Einar Thor

Saturday, November 27, 2004

Samráðsfundur Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og kvikmyndagerðarmanna

Hvað skyldi forstöðumaður KMÍ og Co. segja fundarmönnum?

Nú er samráðsfundurinn 1. des. nk., fundur sem KMÍ hefur boðað. Hugsanlega er þarna á ferðinni samráðsfundur um að hafa eftirá-samráð, eða samráð um að hafa ekkert samráð, eða samráð um að stjórnendur KMÍ geta gert hvað sem þeim dettur í hug og svikið hvað sem þeim dettur í hug. Skyldi einhver koma á þennan fund og trúa því sem þetta fólk segir?

Þegar sýnt er að KMÍ hefur brotið lög áttu formenn eða fulltrúar FK og SIK í kvikmyndaráði vitaskuld að fara fram á fund í ráðinu og fá upplýsingar. Þeir eru kosnir til að líta eftir hagsmunum fagmanna. Eða hvað?

En þetta var sent til ritstjórnar Fréttablaðsins fyrr á árinu:

“Vegna ummæla forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í Fréttablaðinu sl misseri vil ég koma með þá vinsamlega ábendingu að ummæli forstöðumanns vegna KMÍ og máls Passport Kvikmynda hafa verið ósönn eða standast ekki.

12. júní sl lætur forstöðumaður hafa eftir sér:
“Þegar það er takmarkaður sjóður og margir umsækjendur með verðugar umsóknir þá, því miður, veit maður að margir verða óánægðir. Það er rétt að kvikmyndin fékk ekki skriflega umsögn kvikmyndaráðgjafa. Við fengum mjög margar umsóknir og margar sem biðu svara, meðal annarra Einar.”

Staðreyndin í þessu máli er sú að öllum umsóknum (um eftirvinnslu og kynningarstyrk) allra umsækjenda til KMÍ um þá tegund styrkja sem Passport Kvikmyndir sótti um, var vísað frá. Fyrirtækið var ekki með neina aðra umsókn á þessum tímabili. Þetta tímabil sem forstöðumaður KMÍ tileinkar “mjög mörgum umsóknum” var þá lokið.

Í sömu frétt segir síðan forstöðumaður, sem fáeinum vikum áður hafði fengið úrskurð menntamálaráðuneytis um að hún og KMÍ hafi brotið bæði stjórnsýslulög og reglugerð um kvikmyndasjóð, “Við viljum ekki meina að það hafi að minnsta kosti verið viljandi. Við vitum núna að hún (myndin) er sannanlega tilbúin”.

Staðreyndin er að í andmælum sínum til menntamálaráðuneytisins í desember 2003 vegna stjórnsýslukærunnar taldi forstöðumaður að ekkert athugvert væri við þessa afgreiðslu. Hafi þetta verið “óvart” (ekki viljandi) þá hefur forstöðumaður í 4 síðna andmælabréfi til menntamálaráðuneytisins ekki farið með satt mál (bréf þetta er fáanlegt sé þess óskað), og alltént verið ljóst að ekki var allt einsog átti að vera.

Í september 2003 lætur forstöðumaður hafa eftir sér í Fréttablaðinu:
“Reglurnar segja ekkert um það að tveir ráðgjafa eigi að fara yfir allar umsóknir. Fólk getur hins vegar áfrýjað umsögn annars ráðgjafans til hins. Það hefur Einar ekki gert.”

Staðreynd málsins er að það er ekkert sem segir að aðeins einn ráðgjafi eigi að fara yfir umsóknir, en mikilvægara er þó, að þegar forstöðumaður segir Fólk getur hins vegar áfrýjað, þá hafði þeim upplýsingum ekki verið komið til umsækjenda og engar reglur eru til um það.
Ég vil því skora á blaðið að leita skýringa á því hvers vegna forstöðumaður fer með rangt og villandi mál við blaðamann blaðsins, nánast undantekningarlaust, sérstaklega ef blaðið muni fjalla um eða leita upplýsinga hjá KMÍ í framtíðinni.


Það sem má líka benda á er það sem forstöðumaður segir ekki, t.d. hvers vegna allar fyrirlýsingar varðandi virkni svokallaðrar 40/60 mótvirðisreglu hafa verið dregnar til baka án skýringa. Fyrirheit um virkni þeirrar reglu kom frá nefnd menntamálaráðuneytisins um gerð reglugerðar um KMÍ, og sem forstöðumaður sat sjálf í.

Við höfum óskað eftir fundi með forstöðumanni til að fá skýringar á þessu og mun fleiri atriðum sem varða vinnubrögð KMÍ og við teljum stríða gegn lögum. Forstöðumaður hefur ekki þegið það boð. Þá teljum við að forstöðumanni sé ekki heimilt að vísa í 3. tl. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga sem fjallar um undanþágu fyrir rökstuðning og kæruheimild, enda hafi reynsla sýnt fram á að sú regla er hvorki algild né ótvíræð.

Með kveðju

Einar Þór Gunnlaugsson”

Meira um þetta síðar.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home