Einar Thor

Wednesday, December 01, 2004

Lítið pláss á netinu......

Það var víst ekki pláss fyrir þetta á logs.is fyrir nokkru síðan, og reyndar fleira efni, en þetta er birt hér með. Vitaskuld er takmarkað pláss á vefnum, ég skil. Meira efni sem ekki var pláss fyrir kemur síðar en sumt er orðið það gamalt að það er komið á diska í geymslu, lang langt langt í burtu (far far far away).


Samkeppnin
Einsog flestum er kunnugt um hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands tekið pólitíska afstöðu gegn mótvirðisreglunni. Samkeppnisstofnun hefur tekið kæru til greina vegna úthlutana úr Kvikmyndasjóð Íslands og verður það að teljast tíðindi enda í fyrsta sinn sem það gerist. Og það vill svo til að m.a. er um að ræða fyrstu úthlutanir nýrrar kvikmyndamiðstöðvar, sumarið 2003. Samkeppnisstofnun gaf Kvikmyndamiðstöð frest til 21. október nk., nú innan 10 daga, til að skila svari. Það gæti aldrei verið annað en plús fyrir umræðu um íslenska kvikmyndagerð. En erindið birtist hér fyrir neðan með von um að það megi verða umræðunni til góðs, að menn átti sig á hvað er verið að tala um, séu ekki að fara með vitleysu og áður en þeir skrifa skritna pistla. Ég hef líka verið spurður útí þetta mál og sjálfsagt að birta þetta, en rétt að fara fyrst nokkrum orðum um erindið.
Í tilfellum hafa örfá atriði, nöfn og stuttar setningar verið teknar út þar sem um viðskiptaleg eða lagaleg einkamál er að ræða og er ástæða til að taka það fram. Þá eru ákveðnar lagalegar forsendur sem þurfa að vera fyrir hendi svo málið sé meðtækilegt í þessi samhengi og það “spanni” þætti málsins, en þau fyrirtæki sem nefnd eru í kærunni og viðkomandi úthlutanir eru ekki tilteknar af handahófi. Með erindinu fylgdu m.a. gögn um mótvirðisfjármagn, en rétt er að benda á að það er óhugsandi í dag að fá 60% fjármagn erlendis frá sem byggt er eingöngu á skattaafslætti. Fyrirvari er um upphæð styrkveitinga til tilgreindra fyrirtækja en þær voru ekki allar staðfestar, svo að lágmarks upphæð er tilgreind í kærunni þó að endanlegur styrkur hafi verið hærri í sumum tilfellum. Þá er rétt að taka fram að kærunni var vitaskuld ekki beint gegn viðkomandi fyrirtækjum.
En áður en erindið var sent Samkeppnisstofnun fékk KMÍ tækifæri á löngu tímabili til að gera grein fyrir hvaða stefna væri sett varðandi mótvirðisreglu og umtalaða 8. gr. reglugerðarinnar. Svör eru engin til þessa dags.
Einar þór




Samkeppnisstofnun
Rauðarárstíg 10
105 Reykjavík

KÆRA

Passport Kvikmyndir (kt………) hér með kærir eftirtaldar úthlutanir Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á framleiðslustyrkjum til leikinna kvikmynda í fullri lengd á árinu 2003, og vilyrði fyrir framleiðslustyrkjum árið 2004.

F.I.L.M. kr. 22.000.000, (vegna Opinberun Hannesar)

Ísfilm. kr. 12.000.000 árið 2003 og kr. 18.000.000 vilyrði árið 2004, samtals 30.000.000. (vegna Í takt við tímann)

Saga Film. kr. 10.000.000 (vegna When Children Play)

Sögn ehf. kr. 10.000.000 árið 2003, (vegna Dís) kr. 50.000.000 vilyrði árið 2004, (vegna Saga, breytt í A Little Trip to Heaven), samtals 60.0000.000.

Zik Zak. kr. 10.000.000 vilyrði árið 2004. (vegna Untitled)

I. Málavextir

Þann 1. janúar 2003 tóku ný lög um Kvikmyndamiðstöð Íslands, KMÍ, (nr. 137) gildi og ný reglugerð um KMÍ nr. 229/2003 tók gildi 31. mars 2003.

Passport Kvikmyndir sóttu um framleiðslustyrk til leikinnar kvikmyndar í fullri lengd vorið 2003, og vísaði í 8. gr. reglugerðar, 3. mgr. Þar sem segir:

“Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar getur veitt framleiðslustyrk vegna leikinnar kvikmyndar í fullri lengd til sýningar í kvikmyndahúsi, án umsagnar kvikmyndaráðgjafa, þegar annað hvort leikstjóri eða framleiðandi hefur fullgert að minnsta kosti eina leikna kvikmynd í fullri lengd og fjármögnun er lokið að öllu öðru leyti en sem nemur framlagi Kvikmyndasjóðs. Skilyrði fyrir framleiðslustyrk er að fyrir liggi skriflegir samningar eða staðfestingar um að fjármögnun sé að fullu lokið frá öðrum en Kvikmyndasjóði. Framleiðslustyrkir sem veittir eru samkvæmt ákvæði þessu skulu ekki nema hærri fjárhæð en 40% af heildarframleiðslukostnaði, þó að hámarki 40 milljónir króna. Jafnframt er skilyrði að heildarframleiðslukostnaður hinnar leiknu kvikmyndar sé að lágmarki 50 milljónir króna. Framleiðslustyrkir skv. þessum tl. ganga alla jafna fyrir öðrum styrkveitingum Kvikmyndasjóðs.”

Verkefni Passport Kvikmynda var að öðru leiti fjármagnað (60%), nema því sem næmi framlagi Kvikmyndasjóðs Íslands. Fyrirtækið sótti einnig um í anda yfirlýsinga nefndar menntamálaráðuneytisins sem stóð að gerð reglugerðar, þar sem hvatt er til að tekin verði upp mótvirðisregla (40/60 regla), og í anda yfirlýsingar fagfélaga innan kvikmyndagerðar. Þar kom m.a. fram hjá einum nefndarmanna:

“60/40 Einnig þótti mönnum mikilvægt að koma á einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun. Þannig að þeir sem geta útvegað 60% fjármagns geti gengið það því sem nokkuð vísu að Kvikmyndasjóður myndi koma með þau 40% sem upp á vantaði. Hugmyndin á bakvið þetta var að láta markaðinn og gefa þannig áhorfendum aukið vægi í vali verkefna, á þann hátt að þær myndir sem væru í raun og veru að ná til áhorfenda kæmu til með að ganga fyrir. Enginn reynsla er kominn á þetta ennþá en vonandi á ákvæði þetta eftir að hleypa nýju lífi í Íslenska kvikmyndagerð.”

...telur Passport Kvikmyndir það virka afar letjandi á samkeppnisumhverfi að (fjármögnuð) verkefni .... skuli hafa verið vísað frá þegar það sýndi framá hæfustu umsóknina að þessu leiti. Skilaboð KMÍ til fagsins eru þau að þeim sé ekki umbunað sem ná árangri á hörðum markaði erlendra fjárfestinga í kvikmyndum, og að nýjir keppinautar séu ekki velkomnir. Passport Kvikmyndir, ... stóð straum af kostnaði vegna öflunnar þessa mótvirðisfjármagns....

KMÍ er ekki skylt skv. lögum eða reglugerð um KMÍ að veita mótvirðisfé takist fyrirtæki að afla framleiðslufjármagns erlendis frá, en kærandi telur m.a. stjórnsýslu KMÍ stangast á við lög um samkeppni. Þá gefa vilyrði til framleiðslustyrks fyrirtækjum mikið forskot erlendis þar sem sótt er um frekari fjármagn. Passport Kvikmyndum tókst að afla framleiðslu fjármagns á erlendum samkeppnismörkuðum án slíks vilyrðis, sem verður að skoðast sem svo að verkefni fyrirtækisins standist faglega skoðun.

Þá telur Passport Kvikmyndir að starfsemi KMÍ sé of “blönduð” og illa skilgreind, það er að annars vegar sé hlutverk KMÍ að efla kvikmyndamenningu svo dæmi sé tekið, eða einsog fram kemur í 3. gr. kvikmyndalaga, en hins vegar veitir KMÍ styrki til framleiðslu til fyrirtækja sem starfa á markaði og eru í samkeppni. Vísað er í 14. gr samkeppnislaga hér að neðan varðandi þessa athugasemd. Þess vegna sé hinu opinbera skylt að beita sér fyrir fjárhagslegum aðskilnaði og reglum þar um sé komið á framfæri við viðkomandi fyrirtæki. Kvikmyndalög eru einnig óljós og “bjóða heim” afar almennri túlkun.

Ofangreind verkefni og úthlutanir KMÍ sem kærð eru, eru bæði á íslensku, ensku og dönsku, en KMÍ hefur ekki gert grein fyrir stefnu sinni eða áherslum í þeim efnum. Ekki verður því séð að menningarleg rök séu á bakvið úthlutanir umræddra framleiðslustyrkja. Ekki eru nein rök, gefin né séð, á bakvið ákvarðanir KMÍ um úthlutanir þessara framleiðslustyrkja.

Það skal undirstrikað að KMÍ er eini “fjárfestirinn” í kvikmyndum á Íslandi svo nokkru nemi, og er því hið opinbera í “markaðsráðandi stöðu”.


II. Lagaumhverfi

Markmið samkeppnislaga nr. 8/1993 er að efla virka samkeppni í viðskiptum. Samkvæmt 1. gr. laganna skal markmiði þessu náð með því að:
a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
b. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.

Kærandi telur að stjórnsýsla KMÍ stangist á við markmið samkeppnislaga og að lög og reglugerð um KMÍ séu illa skilgreind.

Í 2. gr. kemur einnig fram:
"Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum."
Og í 4. gr. (orðskýringar) segir,
“Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi.
Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.
Markaður er sölusvæði vöru og staðgengdarvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgengdarþjónustu. Staðgengdarvara og staðgengdarþjónusta er vara eða þjónusta sem að fullu eða verulegu leyti getur komið í stað annarrar.”

Kærandi telur að ofangreind skilgreining eigi við um framleiðslufyrirtæki kvikmynda í fullri lengd, sem framleiða vöru sem seld er á markaði.

Þá segir m.a. í 5. gr. að hlutverk samkeppnisráðs sé:
c. að stuðla að auknu gagnsæi markaðarins,
d. að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði.

Kærandi telur að hlutverk samkeppnisráðs sé að meta hvort lög og reglugerð um KMÍ, og stjórnsýsla KMÍ, takmarki samkeppni á kvikmyndamarkaði, og/eða geti ollið framleiðslufyrirtækjum tjóni. Einnig hvort KMÍ beri ekki skylda til að skilgreina og upplýsa fyrirtæki um stefnu sína, vinnubrögð og stjórnsýslu.

14. gr. samkeppnislaga segir “Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.”

Kærandi telur að hið opinbera beri að skilja að úthlutunarkerfi KMÍ annars vegar, frá starfsemi KMÍ sem lýtur að eflingu menningar hins vegar. Sú starfsemi sem lýtur að menningarlegu hlutverki og skyldum kunni því að heyra undir sérlög, en úthlutun styrkja til framleiðslu þurfi að taka mið af samkeppnisumhverfi. Þá segir m.a. í 7. gr. kvikmyndalaga, að “Í reglugerð1) sem menntamálaráðherra setur … skal enn fremur kveðið á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar…”

Ekki er kveðið á um þessa meginskiptingu í reglugerð um KMÍ.


III. Niðurstaða

Kærandi telur að stjórnsýsla og reglugerð um KMÍ sé ekki í fullu samræmi við kvikmyndalög, stangist á við samkeppnislög, og að stjórnsýsla KMÍ hafi valdið Passport Kvikmyndum tjóni. Hinu opinbera beri að endurskoða bæði lög og reglugerð um KMÍ.


Virðingarfyllst



fh Passport Kvikmynda



Samkeppnisráð
Rauðarárstíg 6
105 Reykjavík


Viðauki


Við afgreiðslu kærunnar er einnig óskað eftir að eftirfarandi komi fram:

Álit Samkeppnistofnunar á hvort Kvikmyndamiðstöð Íslands sé heimilt að beita ákvæði 3. tl. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, varðandi allar styrkveitingar Kvikmyndasjóðs. Þar með talið skv. 3. tl 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 229/2003 um Kvikmyndasjóð Íslands.


0 Comments:

Post a Comment

<< Home