt samstarf gott af þessu? Ég held ekki. Það er vel hugsanlegt að í norrænum friði og góðæri áratuganna eftir seinna stríð hafi værukærð færst yfir norrænt samfélag og til hafi orðið samstarf sem hefur flotið inní aðhaldslaust fyrirkomulag sem telur sig yfir lög hafið. Það er rangt að ætla að vera fyrirmynd fyrir alþjóðasamstarf fyrr en þeirra sem borga brúsann fái verndaðan rétt sem sæmir lýðræði, eða er eftirlit og aðhald ekki “basic” í lýðræðinu? Norðurlönd sem litið er til frá öllum heimshornum sem fyrirmyndarlýðræðisríki hafa hinsvegar komi sér upp formlegu samstarfi sín á milli sem virðir þessa þætti ekki.