Einar Thor

Saturday, December 04, 2004

Sögur og sjónarmið - Íslensk kvikmyndagerð, II.

Endurskoðun nýrrar reglugerðar
Hvers vegna ný reglugerð þarf að fara aftur uppá teikniborð, þá er nóg að benda á reynsluna. Reynslan ein og sér leggur til að þessir hlutir þurfa að vera nákvæmari, það er reynslan að stefna kvikmyndasjóðs hefur aldrei verið á hreinu í sögu sjóðsins - nema eftirá, í örfáum tilfellum. Kannski þykir stjórnvöldum heldur ekki rétt að vera binda hendur kvikmyndagerðarmanna um of, en það er rangt mat, það sýnir sagan.
Það var vanhugsun í "uppbyggingu" kvikmyndaiðnaðarins sl. vetur að fá ekki sérfræðiráðgjöf um stefnumörkun um kvikmyndagerð. Einsog að fara ekki til tannlæknis, heldur útí skúr og ná í töng og hamar. En þessi þjónusta er föl, hún kemur einhverskonar hugmyndafræði í agað form, en reglugerðin er við þessar kringumstæður í raun spurning um hugmyndafræði og útfærslu hennar. Það var hluti þróunaraðstoðar Breta þegar BBC sendi lið til ýmissa Asíulanda til skrafs og ráðgerða um reksturs sjónvarps, Singapore fékk nýlega hóp sérfræðinga sem störfuðu fyrir Evrópubandalagið til að koma með tillögur um viðskipti sinnar menningarmála, og Birmingham á Englandi hefur breytt um ímynd á sl. áratug vegna kerfisbundinnar uppbyggingar og stefnumarkandi vinnu. Borgin er ekki lengur í hugum fólks borg sem framleiðir títiprjóna, hún er borg einnar fremstu symfóníuhljómsveitar Evrópu. Sérfræðiráðgjöf er meira en lítið sjálfsögð.
Nóg um það. Löndin í kringum okkur eiga flest um 100 ára sögu í faginu og eru að veita ráðgjöf hægri vinstri í "Þriðja Heiminum", og að aðlaga stefnur íslenskum aðstæðum ætti að vera létt verk og löðurmannlegt. Í haust mátti t.d. sjá í fréttum álit erlendra ráðgjafa um rekstur Íslensku Óperunnar, og góðar tungur segja að úttekt hafi jafnvel verið gerð á RUV, en illar tungur að skýrslunni hafi verið stungið undir rauða teppið. Sel það ekki dýrara.
Engin önnur skýring er sjáanleg en að það hafi verið fagpólitísk ákvörðun að fá ekki sérfræðiráðgjöf, því niðurstaðan hefði getað verið sérhagsmunum of mikið í óhag. Sérstaklega eftir það sem undan var gengið þá verður það að teljast dómgreindarbrestur að leita ekki sérfræðiráðgjafa. Það bendir líka til að þau viðhorf séu ráðandi að taka þekkingu og kunnáttu sem sjálfsögðum gratís hlut.
Nýja reglugerðin var því ekki gerð með hæfilega fjarlægða sýn á líðandi stund og ber þess vitni að hún er svar við uppsöfnuðum samtíma- og fortíðarvanda og taugatitringi sem var ofarlega í hugum fólks á þessum tíma ("Þorfinnsmálið"). En hvað ætti endurskoðun reglugerðar að ganga útá. Til að nefna fáein atriði getum við nefnt aukna aðkomu banka og peningastofnanna að faginu, meira en nokkur orð um skiptiregluna, eða hlutverk kvikmyndaráðgjafa, og skilgreindar áfrýjunarreglur, ekki sem eftirlitskerfi heldur fyrst og fremst sem samskiptaform. Með áfrýjunarreglum verður til gagnabanki upplýsinga sem miðla reynslu. Auk þess, í útópískum heimi, ef ríkið hefur hugsað sér að gera hið óhjákvæmilega og endurskoða reglur um allar opinberar styrkveitingar til lista- og menningarmála, og helst setja á stofn Listaráð, þá má aðgreina listræna kvikmyndagerð frá annarri kvikmyndagerð. Hugsanlega væri ný reglugerðarvinna best sett í gang með það fyrir augum að laða að hæfileika fólk inní fagið sem fer annað, t.d. í tölvugeirann, túrismann, svo ekki sé minnst á fjölmiðla. Hversu margir ætli hafi sveigt frá faginu vegna þessa vesens sem hefur verið á stjórnun kvikmyndsjóðs í gegnum áratugina? Og fátt gæti laðað að eins mikið af nýju fólki og fé en skiptiregla sem er skýr og afdráttarlaus. Við skulum nefna fleiri atriði en áhrif markaðar skiptireglunnar: hvatningu til framleiðenda og umbun fyrir árangur, stöðug atvinnu fagfólks, fjölbreyttari framleiðsla, færri embættismannafærslur, lýðræðisleg ákvörðunartöku um framleiðslu og minni miðstýring, samstarf við nýja fjárfesta og draga lærdóm af samstarfi við þá. Auk þess, við erum enn sem komið er aðeins að tala um blöndu, blandað kerfi, sjálfvirkni í bland við "gamla" huglæga menningarlega matið, svona einsog malt og appelsín.
Skýrasta dæmið um hnökra í framkvæmd þessarar nýju reglugerðar er hvernig skiptireglan hefur verið "send í loftið", en hugmyndin að baki hennar nú virðist aðeins vera til að gefa forstöðumanni leyfi til að taka ákvörðun um styrkveitingar ef ekkert annað er í gangi. Á sl. ári, þegar deyfðin var sem mest, var úthlutunarnefndin kölluð saman til að endurúthluta, en þá hefði þessi regla komið sér þokkalega. Var reglugerðarfólk að búa sig undir aðra eins deyfð og þá var? Skiptireglan, eða mótvirðisreglan (ef þú kemur með X þá komum við með Y á móti), hvort sem hún er 40 á móti 60, 30/70, 50/50, er ein mest umtalaða regla í kvikmyndagerð Evrópu, og hefur verið það til langs tíma. Í henni er að finna aðalatriði stjórnun kvikmyndagerðar, í raun öll grundvallar atriði umræðunnar. En íslensk umræða um hana virðist vera í einhverjum tabú fasa þessa stundina. Ekki er eitt orð um hana á nýrri heimasíðu KMÍ, en hins vegar undir liðnum "róttækar breytingar", má finna þessa setningu "Í stað þess að sérstök nefnd fjalli um og tilkynni niðurstöðu styrkveitinga einu sinni á ári verður hægt að leita hvenær sem er til Kvikmyndamiðstöðvarinnar...".
Þetta hefði ekki þótt róttækt fyrir 10 árum. Virk skiptiregla er það hins vegar, bæði í gerð leikinna mynda og heimildarmynda, hún getur breytt íslenskri kvikmyndgerð til betri vegar á róttækan og varanlegan hátt.

Umræðan
Kannski segir það allt að umræða um umræðuna skuli vera umræða. Hún er kannski lítil því fyrst og fremst þarf hún að vera hugmyndafræðileg, einsog stendur, en það á sér fordæmi í einhverri mynd á nánast öllum öðrum sviðum þjóðlífsins. Umræðan á Íslandi um vændi er til að mynda ágæt fyrirmynd - grínlaust. Þar eru uppi margar efnahagslegar, siðferðislegar og félagslegar hugmyndir um réttindi og skyldur einstaklings, samfélags og ríkis. Umræðan um íslenskar bókmenntir er líka komin á mun skemmtilegra ról en um bíó. Við getum líka bent á að í umræðunni um flutning húsnæðislána í bankakerfið erum við að tala um svipuð "prinsipp" og í aðkomu ríkisins að viðskiptum kvikmynda, og þótt íslenskir bankar geti verið dýrir, geta margir sem hafa starfað erlendis staðfest að þjónusta íslenskra banka er mjög góð. Hugsanlega er það óráðstal að vonast eftir að kvikmyndagerð fái notið umræðu á þessu stigi.
Nóg um það. Sú óstjórn sem stjórn SÍK, (sem kölluð hefur verið 360 gráðu stjórnin), rekur í skýrslu sinni vorið 2003 var flestum fagmönnum í faginu ljós í fjölda mörg ár, og reyndar var sitt lítið af hverju skrifað um það, svona á stangli. Hrunið árið 2002 átti sér aðdraganda sem stjórn SÍK forðast að minnast á því fleiri en einn stjórnarmeðlimur bera ábyrgð á hvernig komið var, og er. Ástæðurnar fyrir því hvers vegna ekki var brugðist við fyrr má segja að séu tvær, annars vegar skortur á faglegri umræðu og skoðanaskiptum þar sem reynsla fagmanna skilaði sér ekki inní kerfið. Hins vegar rekstrarkúltúr eldri kvikmyndafyrirtækja, sem gengur út á að fá aukið almannafé í stað hagræðingar, og sem ég nefndi fyrri grein.
Eitt augljósasta sjúkdómseinkenni umræðunnar var þegar tveir nafnlausir tölvupóstar voru sendir til fjölmiðla, fagfólks og KMÍ, sl. vor 2003. Fyrri pósturinn var útskýring á ófaglegum vinnubrögðum, kaup RUV á einni tiltekinni mynd og átti málið eftir að koma til kasta fjölmiðla. En óttinn við að tjá sig virtist svo kúltúrísk og eðlileg að mönnum þótti eðlilegt að þessi leið hafi verið valin, dulnefnisleiðin, sem framlengir aðeins ástandinu sem ríkir. Þótt megi leiða að því sannfærandi rök, jafnvel vísindaleg, hvaðan þessi nafnlausi póstur kom, þá verður að segjast einsog er að þetta er óskemmtilegt að sjá, þetta gerir ekki aðeins lítið úr þeim sem opinberlega tjá sig ("skítt með það"), heldur er hér er á ferðinni skýr útgáfa af hinu sovéska ástandi og tilhugsunin um þetta ástand er í raun skelfileg því að heilt fag virðist samduna hugarfari gúlagsins.
Fyrir aðeins 15 árum var ungt fólk í St. Pétursborg (Leningrad), ennþá að læsa að sér til setja smyglaða spólu með "Rock 'n Roll" í tækið. Þetta unga fólk hefur seinna lýst því hvernig hinn tvöfaldi hugsunarháttur, að t.d. þykjast ekki hlusta á "Rock 'n Roll", en gera það samt, var orðin svo eðlilegur og "naturalistic", að það tók margt ungt fólk áratug að vinda ofan sér og fara að hugsa einsog frjálsir menn. Hvaða munur er á íslenskum kvikmyndagerarmönnum í dag eða í gær og á sovéskri æsku?

"Land og Synir"
Blaðið "Land og Synir", sem gefur sig út fyrir að vera málgagn, ætti að fjalla um öll þau brýnu og mjög svo spennandi hagsmunamál sem hafa verið á döfinni. En gerir það ekki. Eitt tilfelli þó þar sem "Land og Synir" var næstum því í takt við tímann var þegar það innti hóp kvikmyndagerðarmanna um skoðanir (hugsanlega nokkrum árum of seint) á stjórnun kvikmyndagerðar, og á því sem gerðist árið 2002, enda sögulegt ár. Þar féll sá áfellisdómur yfir stjórnun kvikmyndasjóðs sem ég kalla sögulega skilorðsbundin. Á því ári, og oft áður, var til að mynda brýnt tilefni blaðsins til að vekja athygli á vanda fagsins, svo sem mikilli skuldasöfnun rótgróinna fyrirtækja og sem standa faginu fyrir verulegum þrifum. Þetta er mikill þröskuldur í átt til iðnvæðingar og eru erfiðleikar gamals tíma sem sá nýi þarf að leysa. Blaðið minnist heldur ekki á stéttleysi kvikmyndagerðarmannsins, að starfið hafi ekki "löggilt" starfsheiti, og atvinnuleysi á meðan hundruð milljóna króna sátu fastar í Kvikmyndasjóð. Ímyndum okkur málgagn karftöflubænda sem talar bara um rófur.
Hugsanlega er hægt að finna skýringu á þessari útgáfu á heimasíðu ritstjórans, asgrimur.is, þar sem hann hvetur til gagnrýninnar umræðu. Einhverjar tilraunir til hennar gerði ritstjórinn sjálfur, en hætti því hljóðlega eftir sumarið fræga 2002, þar sem hann t.d. gerði "ýmsum í bransanum" upp spekulasjónir um óeðlileg pólitísk afskipti af Kvikmyndasjóð, eða þetta sem SÍK kallaði síðar "rugl". Um sl. áramót skrifar ritstjórinn svo í "Land og Synir": "Þá var uppákoman varðandi brottvikningu Þorfinns Ómarssonar í sumar öll hin furðulegasta svo ekki sé meira sagt."
Hvað var svona furðulegt, með t.d. góðan meirihluta kvikmyndagerðarfólks atvinnulausa og hundruð milljóna "fasta" í sjóðnum? Hvar var ritstjórinn á þessum tíma. Neptúnus? Mallorca? Veit ekki. Það sem er ekki síst mikilvægt að benda á er að eitt er að búa til pólitískt fórnarlamb úr engu einsog fyrrum framkvæmdarstjóri kaus að gera, með hjálp ritstjórans, og reyndar margra fleiri, og annað er að skoða pólitíska ábyrgð ráðuneyta. Ábyrgð ráðuneyta liggur ekki í að stjórna undirstofnunum, heldur m.a. að setja skilvirkar reglugerðir.
Það snúnara er þegar "Land og Synir" bað mig ásamt mörgum fleirum úr faginu að svara spurningum blaðsins sl. vor um árið 2002, og ég gat um hér að ofan, að blaðið tók út einu gagnrýnina í svari mínu, eða réttara sagt tillögu, (að ritstjórn "Lands og Sona" væri hugsanlega of hagsmunatengd), og bar fyrir sig plássleysi. Gagnrýni þessa mátti auðveldlega setja í flokkinn "pínulítið" miðað við þá skothríð sem kom frá þessum hópi kvikmyndagerðamanna á stjórnun í fagsinu, og hefði ritstjórinn getað svarað henni auðveldlega (kannski var þetta tómt bull í mér?). En þetta voru frekar ósannfærandi vinnubrögð í ljósi þess að ritstjórinn sjálfur segir í DV pistli sl. ár vegna heimildarmyndarinnar "Í skóm drekans" sem lenti í dómsmáli, að þar hafi glitt í ófagra mynd þeirra afla sem vilja hefta tjáningarfrelsi.
Þótt erfitt sé að skilja hvað vaki fyrir ritstjóranum þá var heimsókn eins kvikmyndagerðarmanns uppí Forsætisráðuneyti 2002 fádæmi og sló flestu út í rökleysu, en hann fór til að kvarta undan pólitískri afskiptasemi af Kvikmyndasjóð. En stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands var einmitt pólitísk "afskiptasemi", árlegt framlag er pólitísk "afskiptasemi", ný lög eru pólitísk "afskiptasemi", ný reglugerð er pólitísk "afskiptasemi", og hvað væri íslensk kvikmyndagerð án pólitískrar "afskiptasemi"? Skrítinn kýrhausinn.
Hagsmunir og hugarfar
Ég hef sagt það á handritanámskeiðum að eitt af mikilvægu atriðunum, og oft það skemmtilegasta, sem nemendur verða að hafa í huga áður en farið er af stað eru tengsla hans/hennar við umfjöllunarefnið. Persónuleg eða ópersónuleg.
Ég læt lesendum eftir að átta sig á hverjir eru heildar-og sérhagsmunir, lang- og skammtímahagsmunir, hagsmunir menningar, listar, banka og bústofna, og rek það ekki frekar hér, en rétt að segja frá því að hagsmunir míns fyrirtækis liggja erlendis, og þótt einhverjar áherslur séu á að markaðurinn eigi að hafa sitt að segja þarf ekki að vera samhengi á milli þess og tegund verkefna í vinnslu. En fyrirtækið hefur m.a. farið fram á við KMÍ að það skýri út brot þess á nýrri reglugerð. Þetta snýst þó samt ekki um mitt fyrirtæki, verkefni eða þaðan af síður mína persónu. Hér er um að ræða nokkur grundvallaratriði um samskipti allra kvikmyndagerðarinnar við KMÍ, og hefur faglegt gildi. Það er ekkert leyndarmál, að afgreiðsla KMÍ á svokallaðri 60/40 umsókn míns fyrirtækis og erlendra samstarfsaðila, snýst um fagpólitísk atriði sem varða heildarstefnu KMÍ til frambúðar. Það er hvort skiptiregla skuli gilda eða ekki.
Hér er ekki um sérhagsmuni að ræða heldur fordæmisgildandi meðferð á verkefni sem leitaði mótvirðisfjármagns í anda baráttumáls íslenskra kvikmyndagerðar. Það er mikilvægt að þetta sé á hreinu, og skal enn vitnað í aðeins 6 mánaða gamla skýrslu stjórnar SÍK, "60/40...Einnig þótti mönnum mikilvægt að koma á einhverskonar sjálfvirkni í úthlutun. Þannig að þeir sem geta útvegað 60% fjármagns geti gengið það því sem nokkuð vísu að Kvikmyndasjóður myndi koma með þau 40% sem upp á vantaði. Hugmyndin á bakvið þetta var að láta markaðinn og gefa þannig áhorfendum aukið vægi í vali verkefna, á þann hátt að þær myndir sem væru í raun og veru að ná til áhorfenda kæmu til með að ganga fyrir. Enginn reynsla er kominn á þetta ennþá en vonandi á ákvæði þetta eftir að hleypa nýju lífi í Íslenska kvikmyndagerð."
Ég vil líka vekja athygli á því, þar sem danska fyrirkomulagið var til fyrirmyndar í umfjöllun um skiptiregluna, að aðstæður á Íslandi, það er t.d. smæð markaðar, eru aðrar. Ekki er t.d. hægt að ætlast til að allt mótframlag komi af heimamarkaði nema í mjög litlar myndir og ekki er hægt að ætlast til að kvikmyndahúsin (tvær blokkir í bissniss) verði mælikvarði á gott efni. Í öllum okkar nágrannaríkjum eru fleiri en einn sjóður, eða fjárfestir í kvikmyndum, sem ekki er raunin á Íslandi.
Við skulum svo líka velta upp spurningunni, hver eru viðhorf okkar til óháðrar faglegrar umræðu annars vegar, og umræðu um hagsmuni hins vegar? Þarna er munur á og ég hef órökstuddan grun um að munur á þessu marki líka ákveðið kynslóðabil. Ég var þó lengi þeirrar skoðunar að það væru ekki kynslóðarbil í þess fagi almennt, heldur straumar og stefnur. Ef þetta fer saman þá fer það saman. En viðhorf, eða skulum við segja, hugsunarháttur rótgróinnar fyrirtækja og kvikmyndagerðarmanna til faglegrar umræðu virðist frekar snúist um óljósa hagsmuni.
Vitnum aftur í formann SÍK sem skrifaði í "Land og Synir", "Kvikmyndamiðstöð er glerhús sem mun alltaf safna að sér stórum hópi óánægðra viðskiptavina sem grípa munu hvert tækifæri sem gefst til árása á miðstöðina. Þess vegna er það alltaf mjög mikilvægt að hjá Kvikmyndamiðstöð sé allt gegnsætt, allt á hreinu og að allir hlutir séu afgreiddir faglega."
Þarna er talað af reynslu, enda má formaður SÍK eiga það að leggja meir til umræðunnar en samferðamenn hans. En veitum athygli, og það er það sem átt er við með hugsunarhátt, þessari fullyrðingu að kvikmyndamiðstöð sé glerhús sem mun "alltaf safna að sér stórum hóp óánægðra viðskiptavina sem grípa munu hvert tækifæri sem gefst til árása á miðstöðina". Þarna eru nokkrar fullyrðingar sem lýsa viðhorfum þessarar gömlu kynslóðar afar vel. Í raun er þetta ágæt lýsing á hennar eigin kúltúr sem og gerir hópi kvikmyndagerðarmanna upp viðhorf sem hann þarf ekkert endilega að hafa. Ef að setja fram önnur sjónarmið er sama og grípa hvert tækifæri til árása á miðstöðina, þá er skýrsla stjórnar SÍK dæmi um "tækifæri ... til árása". Svona túlkun á ólíkum sjónarmiðum var einmitt fyrrum framkvæmdastjóra og úthlutunarnefndum að falli, þar sem heildar- og langtímahagsmunir virtust ekki geta verið á bak við nein sjónarmið. Það eru sjálfsagt yngri menn sem tileinka sér líka þessi gömlu viðhorf, en mörg dæmi mætti týna til um ummæli eldri framleiðenda til sjávar og sveita í gegnum tíðina sem lýsa þessum hugsunarhætti. Kannski ristir þetta dýpra og ber vitni um okkar samfélag almennt. En þrælslund hefur verið hermt uppá okkar fyrrum nýlenduþjóð, hún einkennist af því að ef einn "þrællinn" setur fram skoðun, þá halda allir að það sé uppreisn í aðsigi.
Þó það sé kannski eitthvað til í því.
Í þriðju og síðustu grein: Stjórn SÍK, fræg umsögn kvikmyndaráðgjafa og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home