Í um 300 metra radíus frá starfstað mínum get ég keypt mjólk hjá Pakistana eða Indverja, Egypta, Írana (með bestu döðlurnar), Kenía og Marokkófólki, Tyrkja (með besta brauðið), Grikkja (með besta fetarostinn) og jafnvel af Svíum. Svíarnir versla þó undir fölsku flaggi því þeir selja aðeins Miðjarahafsfæði og kalla búðina sína Mediterranean Food.
Ég held að kaffihúsið með bestu gulrótarkökunum sé rekið af fjölskyldu frá Líbanon, allavega virðist þar Lebanese News vera vinsælt blað. Tvær svipaðar stúlkur sem afgreiða hljóta að vera systur, afar myndarlegar og alltaf brosandi, ég hlýt að álykta að allar ungar konur í Líbanon séu fallegar og síbrosandi. Svo virðist internetkaffihúsið vera rekið af Nígeríumönnum og mér virðist líka flestir verslunareigenda vera múslímar, því allt er opið á aðfangadagskvöldi, nema Mediterranean Food. Ég minnist að hafa átt leið hjá internetkaffihúsinu á annan í jólum í hitteðfyrra, þá var búið að opna klukkan 10 og gat ekki betur séð nema að allir starfsmenn þar væru í símanum. Nígeríumenn allir tala mikið í síma á jólum.
Eversholt Street
Þessar búðir, flestar litlar, selja allt, sumar öll möguleg batterí og fölleit umslög, önnur frímerki, símakort, lottómiða, póstkort, bréfklemmur og límband, og svo mat. Nema sú íranska, þeir sérhæfa sig í ávöxtum og grænmeti, kökum og sælgæti frá austurlöndum og einhverskonar sesamfrækökum með súkkulaði, man aldrei hvað það heitir. Döðlurnar eru fluttar inn frá svæðum sem margir telja söguslóðir Abrahams, sem dró fjölskyldu sín fram og til baka um eyðilendur mið-austurlanda að ósk guðs. Það ætti að vera ágætt að markaðsetja þannig döðlur. En það gera Íranir ekki svo ég get ekki varist þeirri hugsun að Íranir séu slakir í markaðsetningu. Ekki að ég vilji hafa uppi dóma um það, en hvers vegna gera þeir ekki einsog í Bandaríkjunum sem eru búnir að setja upp safn þar sem síðasti Indíjánahöfðinginn var drepinn, við “Undið Hné”, og græða á tá og fingri. Kannski eru Íranir einsog Rússar, en alveg sæmileg túristatraffík er að suður-vegamótunum við Pétursborg þar sem herlið nasista var stöðvað í seinni heimsstyrjöld, og Rússar hafa varla haft rúblu útúr því. Ég get ekki annað en ályktað að hliðholl afstaða Rússa með Írönum hjá SÞ sé vegna þess að þeir eru báðir álíka slakir í markaðsetningu.
En Mediterranean Food selur heldur ekki smádót, hún heldur sig aðeins við fæði og alltaf með ferskt. Þar var ég reyndar staddur 7. júli í fyrra, þá eini viðskiptavinurinn í búðinni snemma morguns þegar við heyrðum sérkennilegt “dúnk” hljóð, einsog að stillasi eða veggur hafi hrunið. Hljóðið virkaði sérkennilega vegna þess að strax á eftir varð algjör þögn, það er að umferðin stoppaði og ekkert flaut heyrðist í kannski 10 sekúndur. Þetta var á Eversholt Street skammt frá Euston og handan gatnamótanna hafði efrihæð strætisvagns sprungið. Ungur maður sem tók lest frá Luton hafði svo tekið strætóinn á King´s Cross stöðinni og sprengt sig í loft upp skömmu síðar, á sama tíma og þrír vinir hans gerðu hið sama í neðanjarðarlest. Allir ungir menn sem taka lest frá Luton og eru íslamstrúar hljóti að sprengja sig í loft upp fyrr eða síðar.
Plender Street
Ég hef aðeins rekist á þá ensku á litla grænmetismarkaðnum á horninu á Plender Street og Camden High Street. Það eru oft konur í eldri kantinum og eru allar mömmur mínar ámeðan ég versla og segja “darling”. Ef ég set mandarínur í poka segja þær að þær séu alveg nýjar, “darling”, tek upp banana og þeir eru passlega þroskaðir, “darling”, og melónan er alveg fersk, “darling”. Þetta er huggulegur viðskiptamáti en enskar eldri konur eru líklega með móðurkomplexa gagnvart útlendingum með hreim. Svo hafði ég á orði við Pakistanana að kortin hjá þeim væru öll eins, og andmælti því að fólk, nema það gamla, væri hætt að senda kort í stað netpósta. Auk þess voru kortin öll “Til hamingju með giftinguna”, “Til hamningju með afmælið” og annað í þeim dúr. “Við erum með þannig kúnna, skiluru”, sagði sonurinn. Ég verð að álykta að Pakistanar hafi einhæfan smekk, alltaf að gifta sig og illa nettengdir. Þá var Rageh Omaar með þátt á BBC1 sjónvarpsstöðinni þar sem hann leitaði vísindalegra svara við kraftverkum krists, að ganga á vatni, að fæða 5000, að lækna holdsveika. Sjálfsagt eru allir múslímar sem vinna hjá BBC að reyna að sanna að kraftaverk krists séu ekki kraftaverk.
Nú þegar 1000 manns hafa látið lífið í Líbanon og hundruðir í Ísrael, er annar af tveim höfðupaurum á bakvið innrásina í Írak, það er forsætisráðherrann “okkar” Tony, “okkar” allra í götunni, undir pressu að hvetja til vopnahlés og að Ísraelar fari frá Líbanon. Tony fór í frí til Barbados í gær en er með síma svo hann getur hringt og tekið skilaboð. Í dag birtist mynd af konu hans í sólbaði á stefni á hvítri skútu. Ég hlýt að komast að þeirri niðurstöðu að hægt sé að hafa áhrif á heimsmálin frá hvítri skútu við Barbados. Líka minni pressa þar. Annars varð mér hugsað til leigusalans sem leigir mér aðstöðu mína, hann er líka í fríi einsog Tony, gyðingur, og hefur ekki hækkað leiguna í nærri þrjú ár og er alltaf hinn almennilegasti. Grunsamlegt, líklega kemur hann með bakreikning.
Mililítrar
Ég hef aldrei haft það á orði að Íslendingar eiga ekki í stríði af því að við erum ekki með her. Eða hvað, ég hlýt að draga þá ályktun. Engin hefur ráðist á okkur af því við erum herlaus.
Annars eru öll samskipti allra í götunni góð þótt ýmisslegt hafi gengið á, innrás í Írak, daglegar sprengingar í Bagdad, stöðug spenna í Basra, sjálfsmorðsprengingar í London og Madríd, og loftárásir á Beirút, innrás í S-Líbanon, flugskeyti á Haifa, breskir hermenn falla enn í Afganistan, ekki eru þessi mál rædd í sjoppunum hér. Bissniss as úsúal, gulrótarkaka, ávextir, grænmeti, döðlur, kort, sesamfrækökur og mjólk. 1000 manns. En það sem ég ætlaði að hafa á orði, mjólkin, við viðskiptavinirnir tókum eftir að mjólkin virtist ódýrari hjá Tyrkjunum en Egyptunum. Það var eldri kona sem hafði orð um þetta í Egyptasjoppunni í fyrrakvöld. Þegar betur var að gáð seldu Egyptarnir mjólkina í lítra brúsum en Tyrkirnir í 750 mililítra brúsum. Kom í sama stað niður, en gott að vita að allir Egyptar hugsa í lítrum og allir Tyrkir í mililítrum.