Einar Thor

Saturday, December 04, 2004

Sögur og sjónarmið - Íslensk kvikmyndagerð, I.

Stiklað á stóru
Eitt af hinum síðustu vígjum 20. aldar Íslands í heimi úreldra viðskiptahátta er kvikmyndagerð. Og það sem mætti halda að væri gamalt vígi 19. aldar Íslands á upplýsingaöld, er heldur ekki fallið, það er óttinn við málefnalega umræðu. En það er hægt að segja að eftir hrun íslenskrar kvikmyndagerðar árið 2002 þar sem botninum var náð í opinberri stjórnun fagsins, þá sé leiðin uppávið hjá nýrri Kvikmyndamiðstöð Íslands lárétt. Leiðin frá áhugamannabransa í kvikmyndaiðnað, frá ríkissrekinni forræðishyggju í samkeppni, frá einhæfni til fjölbreytni er þyrnum stráð. Það eru blikur á lofti um að nauðsynlegar breytingar eigi sér stað, og að mönnum bresti kjarkurinn til að afmarka raunveruleg viðfangsefni og skilgreina ástandið. Í forystugrein Morgunblaðsins í júlí 2002 þegar sem mest gékk á það árið, segir að ný Kvikmyndamiðstöð þurfi að vera "...í stakk búin til að leiða málefnalega og upplýsta umræðu á þessu sviði. Að öðrum kosti er hætta á að framtíð þessarar ungu listgreinar ráðist af tilviljunum eða hagsmunum einstakra aðila fremur en skýrum markmiðum."
Eftir fyrstu skref KMÍ bendir allt til að það seinna verði ofaná og framhald verði á "gamla kerfinu", þótt hvers konar stjórnun hafi verið þar við líði sl. ár sé að sumu leiti enn á huldu. Skoðanir forstöðumanns eru líka á huldu, hvað þá stefna, en "ekki er von á ítarlegri reglum en finna má í reglugerð um Kvikmyndasjóð", segir í bréfi KMÍ nú í haust. En orð fagfólks sjálfs sl. misseri, og sumra þeirra sem hafa kosið að sækjast eftir stjórnun í þessu fagi, segja hinsvegar sögu fulla af óvæntum atburðum.

SÍK og söguskoðunin
Í upphafi skýrslu stjórnar Samtaka Íslenskra Kvikmyndaframleiðenda (SÍK) sl. vor, 2003, segir m.a. um árið 2002.: "Síðasta ár hefur verið kvikmyndaframleiðendum erfitt. Árið hófst með klaufalegri úthlutun úr Kvikmyndasjóði þar sem úthlutað var alltof mörgum og lágum vilyrðum" ... og svo ..."Að úthlutunarnefnd hafi látið sér detta í hug að mögulegt væri að fjármagna ellefu illa styrktar íslenskar bíómyndir á sama árinu er óskiljanlegt."
Hér er átt við þekkingarleysi innan kvikmyndasjóðsins gamla á erlendum aðstæðum, en ekki er minnst á að hugsanlega hafi þau verkefni sem voru valin einfaldlega ekki nógu góð. En þetta var líklega hápunkturinn áður en endirinn hófst. Og þetta er ekki óskiljanlegt. Íslensk kvikmyndagerð hefur frá upphafi verið stjórnað af áhugafólki sem hefur talið sig vera hafið yfir gagnrýni, eða ekki staðist þær kröfur að taka henni, hversu velvilja sem hún er. Þekking fagfólks komst ekki inn til þessa fólks sem hafði hvorki reynslu, þekkingu né sveigjanlegt viðhorf til fagsins.
Formaður SÍK bendir einnig á athyglisvert atriði í "Land og Synir" sl. vor, og skrifar einnig sem nefndarmaður í nefnd um nýja reglugerð, að, "úthlutunarnefndir hafa hins vegar ekki álitið sig bundnar af samþykktum stjórnar", og er þar átt við fyrrverandi stjórn Kvikmyndasjóðs. Gömlu úthlutunarnefndirnar töldu kannski að þar væri allt pólitískt samsæri. Engu að síður voru úrræði stjórnar kvikmyndasjóðsins til að stoppa þetta ekki fyrir hendi.
Mörg fleiri orð hafa verið látin falla um framistöðu þessara ágætu stjórnenda, og sá dómur er sjálfsagt sögulega skilorðsbundin. Á sl. ári, 2002 og langt framá þetta ár, var mikil deifð og atvinnuleysi á meðal starfsfólks fagsins, aðeins ódýr og jafnvel heimaunnin digital verkefni héldu uppi lágmarks magni framleiðslunnar, í sjóðnum sátu hundruðir milljóna "fastar", en stjórn SÍK bendir réttilega á í sömu skýrslu að það sé, "...miklu alvarlegra mál og veldur kvikmyndaframleiðendum meira tjóni en einhverjir risnureikningar sem eru bara smáaurar í sambandi við þetta", og er átt við svokallað "Þorfinnsmál". Og enn í dag, þrátt fyrir ný lög og nýtt hitt og þetta, liggja vel á annað hundrað milljónir í sjóðnum óhreyfðar með tugi kvikmyndagerðarmanna á Íslandi atvinnulausa eða atvinnulitla.
Það samkomulag sem gert var við ríkið 1998 um að koma allt að 5 kvikmyndum í framleiðslu á ári hefur ekki gengið eftir, og flestir þekkja að flestar Edduhátíðir hafa boðið uppá afar litla samkeppni á milli kvikmynda. Þeir sem hafa sóst eftir og valist til forystu á þessum málið hafa hreinlega ekki staðið sig. Það þarf ekki theoríur til að sýna fram á það.
Í umræddri skýrslu SÍK segir einnig .... "eftirmálar þessar úthlutunar þekkja svo allir, hugmyndir framkvæmdastjórans um að hann væri ofsóttur fyrir jafn smávægilega hluti og það að hafa ekki haft bókhald sjóðins í lagi árum saman, er hlutur sem við öll höfum fylgst með í fjölmiðlum. Vonandi er, að nú með nýjum lögum og nýjum forstöðumanni verði hægt að komast út úr þessu rugli, horfa til framtíðar, fá hjólin til að snúast og taka upp faglegri vinnubrögð. "
Það hefur ekki tekist. Ný KMÍ hefur t.d. á fyrstu mánuðum sínum tekist að brjóta ákvæði reglugerðar um kvikmyndaráðgjafa (þetta liggur fyrir). En það má orða það sem svo að kúltúr forræðishyggjunnar, sem er móðir hins gamla kjarna í íslenskri kvikmyndagerð, sé svo rótgróin og sjálfsagður í hugum manna, að hin nýju lög sem sett voru til að reyna að koma böndum á óstjórnina og á "þessu rugli", láta undan.
Að einhver hafi hafi litið svo á að sjóðurinn hafi verið faglegur sl. áratugi, að þar hafi verið samkeppni og um sé að ræða gæðamatsstofnun, þá verður að leyfast að kalla það pólitískan "naívisma". En staðreyndirnar segja okkur ekki aðeins að opinber stjórnun íslenskrar kvikmyndagerðar sé einn mest skandall íslenskrar stjórnsýslu okkar tíma, heldur hafa líka rótgróin kvikmyndafyrirtæki með innlendu sérhagsmunapoti sínu klúðrað tækifærum erlendis sl. ár til að margfalda veltuna á íslenskri grund. Það er ekki síst athyglisvert.

Kjarni hins praktíska máls
Til að setja dæmið upp á sem einfaldasta hátt má segja, að erlent fjármagn kemur ekki til landsins nema eitthvað komi á móti. Þetta er nokkurs konar þumalputtaregla. Innlend fyrirtæki sem fá vilyrði frá Kvikmyndasjóð Íslands en geta ekki sótt fé erlendis, frysta fjármagnið "automatiskt" á meðan og það rennur ekki inní fagið. Innlend fyrirtæki sem fá ekki vilyrði frá kvikmyndasjóð Íslands, en geta fengið fé erlendis, fara burt eða hætta. Og þegar innlend fyrirtæki fá hærri vilyrði og til langs tíma, en geta ekki fengið fjármagn á móti, lenda þau í vanda og skuldir safnast upp. Þá hefst hinn fagpólitíski þrýstingur, þar sem tími, orka og aurar fara í pólitískt sérhagsmunapot um almannafé til að forða gjaldþroti, í stað þess að auk samkeppnishæfni fyrirtækisins erlendis, bæta rekstur þess og skoða hugmyndir um nýsköpun. Hið opinbera, eða starfsmenn þess, hafa tekið þátt í þessu og dregið verulega úr eðlilegum þroska fagsins. Þetta er ástæðan fyrir því að kvikmyndavorið er endalaust og ekki kemur sumar. Að einhverjir "búi til" kvikmyndasumar hefur lítið með list og menningu að gera. Að gæði hafi verið höfð að leiðarljósi hefur ekki verið aðalatriðið.
Í skýrslu stjórnar SÍK segir líka, "...hverjar 100 milljónir sem liggja í Kvikmyndasjóði ári lengur en þær þurfa kosta kvikmyndaframleiðendur að minnsta kosti 15 milljónir ... og síðar ... Það hjálpar líka ekki baráttunni fyrir auknu fjármagni í Kvikmyndasjóð að við skulum ekki koma út hraðar því fjármagni sem í sjóðnum er."
Mikið rétt, en þegar á reynir eru sumir aurar ekki eins góðir og aðrir, og þar hefjast spunaæfingar SÍK og stefnuleysi KMÍ, sem ég kem að síðar. En hinn hluti kjarnans er að sjálfsögðu gerð mynda, skapandi vinna og þróun, þar er tímanum sjálfsagt best varið.

Aðdragandi
Ef við förum hratt yfir sögu til að skilja samhengi hlutanna betur, stiklum á stóru sem fyrr og drögum fram þrjú "symbólísk" atriði, og bendum á hvers vegna það er brýnt að gera frekari og róttækari breytingar sem fyrst, þá skulum við fara rúm 10 ár til baka. (Mitt framlaga til t.d. hugmyndabankans um stjórnun má m.a. finna á heimasíðu SÍK, og rek ég þær ekki hér).
Í fyrsta lagi, þingmenn guggnuðu á að samþykkja tillögu sem lá fyrir alþingi í ráðherratíð Svavars Gestssonar í menntamálaráðuneytinu, jafnvel töluvert breytta. Þessi tillaga hafði margar hugmyndir að geyma sem í dag myndu kallast eðlilegar og sjálfsagðar, og er t.d. vísað í danska fyrirkomulagið einsog gert var í undanfara þeirra laga sem samþykkt voru nú 2003. Þetta þótti hin mesta vitleysa þegar til kastanna kom fyrir rúmum áratug. En þá var einmitt tími til að breyta gömlum og úreltum lögum, og í kjölfarið kom magur áratugur. Pólitísk mistök.
Í öðru lagi, deilur um svokallaðan Menningarsjóð Útvarpsstöðva, þar sem t.d. var veitt fé til verkefna sem aldrei urðu til, var til þess að hann var lagður niður um miðjan sl áratug. Engin niðurstaða fékkst um hvað hefði farið úrskeiðis. Engin lærdómur var dregin af því. Ekki treysti ég mér til að rekja það í smáatriðum hvað var að, en fyrir þá fagmenn sem voru t.d. erlendis, þ.á.m. undirritaðan, þá virtust skoðanaskipti um starfshætti sjóðsins annars vegar ganga útá rökstutta gagnrýni örfárra fagmanna, og hins vegar svör stjórnenda sjóðsins um að gagnrýni væri sprottin af öfund. Þessi lágkúra í umræðunni benti til þess að sjóðurinn hafi verið einn af þessum "sukksjóðum" ráðamanna hvers tíma.
Í þriðja lagi, óstjórn Kvikmyndasjóðs Íslands síðustu sex til átta ár, sem endaði með hruninu 2002. Engin lærdómur var dregin af klúðrinu af Menningarsjóð, engin lærdómur dregin af tilraunum og umræðu erlendis og augljósri þróun í nágrannalöndum, engar ályktanir dregnar af landflótta fagfólks, og lítil skoðanaskipti fagfólks sem óttaðist að missa af styrkjum ef það tjáði sig, gaf lítið aðhald. Því fór sem fór.
Lykil ástæðan fyrir endurteknri óstjórn og erfiðri umbreytingu áhugamannabransa í kvikmyndaiðnað, er ríkisseinokun. En lykil ástæðan fyrir áframhaldandi ríkisseinokun í þeirri mynd sem við þekkjum er varla stefna stjórnvalda, sem hafa í raun treyst fagfélögum til góðra verka, heldur tregða einstakra embættismanna og getuleysi rótgróinna kvikmyndafyrirtækja sem hafa ekki getað aðlagað sig að grundvallar prinsippum samkeppninnar, og sem er óhjákvæmileg þróun.
Margir, á öllum aldri úr öllum áttum, voru auk þess lengi óttaslegnir við að nefna það á nafn á sl. áratug að gera kvikmyndir á öðru tungumáli en íslensku, t.d. ensku, hvað þá nefna "iðnvæðingu", og sumir jafnvel héldu því fram að það væri hreint og beint að vera á móti Íslandi og íslensku að gera það. Þetta kemur t.d. fram í ýmsum yfirlýsingum frá stjórn Bandalags Íslenskra Listmanna o.fl., þeirri fyrstu frá júní 1996 sem mig rekur minni í. Þetta var ekki ósvipað og að vera á móti símanum, eða sjálfrennireið.
Ekki síður er það merkilegt staðreynd, að á helmingstímabili sl. áratugar, það er ca. frá 1993 til 1998, kemur engin nýr íslenskur leikstjóri fram að telja. Flestir sem ætluðu sér að gera kvikmynd á þessum tíma sáu framá það að moka fyrst flórinn, vera settir í flokk eða einhverskonar dilka, dregnir inní óskiljanlegar deilur og óskemmtilegt þras, fyrirtækin sem fyrir voru kunnu vart að reka sjálfan sig og viðskiptavild fagsins útávið einhverstaðar á milli núl og núl.
Engin þeirra sem ég þekki frá þessu tímabili og ætluðu sér að gera kvikmyndir gerðu þær, margir eru farnir úr faginu og úr flestum allur vindur. Þegar aukið fjármagn hins opinbera til fagsins fór svo að aukast smátt og smátt frá 1998, fór þessi hópur hins vegar smátt og smátt að hverfa, og er flestum týndur og tröllum gefinn. Í raun hefur ein kynslóð meira og minna þurft að súpa seyðið af dæmalausri óstjórn gamallra sjóðasukkara.
Í næstu grein; Endurskoðun reglugerðar, "Land og Synir", hagsmunir og hugarfar.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home