Einar Thor

Friday, November 26, 2004

Hvað heldurðu að þú sért?

Í fölsunarmálinu kennt við málverk var álit Listasafns Íslands til skamms tíma talið óvefengjanlegt. Það var það ekki á endanum og málið féll saman fyrir dóm. Hvernig mönnum datt í hug að til væri einn sannleikur í formi sérfræðiálits eins opinbers aðila átti sér eðlilega skýringar. Ofurtrú og kannski gömul rómantík.

Á fyrstu áratugum sjálfstæðis og lýðveldis voru stofnanir einsog listasafnið settar á laggirnar. Hugtökin listir, menning og vísindi voru í tilfellum sett saman í eitt ákvæði íslenskra laga og settar á fót stofnanir sem við áttum sjálf, t.d. háskóli, þjóðleikhús, RUV, veðurstofa, hafrannsóknarstofnun og ein hljómsveit. Allt prýðilega spennandi verkefni. Og það var ekki lengur innan verksviðs útlendinga að ákveða hvað íslensk list væri og sýna hana, eða íslensk menning, eða íslenskur bisniss, eða íslenskt veður. Þetta var nútíminn, þarna voru komnar íslenskar stofnanir sem hjálpuðu íslendingum að átta sig á hverjir þeir voru, svo þeir þyrftu ekki lengur að “halda það”.

En málið snérist um að “við” ættum þessar stofnanir, ekki endilega og alltaf hvað þær voru nákvæmlega að gera, þær voru hluti af sjálfsmynd þjóðar. Þar var einstök sérfræðiþekking á þeim tíma og engin nema ríkið sem hafði bolmagn til að koma þeim á fót. Þaðan komu álit sem trúað var einsog veðurspá eða seiðatalningu í sjó, sama hvaða stofnun átti í hlut. Og þessi ofurtrú hefur víða haldist fram á þennan dag nema hvað varðar álit sérfræðinga Listasafn Íslands fyrir dómstólum, og t.d. rekstur RUV, og jú, nú fyrr í haust Launasjóðs rithöfunda. Nýlega kom í ljós eftir athugun umboðsmanns Alþingis að vinnubrögð úthlutunarnefndar Launasjóðs rithöfunda voru ekki fullnægjandi. Í flestum Evrópulöndum hefði þessi niðurstaða þýtt að launasjóðurinn hefði misst andlitið og allir reknir. Og það virðist liggja fyrir eftir athugun að einstaklingar sem sinna úthlutunarstörfum bjuggu til einhvers konar “æ, þú veist hvað ég meina” reglur.
Hitinn í kringum fjölmiðlafrumvarpið t.d. lýsti ekki aðeins hagsmunaárekstrum og ósátt við stjórnarhætti heldur líka tilfinningu fyrir sögu, og eftirsjá. Kannski baráttu um gamla sjálfsmynd í bland. Þessi tilfinning á sér örugglega líka samastað í fleiri ríkisstofnunum. En eftirsjá þarf ekki að vera slæmur hlutur, “að sjá á eftir” einhverjum. Eftirsjáin lýsir ekki endilega vonbrigðum, heldur verður sjarmerandi þegar hún lýsir gamallri von, ósk um hugsjón, ást eða útópíu sem þó varð aldrei.

Og snilldin. Samspil lista og vísinda nær líklega hámarki þegar reyndur og virtur veðurfræðingur Veðurstofu Íslands lýsir einum snjóskafl í Esjunni. Stærð skaflsins segir margt um tíðarfarið og hægt er að sanna það líka með vísindalegum hætti. Og það er alltaf jafn gaman að heyra manninn tala um þennan skafl. Þetta er snilld, klassík. Sömu sögu má segja um trillusjómenn sem líta til vesturs og sjá nes bera við klett, líta svo til norðurs og sjá hól bera við fjall, og þá vita þeir að fyrir neðan þá er sandbotn fullur af æti sem þorskurinn leitar í. Annað og vel heppnað form menningar, lista og vísinda í einum pakka. Samspil menningar og vísinda nær þó líklega lágmarki þegar þeim er blandað saman í lagaákvæðum.

Ein er t.d. setning í íslenskum lögum sem kveður á um að ekki þurfi að rökstyðja opinbera ákvörðun vegna styrkveitinga til menningar, vísinda, o.fl. Þess vegna er ekki hægt að spyrja úthlutunarnefndir Launasjóða rithöfunda, myndlistamanna, ýmsar deildir RUV o.s.frv. margra spurninga. Vísindi hafa þó þá “afsökun” að þar eru vísindalegar aðferðir notaðar til að sýna fram á gildi hlutana. En þarna er menning, listir og vísindi sem sagt í einni óheppilegri lagasúpu og hin upprunalega forsenda þessa ákvæðis er horfinn. Því þegar menning eru orðin markaðsvara og hinn skapandi iðnaður að verða til þá eru ný lagaákvæði um viðskiptihætti sem gera önnur lög (ákvæði) um menningu úreld. En þeim þarf samt að breyta. Hefðu menn sem rannsökuðu mál falsaðra málverka ekki látið breytt samfélag rugla sig í ríminu, þá hefði sagan verið þeim hliðhollari.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home