Einar Thor

Thursday, January 06, 2005

Mikið gerst, lítið breyst - Hugleiðing um kvikmynd og kalt stríð

(birtist á kistan.is i september sl.)

Ferðalag þeirra Ernesto Guevara og Alberto Granado 1952 frá Buenos Aires í Argentínu, yfir Andesfjöllin til Chile og þaðan upp til Perú, er efni "Mótorhjóla Dagbóka", kvikmynd sem frumsýnd var hér í London sl. föstudag 27. ágúst. Þeir Ernesto, þá 23 ára gamall, og Alberto 29 ára gamall, voru meðvitaðir ungir menn sem vildu kynnast álfunni sem tilvonandi læknir og lyfjafræðingur, sjá heiminn, fara á kvennafar, læra eitthvað nýtt, einsog t.d. að dansa. En Ernesto þekkti ekki muninn á tangó og mambó, sem var vandræðalegt. Í Evrópu er svipað ferðalag í dag kallað "Interrail".

Hvers vegna þeir félagar völdu þessa leið er ekki vitað. Hvers vegna fóru þeir ekki sjóleiðina suður fyrir til Chile, þeir hefðu getað horft á landslagið frá sjó og spilað póker á þilfarinu, eða flogið yfir Andes. En þótt leiðin yfir fjöllin sé ekki óvenjuleg má gera ráð fyrir að vinirnir hafi líkt og margar kynslóðir rómönsku Ameríku, drukkið með móðurmjólkinni frásagnir af goðsögnum álfunnar. Jose de San Martin, Simon Bólivar og Fransisco de Miranda svo nokkrir séu nefndir og sem ferðuðust um yfir Andesfjöllin með heri sína. Vinirnir tveir ætluðu sér svo að klára 5000 kílómetra á fimm mánuðum, fara í gegnum Atacama eyðimörkina, heimsækja Amazon Peru-megin, Lima, og loks Venesúela.

Þeir tvímenna á mótorhjóli, Norton árgerð 1939 sem þeir kalla "La Poderosa" (sú kraftmikla) og byrja á því að keyra vestur yfir Andes, leið sem herdeild O´Higgins fór undir stjórn San Martins um 1820 til Chile. Síðan halda þeir norður eftir vesturströndinni, hjá Rancagua og Malbu í Chile sem frægir eru fyrir dramatíska bardaga frelsisherja San Martins við spænska herveldið. Bardagar sem gáfu Waterloo ekkert eftir, en í frelsishernum voru allt frá írskum og enskum ævintýramönnum til þræla, nýsloppnir undan oki spænsku yfirstéttarinnar og sem börðust af þeim innblástri sem þurfti til til að brjóta á bak aftur ofurefli Spánverja. Síðan koma þeir til Gallao í Perú og Lima, þar sem sem hinir frægu fundir Bólivars og San Martins fóru fram. Tveggjamannatal um framtíð álfunnar. Vangaveltur sagnfræðinga um hvað fór þeirra á milli, hvers vegna San Martin dró sig í hlé eftir fundinn, og hvers vegna Bólivar hélt síðar til "Efri Perú", sem nú er Bólivía, enda flestar á eina lund. Þetta voru menn sem sóttust ekki eftir völdum, auðæfum eða stanslausum koktelpartíum, þetta voru hugsjónamenn, klassískar hetjur með sverð og byssu, og síðar innblástur ungra manna og kvenna um alla álfuna.

Það er einn kosta þessarar myndar að ekkert og engin minnir beint á sögu frelsisstríðanna miklu á milli 1800 og 1850 eða hetjur þeirra, þar sem framtíð álfunnar mótaðist til hins betra, og til hins verra. Og ekkert sem vísar í seinnitíma pólitík, einræðisherra og herstjórnir. Það hlýtur hins vegar að vera að einhverstaðar sækja þessi ferðafélagar arfleið sína og áhrif, og við skynjum það. Það er svo ekki fyrr en við sem áhorfendur erum leidd með ferðafélögunum til hinna yfirgefnu en mögnuðu borgar Inkanna, Machuu Pichuu, að við erum minnt á tragedíuna, á eyðileggingu siðmenningar og hina ofsafengnu græðgi vestrænna ríkja í rómönsku Ameríku.

Uppbygging og frásögn myndarinnar er engin tilviljun, þar fer saman tæknileg kunnátta, meitluð listræn stjórnun og metnaður til að segja einhverskonar sannleika úr sögu álfunnar, og sá metnaður kemur ekki síst fram í því að lítið hefur verið til sparað til að skila kvikmynd sem er góð fyrir augað.

Suður - Norður
Ein er kenningin að ástæðan fyrir því að norðurhluti Ameríku, það er Bandaríkin og Kanada, reyndist gæfusamari eftir að frelsisstríðunum lauk er að þessi hluti álfunnar náði að sameinast í stærri einingar. Suður og miðhlutinn var og er frjósamur, gull- og silfurnámur á vesturhlutanum, olíulindir í norðri, fiskimið útaf Chile í suðri og öflug landbúnaðarhéruð í austurhlutanum. En, álfan var bútað niður í fjölda smáríkja, sumir ungu herstjóranna úr frelsisherjunum vildu sitt, að verða landstjórar, kóngar, og til urðu smákóngalönd sem síðar urðu ofurseld einræðisherrum sem lögðu á nýja skatta og álögur sín á milli. Það mistókst, líkt og Bólivar og San Martin höfðu dreymt um, að sameina álfuna undir eina stjórn yfir mörgum fylkjum. Auðæfi álfunnar nýttust illa og fljótlega arðrænd af þeim í norður Ameríku. Og það ekki löngu eftir að Spánverjar fóru. Tímabil leppstjórna, herstjórna, fangelsa, fátæktar og tíðra valdarána tók við.

Þegar þeir Ernesto og Alberto fóru á Norton mótorhjólinu sínu voru þeir sem sagt að skoða þessa álfu, sjá heiminn, læra eitthvað nýtt, einsog að dansa tangó-mambó. Og þótt 50 ár sé liðin síðan það var og um 150 ári síðan frelsisstríðunum lauk, þá var það aðeins um daginn að 89 ára gamall Pinochet fékk þær fréttir að hann yrðir dreginn fyrir dóm fyrir sakir sem er góður hluti sögu rómönsku Ameriku sl. 200 ár í hnotskurn. Líklega verður Pinochet ekki dæmdur fyrir allar syndir suður amerískra einræðisherra, en þótt þessir glæpir séu orðnir sögulegir og kannski fyrndir í einhverjum tilfellum, þá sýna réttarhöldin sem von er á í Chile að þessari sögu er ekki enn lokið. Þau undirstrika að kalda stríðið í norðri var ekki það sama og kalda stríðið í suðri. Fundur utanríkissráðherra Natóríkjanna í Reykjavík fyrir fáeinum árum lýsti því yfir að kalda stríðinu væri lokið, listaverk var afhjúpað við hátíðlega athöfn og sagðir enskir brandarar með rússneskum hreim.

Það ríkti annars konar stríð í suðri, það var ekki gagnkvæmt spennuástand tveggja valdablokka, það var klassísk nýlendukúgun í skjóli vestrænna "hugsjóna". En framhald á uppgjöri við kaldastríðs tímann á sjálfsagt eftir að teygjast vel frameftir þessari öld og spurningunni hvort vestrið hafi unnið eða austrið hafi tapað, sem þarf ekki að vera það sama, er ekki svarað svo allir séu ánægðir.

Mótorhjóla Dagbókin og Michael Moore
Þessi saga af Ernesto Guevara, sem síðar varð ein af goðsögnum kaldastríðstímans er á engan hátt saga kaldastríðsins. Ekkert minnir á valdablokkirnar gömlu og hetjur eða skúrka þeirra, en það sem myndinni tekst er að fanga athygli áhorfendans án þess að hann þurfi að vita hvað eigi eftir að liggja fyrir Ernesto, sem síðar fékk nafnið Che Guevara. Í lífshlaupi Ernesto má hins vegar finna margar hliðstæður við sögu goðsagna rómönsku Ameríku, ferðalög hans samanborið við ferðir Miranda í Evrópu fyrir 1800. Innrás Miranda í Venesuela á litlum bát, og síðar innrás Bólivars á sömu strendur, hvernig Miranda var svikin í hendur óvina sinna í Garacas, og hvernig Che var svikin í hendur CIA.

Myndinni er leikstýrt af Walter Salles frá Brasilíu, tökumaðurinn er Eric Gauter frá Frakklandi, Ernesto er leikinn af argentíska leikaranum Gael Garcia Bernal, Granado af mexíkóska leikaranum Rodrigo De la Serna en myndin er framleidd af Robert Redford, frá Hollywood. Hún hefur áru heimildarmyndar, að litlu leit í stíl því kvikmyndataka er sjaldan losaraleg, þótt svart/hvítar myndir í lok myndarinnar gefi endinum heimildarlegt yfirbragð, heldur vegna uppbyggingar og frásagnar. Það er ekkert plott þar sem okkur er brugðið á "réttum" stöðum, eða "stór" endir. Það er bakgrunnur sögunnar, kynni af daglegu lífi og andrúmslofti þessa tíma sem fanga. Senur eru teknar upp líkt og í hefðbundri bíómynd og nánast allri vinnslu hennar og aðstæðum við upptökum er stjórnað af miklum metnaði, hugsað frá upphafi til enda. Þessi ára heimildarmyndarinnar hefur hugsanlega hjálpað henni við að fá almenna kvikmyndahúsa dreifingu hér en þær eru greinilega komnar til að vera, það er heimildarmyndir í fullri lengd.

Það eru fáar, kannski engar, kvikmyndir sem hægt er að líkja henni við. Hollywood myndin "Che" frá 1969 með Omar Sharif er skelfilega vond og þess vegna gleymd, og "Maður allar árstíða" eftir Alan Parker er í hálfgerðum tilbiðslustíl. Hugsanlega má finna einhverja hliðstæðu í persónunni í "Lawrence of Arabia", þar sem einn maður kýs að berjast með þeim málstað, ekki her, sem hann telur réttann. Ég veit ekki hvort það er tilviljun að "Farhenheit 9/11" eftir Micheal Moore hafi verið gerð á sama tíma, en ólíkari myndir er varla hægt að finna. Mynd Moores er allt sem mynd þeirra Salles og Redfords er ekki.

Moore fer troðnar slóðir, hann sækir efni sitt og rök að hluta í pólitískar bókmenntir, bandarískar og akademískar, sýður niðurstöðu sína saman með íróníu og "down town" gálgahúmor, fléttir ofan af Bush-stjórninni og velur sama tón og annar blómarósastrákur frá 1968, Hunter S. Thompson. Hunter var einhvers konar Michael Moore áttundaáratugarins og gaf bókum sínum titil einsog "The Generation of Swines" þegar Ronald Reagan var við völd. En margir blaðamenn af "víetnamkynslóðinni", vissu ekki alveg hvernig ætti að takast á við afleiðingar Víetnamsstríðið eða t.d. aulahátts bandarískrar stjórnvalda í Kambódíu, nema þá helst með íróníu. Stíll "Farhenheit 9/11" endurspeglar þessa íróníu, hann er ólíkt mynd Salles losaralegur og í anda dogma, hreyfanlegur og að mörgu leiti notaður á kraftmikinn hátt. En hvað sem innihaldinu líður og öllu því sem má kalla "politcally correct", þá er gálgahúmorinn, satt að segja, dálítið þreytandi til lengdar. Við hliðina á "Mótorhjóla Dagbókinni" er einsog "Farhenheit 9/11" sé of klár, of sniðug, of allt, sprottinn úr vestrænni poppmenningu sem þrýfst á kapphlaupi um sviðljós. Hún þó færir rök fyrir þeirri skoðun, að bandaríkjamenn hafa alltaf verið hörðustu andmælendur eigin stjórnmála.

Sannleikurinn
Samanburður mynda Michael Moores og þeirra Walters Salles og Roberts Redford er hugsanlega ekki sanngjarn því efni þeirra eru mjög ólíkt og lagt af stað með ólíkt veganesti. En var takmarkið með gerð þessara mynda ekki á sömu nótum, það er að segja sannleikann, sannleika sem tengist á ólíkan hátt sömu pólitískum straumum?

Jarðsamband, og skilningur á þessum rótum sem sú pólitík er sprottin úr sem fjallað er um í "Farhenheit 9/11", er víðsfjarri. Við skynjum það ekki. Formið kaffærir efnið svo það skili sér sem kvikmynd. Þess vegna mun í mínum huga "Farhenheit 9/11" gleymast fljótt. Hún segir ekki mikið af nýjum fréttum þótt einhverjir vinstrimenn hugsi kannski "gott á þá", hún virkar einsog eletrónísk útgáfa af morgunblöðunum, fréttaskýringaþáttur í léttum dúr sem við höldum að sé kvikmynd af því við höfum aldrei séð svona fréttaskýringarþátt, eitthvað sem við vorum búin að sjá og bætir litlu við. Mótorhjóla Dagbókin" minnir okkur hins vegar á grundvallaratriði, hún nýtir formið og nær hughrifum án þess að predika, er alvöru kvikmynd.

Samanburðurinn er því áhugaverður, auk þess sem saga þessara tveggja ungu manna á ferðalagi um suður Ameríku er sönn og minnir á að aðstæður þorra fólks í álfunni í dag hefur lítið breyst þótt mikið hafi gerst. Vonandi gefst íslenskum bíógestum tækifæri til að sjá þetta ferðalaga.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home