Einar Thor

Monday, December 27, 2004

Að finna upp hjólið, aftur - - um kvikmyndagerð

Með breytingum á reglum vegna úthlutuna úr Kvikmyndasjóðs Íslands sem taka gildi nú á milli jóla og nýárs fylgja þau skilaboð Kvikmyndamiðstöðvar Íslands (KMÍ) og menntamálaráðuneytisins, að eðlilegt sé að það taki tíma að þróa það nýja kerfi sem komið var á með nýjum kvikmyndalögum. Þá sé það líka ljóst að útfærsla reglna um sjóðinn yrði ekki endanleg fyrr en reynsla væri komin á framkvæmdina.
Útaf fyrir sig er það ekki ómerkileg fílósófía að reglur geti verið endanlegar, en þar sem aðalfundur Félags Kvikmyndagerðamanna (FK) er í þessari viku er óvitlaust að koma því á framfæri hvers vegna þetta er ekki rétt og hvers vegna þessar breytingar skipta litlu máli. Þau brot sem KMÍ hefur framið gagnvart a.m.k. sex aðilum sl. misseri koma í aðalatriðum nýju kerfi eða aðlögun ekkert við. Þessi brot eru annars eðlis, þetta er aum afsökun fyrir því að taka enga ábyrgð, nema að þessi séríslenska þvermóðska sé orðin daglegt brauð hjá KMÍ. Það brot sem átti sér t.d. stað við úthlutun kvikmyndasjóðs til myndarinnar “Opinberun Hannesar” 2003 var heldur ekki brot á kvikmyndalögum og kom nýju eða gömlu kerfi heldur ekkert við. Þessi “nýju” kvikmyndalög voru afgreidd frá alþingi í desember 2001, og teljast varla ný. Reglugerð var undirbúin og var sú vinna ekki síst byggð á reynslunni af Kvikmyndasjóð Íslands í rúm 20 ár. Það mikill tími var tekinn í gerð hennar að úthlutanir féllu niður árið 2002 og til sumars 2003.
Núverandi kerfi er auk þess ekki nýtt, það er engin að finna upp hjólið og fyrirmyndir eru til í helstu viðskiptalöndum okkar í einhverri mynd, utan sem innan kvikmyndagerðar, og fyrir mjög áhugasama má benda á umræður á alþingi í tíð Svavars Gestssonar menntamálaráðherra um þessi mál. Breytingar á þessari reglugerð eru ekki í samræmi við mikla reynslu af framkvæmd þessara reglna, heldur er fyrst og fremst sviðsetning á fálmkenndri sýndarmennsku. Hvað gerðist t.d. með þróun 60/40 mótvirðisreglunar og hvers vegna er ekki áfrýjunarkerfi? Við þessar aðstæður geta kvikmyndaráðgjafar ennþá sent umsækjendum uppskrift að appelsínumarmelaði og kallað það umsögn. Eða hvers vegna breytingu á reglugerð, undirrituð af ráðherra, þegar breytingarnar eru ekki meir en svo að stofnuninni væri fjálst að setja þessar reglur uppá sitt einsdæmi og smella því á heimasíðu sína. Hvers vegna eru fagfélög ekki höfð með í ráðum um breytingar og hvers vegna nær ráðuneytið sér ekki í sérfræðiþekkingu á faginu, frá t.d. óháðum erlendum aðila, svo þessi mál enda ekki öll inná borðum þess aftur. Þetta er leikrit, það er hægt að segja allt við kvikmyndagerðarfólk.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home